DÓMSTÓLL í Teheran, höfuðborg Írans, kvað upp úrskurð sinn í gær í máli Gholamhossein Karbaschi, fyrrverandi borgarstjóra Teheran, sem sakaður hefur verið um fjárdrátt. IRNA-fréttastofan íranska, hafði eftir háttsettum embættismanni í íranska stjórnkerfinu að á miðvikudag hefði verið gefin út handtökuskipun á hendur Karbaschi og að dómurinn yfir honum kvæði á um tveggja ára fangelsisdóm,

Umbótasinni hlýtur þungan dóm

Áfall fyrir Seyyed Mohammad Khatami forseta Írans

Teheran. Reuters, AP.

DÓMSTÓLL í Teheran, höfuðborg Írans, kvað upp úrskurð sinn í gær í máli Gholamhossein Karbaschi, fyrrverandi borgarstjóra Teheran, sem sakaður hefur verið um fjárdrátt. IRNA -fréttastofan íranska, hafði eftir háttsettum embættismanni í íranska stjórnkerfinu að á miðvikudag hefði verið gefin út handtökuskipun á hendur Karbaschi og að dómurinn yfir honum kvæði á um tveggja ára fangelsisdóm, bann við að gegna opinberu embætti næstu tíu árin og fjársekt að andvirði 35 milljóna ísl. króna.

Karbaschi er umbótasinni og stendur nærri Khatami, forseta Írans, í stjórnmálaskoðunum. Heimildamaður IRNA sagði í gær að Karbaschi þyrfti að sitja dóminn af sér í Evin-fangelsi í Teheran. Í sama fangelsi og honum var haldið í ellefu daga í apríl á síðasta ári. Honum var sleppt að skipun Ayatollah Ali Khameinis erkiklerks eftir fjölmenn mótmæli á götum höfuðborgarinnar og tilmæli Khatamis, forseta landsins.

Samkvæmt fréttastofunni hefur Karbaschi sagt að honum hafi ekki enn borist handtökuskipunin en ekki var unnt að staðfesta þetta hjá lögmönnum hans. Talið er að lögmenn Karbaschis hafi leitað allra leiða til að halda honum utan fangelsis en að hæstiréttur landsins og ríkissaksóknaraembættið hafi hafnað öllum náðunarbeiðnum. Eina von Karbaschis nú sé að Khameini erkiklerkur veiti honum sakaruppgjöf.

Fangelsisdómurinn yfir Karbaschi er talinn vera mikið áfall fyrir Khatami forseta og umbótasinnaða ríkisstjórn hans sem hafði stutt Karbaschi í baráttu hans við íhaldssama fulltrúa dómskerfisins. Umbótasinnar í Íran telja að málatilbúnaðurinn sé tilraun til að grafa undan umbótaáætlunum Khatamis. Fulltrúar dómstóla hafa neitað ásökununum.

Þúsundir sveitarstjórnarfulltrúa settir í embætti

Í gær setti Khatami forseti fyrstu lýðræðislega kjörnu sveitarstjórnarfulltrúana í höfuðborg landsins í embætti sín, við hátíðlega athöfn. Og markaði athöfnin vissan endi á tilraunir umbótasinna undanfarin 20 ár við að koma á lýðræðislegum stjórnarháttum í Íran. Úrslit sveitarstjórnakosninganna í febrúar sl. hafa verið talin vera mikill sigur fyrir umbótasinna en markmið kosninganna var að binda enda á 2.500 ára hefð miðstýringar í landinu og að auka þátttöku almennings í stjórnmálum. 15 fulltrúar tóku sæti sín í borgarstjórn Teheran og eru flestir þeirra stuðningsmenn forsetans. Um þessar mundir fara þúsundir slíkra athafna fram í landinu en alls munu um 130.000 fulltrúar sitja í sveitarstjórnum víðs vegar um landið.

Við athöfnina í Teheran sagði Khatami: "Við erum nú vottar að skýrasta vitnisburði þess að fólkið hafi tekið örlögin í sínar hendur. Almenningur hefur tekið ákveðin skref í átt að frelsi og þjóðarstolti."

Eitt fyrsta verk borgarstjórnarinnar í Teheran mun vera að skipa nýjan borgarstjóra í Teheran. Telja fréttaskýrendur tilskipunina vera mikinn prófstein fyrir umbótasinna, ekki síst vegna fangelsisdómsins yfir Karbaschi.

Seyyed Mohammad Khatami