ÓSKAR Guðjónsson tónlistarmaður fjallar um nýja breiðskífu Klute Casual Bodies. Hann kemur fram á Kaffi Thomsen í kvöld og Ráðhúskaffi á Akureyri annað kvöld. Bassinn lekur eins og kvikasilfur milli nótna NÝJASTA afurð tónlistarmannsins Klute er geisladiskurinn Casual Bodies.
ÓSKAR Guðjónsson tónlistarmaður fjallar um nýja breiðskífu Klute Casual Bodies . Hann kemur fram á Kaffi Thomsen í kvöld og Ráðhúskaffi á Akureyri annað kvöld.

Bassinn lekur

eins og kvikasilfur milli nótna

NÝJASTA afurð tónlistarmannsins Klute er geisladiskurinn Casual Bodies. Klute þessi heitir reyndar Tom Withers og er frá Bretlandi og á sér skemmtilegan bakgrunn í tónlistargeiranum. Í byrjun níunda áratugarins var hann trommuleikari og söngvari í hjólabrettapönkrokksveitinni The Stupids. Hljómsveitin gaf út þrjár hljómplötur og náði ágætis vinsældum en gliðnaði í sundur að lokum. Tom hélt þá til Bandaríkjanna og dvaldi aðallega í Los Angeles og San Francisco. Þar uppgötvaði hann eletróníska tónlist og ekki varð aftur snúið. Það voru nú samt trommur og bassi (drum & bass) frá heimalandi hans sem áttu hug hans allan og flýttu fyrir heimför hans. Þegar heim var komið byrjað Tom að fikta við hljóðsarpa og tölvur. Reynsla Toms af trommuleik hefur nýst honum í sköpun á trommuhljóðum í tölvum. Casual bodies er ellefu laga geisladiskur sem inniheldur trommur og bassa með techno og sveimáhrifum. Faceless er lag sem lýsir plötunni Casual bodies vel. Óvægnar trommur og bassi með litlum frösum sem ýtir við hlustendum og undir að hækkað sé verulega í græjunum. Þau lög sem heilluðu mig mest á þessari ágætu geislaplötu "Casual bodies" falla ekki inn í hið hefðbundna, trommur og bassa, sem Klute tekst á við. Arrival er afslappaður, dub-legur ­ trommur og bassi. Þykkur hljómborðsveggurinn skapar áhrifaríka stemmningu sem brýtur upp þennan rytmíska heim. Blood Rich sem er fimmta lag plötunnar á lítið sem ekkert skylt við trommur og bassa eða techno. Myrkur burstasveiflu undirtónninn með fallega útsettri klukkuspils og marimbu laglínu skapar skemmtilega leikhússtemmningu. Ekki skemmir fyrir að ofan á þetta bætist svo einhvers konar blástursstrokhljóðfæri sem leikið er á í vatni. Annað lag sem náði athygli minni var Talk Luba þar sem mjúkar hátíðnitrommur leggja grunninn. Hristur ná að beina manni í átt til suðurs og rhodes- hljómborð kórónar lagið. Í síðasta lagi plötunnar Secret Love kveður við rokkaðar trommur og bassa þar sem afskræmdur bassinn fær að njóta sín. Hljóðnálgun og vinnsla Tom Withers er til fyrirmyndar og sýnir hæfileika hans og fjölbreytta útkomu. Samsuðutilraunir heppnast vel og ýta geislaplötunni í fleiri áttir og áhugverðari en ella. Hljóð sem ekki hafa beina skírskotun í tónlist fanga hug manns. Bassanotkun er skemmtileg. Oft virðist bassinn fá að leka eins og kvikasilfur milli nótna í stað hinna hefðbundnu skrefa sem flest hljóðfæri þurfa að sætta sig við. Útkoman er góð samsuða af drum&bass úr mörgum áttum sem hreyfir við skynjunum hlustenda á jákvæðan hátt.