Ágúst Gissurarson Í dag kveð ég tengdaföður minn og góðan vin, Ágúst Gissurarson. Er mér efst í huga þakklæti fyrir þá góðu vináttu er við áttum og styrktist hún með árunum. Ágúst lifði svo sannarlega tímana tvenna. Þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað frá því hann var að alast upp rétt eftir aldamótin eru slíkar að það var oft erfitt fyrir hann að skilja allar þær kröfur og væntingar sem menn gera nú til dags. Þær eru margar minningarnar sem koma fram í hugann um þennan einstaka mann sem allar eru svo ljúfar og góðar.

Ágúst ólst upp að Byggðarhorni í Flóa ásamt 15 systkinum sínum. Ágúst var glæsilegur á velli og það geislaði af honum dugnaður og kraftur en glæsileiki einkenndi öll þessi systkini. Ágúst fór ungur að heiman til sjós sem varð hans aðalstarf á lífsleiðinni. Hann sigldi öll stríðsárin á togurum sem sigldu með fisk til annarra landa. Á þessum tímum var þetta síður en svo hættulaust starf. Oft hef ég velt því fyrir mér hvort álagið hafi ekki verið mikið því í þessum siglingum var alltaf óvíst hvort þeir næðu landi heilir á húfi. Þegar togarasjómennskunni lauk hóf hann störf hjá Landhelgisgæslunni, fyrst sem bátsmaður á varðskipum og síðar sem vaktmaður í landi.

Gott var að njóta félagsskapar Ágústs. Eru mér minnisstæð ferðalögin sem við fórum saman bæði hér á landi og erlendis. Tengdafaðir minn var mjög rökfastur maður og hafði ákveðnar skoðanir á málum og lét þær óspart í ljós. Því var mjög gaman að skiptast á skoðunum við hann.

Lífið var Ágústi ekki þrautalaust. Hann varð fyrir þeirri miklu sorg að missa dóttur sína úr barnaveiki aðeins eins árs gamla og son sinn níu ára gamlan af slysförum. Svo hörð var lífsbaráttan á þessum tíma að Ágúst þurfti að yfirgefa dóttur sína þegar hún lá banaleguna til þess að halda skipsplássinu.

Síðustu árin voru þér erfið þar sem þrek þitt fór dvínandi. Eftir því sem þrekið dvínaði þráðir þú æ meira að fá hvíldina.

Að leiðarlokum kveð ég þig með þökk og virðingu. Vinátta mín við þig í þessu lífi gerði mig ríkari. Þakka þér fyrir allt. Hvíldu í friði.

Gestur Halldórsson.