Richard Björgvinsson Ég kynntist Richard Björgvinssyni vorið 1973 þegar ég fluttist með fjölskyldu minni í Kópavoginn, að Nýbýlavegi 49, í íbúð sem foreldrar mínir höfðu þá nýlega fest kaup á. Richard bjó í næsta húsi, á númer 47. Þangað hafði hann flust 20 árum áður, árið 1953. Húsið var upphaflega einlyft timburhús en þau hjónin byggðu hæð ofan á það þegar fjölskyldan stækkaði.

Þegar ég fluttist á Nýbýlaveginn voru aðstæður enn mjög frumbýlislegar. Nýbýlavegurinn sjálfur var eins og hver annar sveitavegur á þeim tíma. Rafmagn var flutt með loftlínum, skólplagnir voru engar en rotþrær við hvert hús. Vatnslögn var reyndar komin en stuttu áður en Richard fluttist þangað var vatn aðflutt í tanka við húsin. Þetta breyttist ekki fyrr en eftir 1980 er skipulagt var íbúðahverfi norðan Nýbýlavegar sem var aftengdur frá lóðunum neðan við og aðkoma var gerð frá nýrri götu, Grænatúni, og standa húsin nú þar við númer 16 og 18.

Okkur var vel tekið sem nágrönnum og fljótt tókust góð kynni milli okkar Richards en það flýtti vafalaust fyrir að ung mágkona mín, sem var heimagangur hjá okkur, var á líku reki og Sigga Ása, yngsta dóttir Richards, og léku þær sér oft saman þetta sumar ásamt lítilli dóttur minni.

Richard fræddi mig um margt er laut að frumbýlisárum fólks á þessum slóðum og ýmislegt er varðaði málefni Kópavogsbæjar sem voru honum hugleikin. Richard hafði góða frásagnargáfu. Hafði hann frá mörgu að segja frá uppvaxtarárum sínum á Ísafirði, einkum úr pólitíkinni.

Ég fluttist með fjölskyldu minni úr Kópavogi um tveggja ára skeið er ég fór til starfa á æskuslóðum Richards, á Ísafirði. Við endurnýjuðum kynnin er ég fluttist aftur í Kópavoginn í nágrenni foreldra minna sem voru þá komin að Nýbýlavegi 49.

Enn styrktust kynnin þegar ég réðst til starfa hjá Kópavogsbæ árið 1979 en þá var Richard bæjarfulltrúi og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Vegna starfs míns átti ég náið samstarf við meiri hluta bæjarstjórnar. Það kom sér vel að hafa átt góð kynni við Richard. Ég hafði ávallt trúnað hans þótt oft gustaði á milli meiri hluta og minni hluta bæjarstjórnar þau ár sem ég starfaði hjá bænum, í tæp 7 ár, en þau ár var Sjálfstæðisflokkurinn í minni hluta.

Richard var gagnmenntaður maður, vel að sér á flestum sviðum og ágætlega ritfær. Það vakti strax athygli mína hversu vel hann var skipulagður og kom það sér oft vel fyrir hann í pólitíkinni þegar hann þurfti að setja sig fljótt inn í mál og fylgja þeim eftir. Oft þótti Richard erfiður andstæðingur. Hann var prinsippmaður og gat verið ósveigjanlegur. Góð þekking hans á málum og það hve vel hann setti sig inn í sérhvert mál gerði hann að sterkum andstæðingi. En hann var alltaf tilbúinn að stuðla að framgangi góðra mála. Mörg dæmi eru um það en eitt hið merkasta var stuðningur hans við kaup Kópavogskaupstaðar á Fífuhvammslandi árið 1980. Kaupin voru umdeild en reyndust verða þýðingarmikill þáttur í markvissri framtíðaruppbyggingu bæjarins.

