TÍMARIT Máls og menningar varð til á umbrotatímum í pólitík. Mikill uppgangur var í vinstrihreyfingunni hér á landi sem átti, að sumra mati, upptök sín í Bréfi til Lárueftir Þórberg Þórðarson sem kom út 1924. Upp úr miðjum þriðja áratugnum fóru íslenskir róttæklingar að minnsta kosti að verða mjög áberandi í menningarlífinu.
Vettvangur tilrauna

Tímarit Máls og menningar á sextíu ára afmæli á þessu ári en það varð til við samruna Rauðra penna og "litla tímaritsins" svokallaða árið 1939. Þröstur Helgason ræddi við ritstjóra þess, Friðrik Rafnsson, um þróun tímaritsins á þessu tímabili og stöðu þess nú.

TÍMARIT Máls og menningar varð til á umbrotatímum í pólitík. Mikill uppgangur var í vinstrihreyfingunni hér á landi sem átti, að sumra mati, upptök sín í Bréfi til Láru eftir Þórberg Þórðarson sem kom út 1924. Upp úr miðjum þriðja áratugnum fóru íslenskir róttæklingar að minnsta kosti að verða mjög áberandi í menningarlífinu. Árið 1926 sölsa vinstrimenn undir sig menningartímaritið, Iðunni , og stjórnmálatímaritið, Rétt , sem verða helsti vettvangur skrifa þeirra næsta áratuginn. Félag byltingarsinnaðra rithöfunda var svo stofnað árið 1933. Helsti forsprakki þess var Kristinn E. Andrésson, en ásamt honum voru stofnendur meðal annarra skáldin Halldór Stefánsson, Steinn Steinarr og Halldór Kiljan Laxness. Tveimur árum síðar stofnaði félagið ársritið Rauða penna , en þar birtist stefna þess hvað best. Árið 1937 er svo bókmenntafélagið og bókaútgáfan Mál og menning stofnuð en hún hóf útgáfu á fréttabréfi, sem kallað hefur verið "litla tímaritið", árið 1938. Seint á árinu 1939 kom hins vegar út nýtt og stærra tímarit sem myndaðist við samruna "litla tímaritsins" og Rauðra penna . Í þessu riti, sem nefndist og nefnist enn Tímarit Máls og menningar (TMM), var rödd róttæklinga sterk og kannski aldrei sem fyrr en áhersla var lögð á alþýðumenntun og þjóðernisstefnu.

Lengi framanaf hélt TMM tryggð við hinn pólitíska málstað en í seinni tíð hefur hann þokast í skuggann af fræðilegri en jafnframt almennri umfjöllun um bókmenntir og menningu. Kristinn E. Andrésson var ritstjóri ritsins allt frá stofnun til ársins 1970, eða í þrjátíu ár. Aðrir ritstjórar og meðritstjórar hafa verið Jakob Benediktsson (1946­ 1975), Sigfús Daðason (1960­ 1976), Þorleifur Hauksson (1977­ 1982), Silja Aðalsteinsdóttir (1981­1987), Vésteinn Ólason (1983­1985), Guðmundur Andri Thorsson (1987­1989), Árni Sigurjónsson (1990­1993) og nú gegnir Friðrik Rafnsson ritstjórastöðu tímaritsins en aðstoðarritstjóri er Ingibjörg Haraldsdóttir. Ritnefnd skipa þau Árni Bergmann, Kristján Árnason, Pétur Gunnarsson og Soffía Auður Birgisdóttir.

