Bragi Eiríksson Hann Bragi okkar er dáinn. Á þessari stundu koma margar myndir liðinna ára fram í hugann. Frá því að við systurnar munum eftir okkur hafa Heiða, móðursystir okkar, og Bragi, maður hennar, verið hluti af lífi okkar. Á uppvaxtarárum okkar á Akureyri bjuggu þau í Austurbyggðinni með Böðvari og Sigtryggi. Amma Jóhanna og Ragnheiður bjuggu í Brekkugötu 7 og vorum við öll ein heild í tilverunni. Móðir okkar, Dagmar, og Heiða voru óvenju samrýndar systur, þótt þær væru á margan hátt ólíkar. Bragi og Heiða voru alltaf svolítið veik fyrir okkur, þessum litlu frænkum, og í þá daga fóru ekki allir til útlanda eins og í dag. Við systurnar nutum þess ómælt að þau ferðuðust mikið og við fengum dúkkur sem lokuðu augunum, föt og margt annað sem við vorum glaðar yfir, en fannst kannski á þeim árum alveg sjálfsagt að eiga þessa góðu frænku og Braga. Með tímanum bættist Eiríkur í hópinn hjá þeim og tveir litlir bræður hjá okkur, sem vorum svo ríkar fyrir að eiga stóran bróður. Þegar Eiríkur féll frá á unga aldri vorum við öll sorgmædd, og síðar vitum við að þetta hafði mikil áhrif á líf elsku Heiðu og Braga. Þau fluttust til Reykjavíkur sem okkur fannst þá óralangt í burtu og eignuðust Jóhann, sem kom sem sólargeisli í líf þeirra. Árin liðu og við systurnar fluttumst til Reykjavíkur, fyrst Árný með Stefáni árið 1959 og síðar Ragnheiður með Guðjóni 1962. Fallegt heimili Heiðu og Braga stóð okkur öllum alltaf opið, þangað var leitað með flesta hluti og aldrei fundum við að ekki væri sjálfsagt að við kæmum á öllum tímum með hin ýmsu erindi. Skírnarveislur hjá okkur voru haldnar á heimili þeirra og á námsárum erlendis bárust óvæntar peningasendingar frá Braga, sem vissi að það kæmi sér vel. Öll fengum við að njóta góðra daga með þeim á Fróðá, þar sem þau áttu gleðistundir. Mörg sumur dvaldi Sigtryggur hjá foreldrum okkar á Akureyri og þannig var fjölskyldan áfram í nánum tengslum.

Bragi Eiríksson, sem nú er fallinn frá, var góðmenni og einstakur höfðingi í allri framgöngu. Það geta ekki verið margir sem hittu hann um dagana, sem ekki muna glæsileik hans og ljúfmennsku. Það er ekki hægt að nefna Braga án þess að nefna Heiðu, svo náið var allt þeirra líf og er ekki ofmælt að hann bar Heiðu sína á höndum sér. Aðeins það besta var nógu gott fyrir hana. Synir þeirra og fjölskyldur voru honum mikið gleðiefni og hann tók þátt í gleði þeirra og sorgum. Móðir okkar varð ekkja árið 1962 og fluttist til Reykjavíkur 1972, með yngsta soninn Árna. Þær systur tóku aftur upp daglegt samband, sem hélst til æviloka móður okkar árið 1997. Flestir dagar hjá þeim byrjuðu og enduðu með símtali hvor við aðra, jafnvel eftir að þær fluttust í sama hús, í Bólstaðarhlíðinni. Bragi var boðinn og búinn að aka móður okkar ef á þurfti að halda og ekki síður að aðstoða hana þegar hún þurfti þess með. Þetta erum við systkinin honum sérstaklega þakklát fyrir. Það er mikil gæfa í lífinu að kynnast mönnum eins og Braga, sem átti falleg orð og bros til allra og tókst af æðruleysi á við þau verkefni sem lífið ætlaði honum. Hann naut virðingar og væntumþykju margra, bæði erlendis og innanlands. Hann miklaðist aldrei af neinu, heldur var ætíð hinn sami góði Bragi, sem bar mikla umhyggju fyrir sinni kæru fjölskyldu. Hann minntist æskuáranna á Ísafirði með gleði og þakklæti og átti einnig margar góðar endurminningar frá Akureyri og Dagverðareyri. Lífið verður fátæklegra án hans, en fyrst og fremst fyrir elsku Heiðu hans, synina og fjölskyldur þeirra. Guð vaki yfir Braga og öllum þeim sem honum voru kærir. Einlægar samúðarkveðjur til Heiðu, Böðvars, Sigtryggs, Jóhanns og fjölskyldna þeirra frá okkur og fjölskyldum okkar.

Árný og Ragnheiður.