Richard Björgvinsson Richard Björgvinsson hefur kvatt þessa jarðvist og haldið á vit nýrra heima. Honum mun ekki koma á óvart þótt þar kenni margra grasa. Hann var sannfærður um líf að loknu þessu og hefur ábyggilega strax tekið til starfa á nýjum vettvangi þegar vistaskiptin urðu.

Leiðir okkar Richards lágu saman á vordögum 1974, þegar kosið var til sveitarstjórna. Hann var í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi en ég leiddi I-listann, sem var sameiginlegt framboð framsóknarmanna og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Framsóknar- og sjálfstæðismenn höfðu áður haft samstarf um meirihluta í bæjarstjórninni og það var endurnýjað þótt það kostaði klofning I-listans. Richard hafði ekki áður setið í bæjarstjórn fremur en ég, en var margsjóaður í pólitík, meðal annars frá Ísafirði, og vart mun pólitíkin hafa verið átakameiri í tveimur öðrum sveitarfélögum í þann tíma.

Það kom fljótt í ljós í þessu samstarfi að við Richard höfðum mjög ólíkar skoðanir á ýmsum málum. Því er ekki að neita að við háðum ýmsar rimmur á meirihlutafund- um, jafnvel svo að sumum öðrum þótti nóg um. En báðir vorum við ákveðnir í að starfa saman, svo öllum rimmum lauk með samkomulagi.

Og þá komu bestu kostir hans í ljós: staðfesta og drengskapur. Hann gekk aldrei á bak orða sinna. Á fundum í sínu "baklandi" eins og sagt er nú til dags viðurkenndi hann að hann hefði viljað sjá aðra niðurstöðu. En þetta hefði verið samið um og við það myndi hann standa. Með slíkum mönnum er gott að starfa.

Richard var aðsjáll maður í peningamálum bæjarins. Það gat verið erfitt að fá hann til að standa að skuldbindingum er kostuðu bæjarfélagið fjárútlát. En félli honum málefnið þá gekk það fyrir. Mér er minnisstætt þegar Jón Guðlaugur, þá bæjarritari, bauð okkur Richard í bíltúr til að segja okkur að erfingjar Gerðar Helgadóttur vildu gefa bænum öll hennar verk ef bærinn reisti safn í minningu hennar. Það kostaði óhjákvæmilega mikla peninga. Richard hugsaði málið vel og velti upp ýmsum flötum, en niðri á Skólavörðustíg var ákvörðunin tekin. Og eins og vanalega stóð Richard við sín orð. Það þótti hreint ekki einsýnt í bæjarstjórn að taka við þessari höfðinglegu gjöf, en Richard stóð eins og klettur við þá ákvörðun sem tekin hafði verið. Hefði ekki framsýni hans notið við væri sennilega ekkert listasafn í Kópavogi og þá jafnframt margt annað með öðrum blæ.

Ég sagði áðan að helstu kostir hans hefðu verið staðfesta og drengskapur. Ég gæti nefnt mörg önnur dæmi er sanna það, en læt hér staðar numið. Vinátta okkar hélst þótt báðir hættu afskiptum af bæjarmálum og hún mun ylja mér í minningum mínum.

Við Guðrún og fjölskylda okkar sendum Jónínu, afkomendum þeirra Richards og venslafólki öllu okkar innilegustu samúðarkveðjur og þökkum liðna tíð.

Magnús Bjarnfreðsson.