Ekki jafn pólitískt

Friðrik Rafnsson segist hafa kynnst TMM fyrst þegar þar birtust greinar sem lýstu pólitískri afstöðu til þjóðfélagsmála og bókmenntirnar voru skoðaðar í sögulegu og þjóðfélagslegu ljósi. "Þetta var á ofanverðum áttunda áratugnum og maður var að glugga í tímaritið á Amtsbókasafninu á milli kennslustunda í Menntaskólanum á Akureyri. Ég fór svo í nám til Frakklands. Þegar ég kom heim eftir sjö ára útiveru hafði bragurinn á tímaritinu breyst mikið. Hin þjóðfélagslega umræða hafði færst meir inn í fjölmiðlana og hlutverk tímaritsins í margbreytilegri fjölmiðlaflóru orðið annað. Það einbeitti sér nú meir að bókmenntunum og svo stærri spurningum í umræðunni. Þetta var góð þróun og sennilega óhjákvæmileg, það er mjög hæpið að tímarit sem kemur út ársfjórðungslega geti tekið þátt í dægurþrasinu. Tímaritið er þannig ekki jafn pólitískt og það var en auðvitað reynir það eftir sem áður að takast á við knýjandi spurningar sem liggja á samtímanum."

Friðrik segist ekki hafa gert miklar breytingar á tímaritinu þegar hann tók við ritstjórn þess árið 1993. "Ég tók við mjög góðu búi af Árna Sigurjónssyni og þar á undan Guðmundi Andra Thorssyni. Ég gerði þó smávægilegar breytingar á útliti tímaritsins, skipti um pappír, leturgerð og uppsetningu. Nú um áramótin breyttum við útliti kápunnar með það að markmiði að gera hana stílhreinni og skýrari. Í seinni tíð höfum við líka gert meira af því að tileinka einstök hefti tilteknum þemum með það að augnamiði að gera það fjölbreyttara. Við höfum verið með Nietzschehefti, Berlínarhefti og Laxnesshefti, svo dæmi séu tekin."

Ekki fréttabréf Máls og menningar

Í nýjasta heftinu skilgreinir Friðrik tímaritið sem alþýðlegt menningartímarit og segir aðaltilgang þess að "leggja á sinn hljóðláta hátt rækt við menningararf okkar og auðga menningu okkar með því að veita lesendum innsýn í það sem merkast þykir erlendis nú um stundir."

Friðrik segir að það sé kannski ekki síður mikilvægt að geta þess sem tímaritið er ekki. "Það er ekki harðsoðið fræðirit. Við gerum kröfu um að höfundar skrifi á skýru máli og geri fræðilegar kenningar aðgengilegar fyrir sem flesta lesendur. Tímaritið er heldur ekki einhvers konar fréttabréf Máls og menningar eins og sumir halda. Í því eru ekki eingöngu birtar greinar um og eftir höfunda sem Mál og menning gefur út heldur reynir það að spanna sem víðast svið, hér er með öðrum orðum ekki spurt hvar fólk gefur út bækurnar sínar heldur hvort það hafi eitthvað áhugavert fram að færa."

Eins og fram kemur hjá Friðriki hefur tímaritið reynt að vekja athygli á því sem er að gerast í erlendum samtímabókmenntum. Á undanförnum árum hefur þessi þáttur gildnað nokkuð í ritinu. Komið hefur verið á samstarfi við erlend bókmenntatímarit. Fyrir skömmu birtist til dæmis nýtt viðtal við Nóbelshafann Saramago sem birtist upphaflega í franska bókmenntatímaritinu L'Atelier du roman , en nýjasti ávöxtur þessa samstarfs er að í byrjun mars síðastliðins var þetta sama tímarit að mestu helgað íslenskum skáldsagnahöfundum.

"Íslenskur samtímaskáldskapur er annars okkar aðalviðfangsefni," segir Friðrik. "Allt frá stofnun tímaritsins hefur það leitast við að hlusta eftir nýjum röddum og þau eru ekki fá skáldin sem hafa birt sín fyrstu ljóð eða sína fyrstu sögu á síðum þess. Þetta er jafnframt einn skemmtilegasti hluti starfseminnar. Það er ennfremur afar spennandi að fá að birta glænýtt efni frá eldri höfundum en við erum eingöngu með áður óbirt efni í ritinu. Slíkt er mikill heiður. Tímaritið er þannig að vissu leyti vettvangur fyrir ýmiss konar tilraunir, höfundar eru að prufukeyra ljóð, sögur og ritgerðir sem síðar koma oftlega út á bók. Þetta er mjög mikilvægur hluti af starfi okkar."

