Richard Björgvinsson Við fráfall Richards Björgvinssonar, fyrrverandi bæjarfulltrúa í Kópavogi, fellur í valinn enn einn forystumaður sjálfstæðismanna í Kópavogi, þeirra er lögðu grundvöllinn að núverandi fylgi og viðgangi Sjálfstæðisflokksins í bænum. Nefna má í sömu andrá Axel Jónsson, Sigurð Helgason, Árna Örnólfsson og Guðmund Gíslason, sem allir unnu að framgangi lýðræðis og frelsis í Kópavogi, oft í harðri glímu við öfl ófrelsis og eymdar.

Richard var sonur hjónanna Elínar Samúelsdóttur og hins landskunna athafnamanns, Björgvins Bjarnasonar, og átti því ekki langt að sækja dug og kjark til góðra verka. Hann naut góðrar menntunar og varð cand. oecon frá HÍ 1953. Ævistarfið hófst við fyrirtæki föður hans og starfaði hann lengi að útgerð, fiskverkun og útflutningi sjávarafurða. Var þekking hans á málefnum sjávarútvegs traust og yfirgripsmikil. En telja verður, að störf hans að bæjarmálum í Kópavogi og sveitarstjórnarmálum hafi vegið einna þyngst, þegar æviskeið og starfsferill hins látna vinar er kannaður.

Varla er til sá þáttur í starfsemi sveitarfélaga, sem hann gjörþekkti ekki, og leituðu margir ráða hjá honum í þeim efnum. Margir eru þeir sem hann leiðbeindi og aðstoðaði fyrstu sporin og oft síðar í sveitarstjórnarmálum, fundarsköpum, samningu tillagna og svo mætti lengi telja. Hann var töluglöggur með afbrigðum og öll bókhaldsstörf voru honum leikur einn. Fjölmargir eru þeir Kópavogsbúarnir, sem hann aðstoðaði í skattamálum og uppgjörsmálum hvers konar og ekki var gengið eftir borgun. Hann greiddi götu fjölda manna í ýmsum erfiðum úrlausnarefnum. Má segja, að hverju máli hafi verið borgið, sem hann tók að sér sem bæjarfulltrúi. Margir standa því í þakkarskuld við hinn látna.

Richard vann öll störf sín af vandvirkni og persónulegur hagnaður var honum ekki markmið, heldur það, að verða að liði, gera gagn í bæjarfélaginu og þjóðfélaginu. Richard starfaði á fjármálaskrifstofu Alþingis á árunum 1991­1998. Vinátta Richards var einlæg og traust og í anda Hávamála: "Vin sínum skal maður vinur vera þess og þess vin".

Richard vissi vel, að veraldlegur frami er lítils virði ef menn njóta eki góðrar fjölskyldu og trúarlífs. Hann var vel kvæntur afbragðskonu, Jónínu Júlíusdóttur, fyrrum forstöðumanni Sjúkrasamlags Kópavogs, og áttu þau barnaláni að fagna. Hann var því tvímælalaust gæfumaður.

Við hjónin sendum fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur með þökk fyrir einlæga vináttu sem aldrei bar skugga á.

Far í friði, kæri vin.

Hilmar Björgvinsson.