Hundrað ár frá fæðingu Jóns Leifs tónskálds Fjölbreytt afmælisdagskrá á morgun Á MORGUN, 1. maí, eru hundrað ár liðin frá fæðingu Jóns Leifs tónskálds og af því tilefni stendur Tónskáldafélag Íslands fyrir fjölbreyttri afmælisdagskrá sem hefst kl.
Hundrað ár frá fæðingu Jóns Leifs tónskálds Fjölbreytt afmælisdagskrá á morgun

Á MORGUN, 1. maí, eru hundrað ár liðin frá fæðingu Jóns Leifs tónskálds og af því tilefni stendur Tónskáldafélag Íslands fyrir fjölbreyttri afmælisdagskrá sem hefst kl. 10 í fyrramálið með því að tónskáld leggja blómsveig á leiði Jóns í Fossvogskirkjugarði.

Jón Leifs var einn af stofnendum Tónskáldafélags Íslands, Samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), og Bandalags íslenskra listamanna. "Jafnframt því að vera eitt af litskrúðugustu tónskáldum þessarar aldar er hann tvímælalaust þekktasta tónskáld okkar Íslendinga," segir Kjartan Ólafsson, formaður Tónskáldafélags Íslands.

Heimasíða, handritasýning

og fyrirlestrar

Kl. 11 hefst dagskrá í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem Björn Bjarnason menntamálaráðherra mun opna heimasíðu Jóns Leifs, sem tónlistardeild Ríkisútvarpsins og Íslensk tónverkamiðstöð hafa sett upp. Þá hefst þar sýning á handritum Jóns Leifs í samvinnu við Íslenska tónverkamiðstöð. Þar verða til sýnis eldri handrit Jóns ásamt nýjum tölvusettum handritum sem unnið hefur verið að undanfarna mánuði með styrk frá menntamálaráðuneytinu. Í tengslum við þá sýningu munu þeir Árni Heimir Ingólfsson og Carl-Gunnar Åhlen halda stutta fyrirlestra um Jón og tónlist hans, en sá síðarnefndi hefur ritað ævisögu tónskáldsins, sem kemur út í íslenskri þýðingu síðar á árinu.

Afmælistónleikar í Þjóðleikhúsinu

Sérstakir afmælistónleikar verða svo í Þjóðleikhúsinu kl. 14, en þar flytur Kammersveit Reykjavíkur ásamt einsöngvurum fjögur verk eftir Jón undir stjórn Johanns Arnells. Aðeins eitt verkanna, Nótt op. 59 fyrir tenór og baritón og litla hljómsveit, hefur áður verið flutt hér á landi áður en það var á minningartónleikum um tónskáldið 1969. Guðrúnarkviða op. 22 fyrir mezzósópran, tenór, bassa og hljómsveit, var frumflutt í Ósló 1948, en hin verkin tvö verða frumflutt á tónleikunum á morgun. Það eru Helga kviða Hundingsbana op. 61 fyrir alt, bassa og litla hljómsveit og Grógaldr op. 62 fyrir alt, tenór og hljómsveit.

Níu einsöngvarar taka þátt í flutningnum; þau Bergþór Pálsson, Einar Clausen, Finnur Bjarnason, Guðbjörn Guðbjörnsson, Guðjón Óskarsson, Guðrún Edda Gunnarsdóttir, Jóhann Smári Sævarsson, Jóhanna Þórhallsdóttir og Þórunn Guðmundsdóttir.

Aðgangur að tónleikunum í Þjóðleikhúsinu er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.

Morgunblaðið/Ásdís FRÁ æfingu Kammersveitar Reykjavíkur og einsöngvaranna Guðbjörns Guðbjörnssonar, Þórunnar Guðmundsdóttur og Guðjóns Óskarssonar á Guðrúnarkviðu, sem flutt verður á afmælistónleikum í Þjóðleikhúsinu á morgun.