Lénsherrarnir hafa lokað að sér, segir Sverrir Hermannsson, og þegja þunnu hljóði við öllum röksemdum.
Hagræðing sannleikans Kvótinn Lénsherrarnir hafa lokað að sér, segir Sverrir Hermannsson , og þegja þunnu hljóði við öllum röksemdum. EITT af slagorðum gjafakvótamanna er fullyrðing um mikla hagræðingu í sjávarútvegi í kjölfar gjafakvótans og hins frjálsa framsals veiðiheimilda. Á engu er oftar tönnlast. Og Þjóðhagsstofnun pöntuð til vitnis. Að vonum slá menn úr og í á þeim bæ, því jafnvel þótt þjónustumenn séu í fræðunum er þeim illa við að bera augljóst ljúgvitni. Þeir, eins og önnur handbendi í vitnaleiðslunni, láta þess ógetið í hagræðingarmessunni hver akkur íslenzkri þjóð kunni að vera í brottkasti fisks fyrir milljarða króna árlega, en brottkastið er hrein og bein afleiðing kerfisins. Meðan ekki er tekið tillit til þess eru umsagnir þessara aðila þegar af þeirri ástæðu einni algjör markleysa. En af mörgu fleira er að taka. Hér birtist auðskilið línurit: Á næsta línuriti má sjá, að aflaverðmæti úr sjó hefir tæplega fjórfaldazt á föstu verðlagi síðan 1945. Á sama tíma hefir fiskiskipaflotinn, mældur í krónum á föstu verðlagi, næstum átjánfaldazt. Þetta þýðir, að afköst á hverja fjármagnseiningu í útvegi hafa dregizt saman um næstum 80% síðan 1945, og langmest á gjafakvótaárunum. Þetta er nú öll framleiðniaukningin í sjávarútvegi: Næsta línurit sýnir skuldir sjávarútvegsfyrirtækja í milljörðum króna, á verðlagi hvers árs: Skuldirnar námu sem sagt nærri 150 milljörðum króna 1998 og höfðu t.d. aukizt um 56% frá 1995! Líklegt er að eitthvað af þessari skuldaaukningu eigi rætur að rekja til sölu sægreifa á aflaheimildum. Hér hafa menn svart á hvítu sannanir fyrir að hagræðingartal í munni kvótamanna er hagræðing á sannleika. En hræðslan við vondan málstað hrekur þá til slíkra óyndisúrræða. Að öðru leyti hafa lénsherrarnir lokað að sér og þegja þunnu hljóði við öllum röksemdum. Þeir treysta á að allt hagsmunaféð, sem þeir hafa afhent kvótaflokkunum, muni nægja til að ríkisstjórnin haldi meirihluta á þingi að kosningum loknum.

Höfundur er formaður Frjálslynda flokksins. Sverrir Hermannsson