Bragi Eiríksson Bragi Eiríksson fæddist á Ísafirði 29. júní 1915. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 24. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Eiríkur Brynjólfur Finnsson verkstjóri þar og kona hans, Kristín Sigurlína Einarsdóttir. Systkini Braga eru: Ingibjörg Bryndís (f. 1908), Jóhann (f. 1912, d. 1991), Baldur Trausti (f. 1913, d. 1988), Arnfríður (f. 1919), Iðunn (f. 1921, d. 1974), og Einar Haukur (f. 1923). Árið 1940 kvæntist Bragi Ragnheiði Valgerði Sveinsdóttur, f. 13. júní 1915 á Akureyri. Börn þeirra eru: 1) Böðvar, f. 1938, lögreglustjóri í Reykjavík, maki Gígja Björk Haraldsdóttir. Börn þeirra eru Haraldur Bragi og Ragnheiður Ólöf. 2) Sigtryggur Sveinn, f. 1943, verkfræðingur, maki Elísabet Jóhannsdóttir. Börn þeirra eru Ragnheiður Valgerður, maki Ágúst Loftsson. Börn: Vilhjálmur Sveinn Guðmundssn, Kjartan Bragi Ágústsson, og Ingibjörg. 3) Eiríkur Brynjólfur, f. 1949, d. 1954. 4) Jóhann, f. 1955, yfirmatreiðslumaður í Reykjavík, sambýliskona Guðrún Valgarðsdóttir. Börn hans og Þóru Brynjúlfsdóttur (þau skildu) eru Bragi Eiríkur og Brynjúlfur. Bragi varð stúdent frá MA 1934. Hann starfaði hjá breska hernum á Akureyri sem túlkur frá 1940-1943, var starfsmaður Síldarbræðslustöðvarinnar á Dagverðareyri hf. í Eyjafirði, fyrst sem skrifstofustjóri 1943-1948 og síðan framkvæmdastjóri 1948-1953. Hann var skrifstofustjóri hjá Samlagi skreiðarframleiðenda í Reykjavók 1953- 1960 og framkvæmdastjóri 1961- 1985, kennari við Iðnskólann á Akureyri 1941-1947 og Gagnfræðaskóla Akureyrar 1943-1945. Bragi var ræðismaður Grikklands í Reykjavík frá 1964 og aðalræðismaður frá 1986. Hann var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu. Útför Braga fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.