Árið 1990 hætti Richard þátttöku í bæjarmálum í Kópavogi. Hann var ekki tilbúinn að hætta og hafði ekki frekar en margir aðrir, sem fórnað hafa sér í stjórnmálastarfi, undirbúið lífið eftir pólitíkina. Um það leyti hafði ég hafið störf hjá skrifstofu Alþingis og var að svipast um eftir réttum manni til að starfa í fjármáladeild skrifstofunnar. Fékk ég heimild til að fá að ráða Richard til starfa og hann féllst á að koma til skrifstofunnar árið 1991. Hafði Richard meðal annars umsjón með öllum útgjöldum við ferðir og annan kostnað erlendis og innan lands og flestum uppgjörum er vörðuðu alþingismenn.

Þessi verkefni eru oft flókin og viðkvæm úrlausnar. Það þarf að halda vel utan um málin, gæta réttsýni og tryggja að öll samskipti verði áfallalaus. Þetta leysti Richard af hendi svo að af bar. Þar kom heiðarleiki og réttsýni hans, en einnig einurð og lipurð að góðum notum.

Öll vinnubrögð Richards voru mjög öguð. Ég get fullyrt að aldrei var óafgreitt mál á borði Richards þegar hann fór heim að loknum vinnudegi ef nokkur kostur var að afgreiða það samdægurs. Richard var sérstaklega vel að sér í lögum og reglugerðum og þekkti vel menn og málefni. Allt varð þetta til þess að hann var beðinn að taka að sér margvísleg úrlausnarefni, oft á tíðum flókin, og mál sem oft vörðuðu ekkert dagleg störf Richards. Ávallt var hægt að treysta því að hann leysti þau fljótt og vel. Gilti einu hvort verkefnið var stórt eða smátt. Þegar það var komið í hendur Richards var það í öruggum höndum.

Þegar Richard varð sjötugur fór hann úr föstu starfi hjá Alþingi. En þá var hann beðinn um að starfa áfram að ýmsum verkefnum. Starfaði hann á skrifstofu Alþingis allt þar til hann veiktist sl. sumar svo að hann átti ekki afturkvæmt. Þá hafði hann þegar átt við veikindi að stríða á annað ár. Oft kom hann til starfa sýnilega sárþjáður en skilaði eigi að síður drjúgu dagsverki.

Við hlið Richards stóð Jónína Júlíusdóttir, einstök mannkostakona. Hún stóð þétt við hlið manns síns alla tíð. Var jafnræði með þeim hjónum og hjónabandið farsælt. Var aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig hún studdi Richard og hvatti með óbilandi bjartsýni í gegnum veikindi hans. Við stofnun Hjallasóknar í Kópavogi árið 1987 var hún kjörin gjaldkeri sóknarnefndar. Er byggingarnefnd var skipuð til að annast um byggingu kirkjunnar þótti hún sjálfkjörin í hana. Hún hélt utan um fjármálin fyrir hönd sóknarnefndar og átti sinn þátt í farsælli byggingarsögu kirkjunnar. Þar stóð Richard við bak eiginkonunnar og lagði sitt af mörkum. Meðal annars stjórnaði hann aðalsafnaðarfundum Hjallasóknar frá upphafi. Fyrir hönd sóknarnefndar þakka ég störf hans í þágu sóknarinnar.

Sjónarsviptir er að Richard Björgvinssyni. Missir er að slíkum einstaklingi. Mestur er þó missir fjölskyldu Richards, en það fór ekki framhjá mér hve mjög hann bar hag fjölskyldu sinnar, og ekki síst barna og barnabarna, fyrir brjósti.

Fyrir mína hönd og eiginkonu minnar, Helgu Einarsdóttur, þakka ég fyrir samferðina með Richard Björgvinssyni. Jónínu og allri fjölskyldu hans flyt ég dýpstu samúðarkveðjur. Fyrir hönd samstarfsmanna hjá Alþingi færi ég bestu þakkir fyrir ánægjulegt og giftudrjúgt samstarf. Guð blessi minningu Richards Björgvinssonar.

Karl M. Kristjánsson.