Straumar samtímans

Stundum hefur verið talað um að það sé alltaf sama fólkið sem skrifar í íslensk bókmenntatímarit. Friðrik segir að þetta endurspegli einungis smæð bókmennta-, menningar- og fræðasamfélagsins. "Það er í raun fátt við þessu að gera og þótt það virðist ef til vill fjarstæðukennt þá eiga tímarit í milljónasamfélögum við þennan sama vanda að glíma. Ef flett er í gegnum þýsk, bresk eða frönsk tímarit af þessu tagi þá sjá menn sömu nöfnin dúkka upp aftur og aftur. Í París er til dæmis talað um 300 manna hópinn í þessu samhengi."

Íslensk bókmenntatímarit hafa stundum verið gagnrýnd fyrir að fylgja ekki nægilega vel eftir nýjum hugmyndalegum straumum sem eru uppi í íslensku fræðasamfélagi. Friðrik mótmælir þeirri gagnrýni og segir að TMM hafi bæði verið með umfjöllun um einstök málefni sem hafa verið ofarlega á baugi í fræðilegri umræðu hér á landi og sýnt hugmyndafræðilegum og aðferðafræðilegum hræringum áhuga. "Við vorum til að mynda með þemahefti um íslenskt þjóðerni á lýðveldisafmælinu 1994 en það efni hefur verið mjög til umræðu síðustu ár. Og á undanförnum misserum höfum við birt greinar sem hafa verið innlegg í deilur um póstmódernisma sem komust í hámæli á síðasta ári. Sömuleiðis síast þessir straumar samtímans inn í tímaritið með ýmiss konar greinum sem eru kannski ekki beinlínis að fjalla um þá, til dæmis í viðtölum við menn eins og franska heimspekinginn Jacques Derrida fyrir fáum árum og portúgalska Nóbelshöfundinn, Saramago, sem birtist á síðasta ári. Ég held því að TMM taki virkan þátt í fræðilegri, hugmyndalegri og samfélagslegri umræðu þótt hér birtist ekki lengur neinar baráttugreinar. Þær eiga frekar heima í dagblöðunum.

Hlutverk menningartímarita eins og TMM er held ég að vera eins konar millistig milli yfirborðslegrar fjölmiðlaumfjöllunar og tiltölulega lokaðrar háskólaumræðu. Hérna getur fólk nálgast greinar um flókin efni á aðgengilegu máli, fengið innsýn í heim sem það hefði kannski ekki mikinn aðgang að annars. Að þessu leyti hefur hlutverk tímaritsins ekki breyst mikið í gegnum árin, sem sé að reyna að miðla sæmilega vitrænni hugsun til áhugasams almennings."

Engar kollsteypur

Friðrik segir að TMM sé frekar íhaldssamt í eðli sínu en þó séu ýmsar nýjungar á döfinni, einkum hvað varðar möguleikana sem Netið býður upp á. "Við erum byrjuð að nýta þessa tækni til þess að koma efni á framfæri á fljótvirkari hátt. Við höfum birt talsvert af efni tímaritsins á heimasíðu Máls og menningar (www.mm.is) og stefnum að því að bjóða rafræna áskrift að ritinu sem ætti til dæmis að geta komið Íslendingum erlendis og fleiri hópum vel. Efnislega eru hins vegar engar kollsteypur á döfinni hjá TMM."

Morgunblaðið/Sverrir FRIÐRIK RAFNSSON, ritstjóri Tímarits Máls og menningar , segir að hlutverk menningartímarita eins og TMM sé að vera eins konar millistig milli yfirborðslegrar fjölmiðlaumfjöllunar og tiltölulega lokaðrar háskólaumræðu.