Ágúst Gissurarson Aðfaranótt sunnudagsins 26. apríl lést Ágúst afi minn og nafni, 93 ára að aldri. Hann var eini afinn sem ég hef átt og var hann mikið í uppáhaldi hjá mér og ég hjá honum. Því þótti okkur afskaplega vænt um hvorn annan. Ekki síst þótti honum vænt um mig þar sem ég er skírður í höfuðið á syni hans, Guðmundi Ragnari, sem lést árið 1946 aðeins 10 ára gamall. Helstu einkenni afa voru mikil harka, kraftur og dugnaður og hef ég alltaf litið upp til hans. Hann var allra manna duglegastur í vinnu og vann mikið alla tíð.

Hann afi var alltaf passasamur á hlutina og fór sparlega með peninga. Bíllinn hans var alltaf hreinn og garðurinn sömuleiðis. Í garðinum var hann með rófur og kartöflur og var alltaf mikið borðað af því hjá afa. Mín fyrstu 9 ár í lífinu bjó ég á Ísafirði og afi í Reykjavík og því hittumst við ekki svo oft en við töluðumst við í síma og þegar ég kom í bæinn þá var ég alltaf hjá afa og þá fór ég með honum austur eða í sund. Svo flutti ég á Seltjarnarnes og afi bjó í vesturbænum þannig að þá fór ég oftar til hans. Síðan fór hann á Hrafnistu þar sem allir voru mjög góðir við hann en honum líkaði aldrei að vera upp á aðra kominn því alla sína tíð hafði hann séð fyrir sér og sínum og aldrei þurft á neinni hjálp frá öðrum að halda.

Mér fannst svolítið sárt að sjá þennan hrausta mann eldast með öllu sem því fylgir, því hann hafði svo sterkt hjarta sem aldrei ætlaði að gefa sig. Síðustu mánuði fór heilsa hans versnandi og nú í lokin var ekki mikið líf í augunum á honum blessuðum. Afi minn, þegar ég kom til þín á sunnudaginn grunaði mig að það væru ekki margir dagar eftir hjá þér. Nú veit ég að það er friður yfir þér. Þú hefur fengið hvíldina sem þú þráðir svo heitt og áttir svo sannarlega skilið. Afi, ég mun alltaf taka þig til fyrirmyndar og ég á eftir að hugsa oft til þín og ég vil að þú vitir að þú munt alltaf eiga þinn stað í hjarta mínu.

Ágúst Ragnar.