ÓLAFUR KRISTBJÖRNSSON Ólafur Kristbjörnsson fæddist á Birnustöðum, Skeiðum, 14. ágúst 1918. Hann andaðist á heimili sínu á Selfossi 22. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Kristbjörn Hafliðason og Valgerður Jónsdóttir. Ólafur var fimmti af fimmtán systkinum. Hinn 17. október 1951 kvæntist Ólafur Halldóru Kristrúnu Hjörleifsdóttur frá Fagradalstungu í Dalasýslu, f. 28.6. 1927. Þau eignuðust fjóra syni. Þeir eru: 1) Unnar, f. 31.10. 1952, bifreiðastjóri á Selfossi, maki María Óskarsdóttir og eiga þau tvö börn. 2) Hjörleifur Þór, f. 13.9. 1955, bóndi á Fossi í Hrunamannahreppi, maki Sigríður Jónsdóttir og eiga þau fimm börn og tvö barnabörn. 3) Kristbjörn, f. 17.6. 1958, rafeindavirki, býr á Selfossi. 4) Valgeir, f. 19.11. 1962, kaupmaður í Kópavogi, hann á einn son. Ólafur ólst upp hjá foreldrum sínum á Birnustöðum. Hann var við nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni 1939­1941. Eftir það dvaldist Ólafur heima á sumrin en stundaði ýmsa vinnu á veturna, aðallega hjá Kaupfélagi Árnesinga á Selfossi. Ólafur fluttist á Selfoss árið 1944 og starfaði lengst af hjá Mjólkurbúi Flóamanna. Útför Ólafs fer fram frá Selfosskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.