KRISTJÁN RÖGNVALDSSON Kristján Rögnvaldsson fæddist á Litlu Brekku á Höfðaströnd hinn 12. ágúst 1931. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu hinn 18. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðný Guðnadóttir húsmóðir og Rögnvaldur Sigurðsson, bóndi í Litlu Brekku. Þau eru bæði látin. Kristján ólst upp á Litlu Brekku til fimm ára aldurs en fluttist þaðan til Hjalteyrar með móður sinni er faðir hans lést, og þaðan til Siglufjarðar níu ára gamall. Kristján var ellefti í röðinni af 12 systkinum og af þeim eru fimm á lífi.

Hinn 10. mars 1955 kvæntist Kristján Lilju Jóelsdóttur, f. 27. maí 1931 á Hvoli í Fljótshverfi. Foreldrar hennar voru Jónína Hólmfríður Jóhannsdóttir, f. á Skógum í Þelamörk, og Jóel Sigurðsson, f. á Hraunbóli á Brunasandi. Börn Kristjáns og Lilju eru: 1) Marteinn Þór, f. 9. des. 1951, skipstjóri, sölumaður hjá Icedan, kona hans er Ásta Óla Halldórsdóttir, kjólameistari og leiðsögumaður, börn þeirra eru Lilja, hennar dóttir Elísa Mist, Ólafur og Ásta. 2) Páll Reynir, f. 3. mars 1954, lést af slysförum 7. ágúst 1976. 3) Jóel, f. 15. janúar 1956, sjávarútvegsfræðingur, framkvæmdastjóri Skagstrendings hf. á Skagastönd, kvæntur Helgu Sigurrósu Bergsdóttur leikskólastjóra, börn þeirra eru: Bergdís, Rebekka og Sindri. 4) Bryndís Hrönn, f. 10. maí 1958, starfsmaður á dvalarheimili, gift Þórólfi Tómassyni, fulltrúa hjá skattstjóra. Fósturdóttir þeirra er Sandra. 5) Kristján, f. 9. febr. 1960, rithöfundur og blaðamaður, sambýliskona Margrét Þorvaldsdóttir kennari, þau eiga þrjá syni: Pál Óskar, Kristján Jóel og Þorvald. 6) Guðni, f. 7. okt. 1963, las sálfræði við Háskóla Íslands og starfar hjá Verkalýðsfélaginu Fram á Sauðárkróki, kvæntur Kristbjörgu Kemp. Börn þeirra eru: Rakel, Kristján Rögnvaldur, og Matthildur. 7) Jónína Hafdís, f. 30. maí 1965, skrifstofumaður. Sambýlismaður hennar er Guðmundur Magnússon bílasmiður, dætur þeirra eru Bára og Sjöfn. Dóttir Kristjáns; Hildur María Pedersen, f. 20. febr. 1952, húsmóðir. Maður hennar er Guðmundur Ármann Sigurjónsson, listmálari. Börn þeirra eru: Elsa María, á tvö börn; Hildi Þórbjörgu og Kára, Björn, Pétur Már, Ármann og Þorbjörg. Fósturmóðir Hildar Maríu Pedersen er Rósa Rögnvaldsdóttir, systir Kristjáns.

Kristján lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1953 og hóf skipstjórnarferil sinn árið 1956. Hann var m.a. skipstjóri á síðutogurunum Elliða og Hafliða, og skuttogurunum Dagnýju og Sigurey frá Siglufirði. Hann var skipstjóri á b/v Elliða þegar hann fórst 10. febr. 1962. Árið 1984 tók Kristján við starfi hafnarvarðar á Siglufirði og gegndi því starfi til dauðadags.

Útför Kristjáns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.