Richard Björgvinsson Látinn er góður kunningi minn um langt árabil, Richard Björgvinsson, viðskiptafræðingur, bæjarfulltrúi í Kópavogi 1974­1990 og síðast starfsmaður Alþingis. Hann var í MA á Akureyri á svipuðum tíma og ég. Þar kynntumst við ekki, en vissum þó hvor af öðrum, enda báðir Vestfirðingar. Þar vakti hann athygli fyrir sérstaklega prúðmannlega framgöngu og hann var alltaf mjög vel klæddur. Hann fór í stærðfræðideildina, en var þó góður málamaður, eins og ég kynntist betur síðar.

Foreldrar Richards voru Björgvin Bjarnason (bróðir Matthíasar alþm.), útgerðarmaður á Ísafirði, síðar rak hann (ásamt Richard) Niðursuðu- og hraðfrystihús á Langeyri í Álftafirði um áratuga skeið og sitthvað fleira, og Elín Samúelsdóttir, húsfrú.

Björgvin Bjarnason var viðskiptamaður á málflutningsskrifstofu Lárusar Jóhannessonar um árabil, en ég varð fulltrúi hjá Lárusi 1949. Þar hitti ég þá feðga oft. Þeir voru skemmtilegir og athafnasamir menn. Þeir þekktu frændfólk mitt á Ísafirði.

Kynni okkar Richards hafa haldist frá 1949 og fram á þennan dag. Síðari árin hafa þau verið mest. Ekki er tækifæri til að fara að rekja þau í smáatriðum hér. Þetta er aðeins vinarkveðja, en ekki minningargrein, sem aðrir skrifa væntanlega.

Það auðveldaði kynni okkar Richards, að hugsanir okkar og skoðanir á mönnum og málefnum fóru mjög saman. Richard var strang- heiðarlegur, umtalsgóður um alla menn, jafnt pólitíska andstæðinga sem samflokksmenn. Í starfi sínu hjá Alþingi síðustu árin þurfti hann að skipta mikið við þingmenn úr öllum flokkum um nokkuð viðkvæm mál. Ég veit ekki betur, en að honum hafi tekist að öðlast fyllsta traust þingmanna um óhlutdrægni og réttsýni í þessum störfum sínum. Sumum þeirra kynntist hann meira, en starfið bauð beint upp á. Þá skiptu flokkar ekki máli.

Það liggur í augum uppi, að maður, sem stendur í miklum viðskiptum við erlenda aðila, þarf stundum á aðstoð lögfræðings að halda. Nálega alltaf gengu viðskipti Richards við erlenda og innlenda aðila snurðulaust fyrir sig, enda er það undirstaða þess að reka viðskipti yfirleitt. Fáguð og lipur framkoma Richards bauð upp á þetta. Fyrir allmörgum árum varð þó ágreiningur út af sölusamningi við erlendan aðila. Ef um vanefnd hefur verið að ræða var það ekki Richard að kenna, heldur þriðja aðila, sem hann fól að efna samninginn. Hinn erlendi kaupandi taldi Richard bera fjárhagslega ábyrgð á efndum samningsins og stefndi honum fyrir hárri fjárhæð. Við nánari athugun kom a.m.k. í ljós, að kaupandinn hafði ekki sönnunargögn sín í lagi. Málið fékk því farsæla niðurstöðu fyrir Richard.

Nokkur undanfarin ár hafði Richard þann sið að hringja til mín með nokkru millibili. Þetta voru löng og skemmtileg símtöl. Þarna bar margt á góma, aðallega dægurmálin. Ég naut oft símtalanna í nokkra daga eða lengur. Nú kem ég til með að sakna þeirra.

Ég votta eiginkonu og allri fjölskyldu Richards dýpstu samúð mína vegna ótímabærs andláts hans. En látinn lifir, og hann kemur til með að fylgjast með þeim um ókomna tíð. Þessu trúðum við báðir.

Árni Stefánsson.