Sigríður Helgadóttir Vorið er komið og hún Sigga mín hefur lagt af stað í þá ferð sem við mennirnir getum verið vissir um að fara.

Ég varð þess aðnjótandi að eignast tvær móðurættir í lífinu og Sigga tilheyrði fjölmennum barnahópi fósturforeldra móður minnar. Er ég lít nú yfir farinn veg var hún alltaf til staðar með gjafir sínar, bæði andlegar og veraldlegar.

Ég minnist jólanna í æsku þegar upp úr jólapakknum frá henni kom mín kæra Pálína tuskudúkka. Hún var ekki lengur snjáð og slitin heldur með nýjan líkama og í nýjum kjól. Einnig minnist ég sumardags þegar hún birtist með bráðfallegan svartan hana undir hendinni og færði mér. Undrandi og glöð dáðist ég að litfögru stéli hanans. Á þessum fyrstu árum ævinnar fékk ég mikið dálæti á Siggu og jafnvel maturinn bragðist betur hjá henni en öðrum.

Árin liðu og eftir að fjölskylda mín fluttist til Akureyrar var gott að komast í sveitina til hennar við fyrsta tækifæri á vorin. Hún hvatti mig áfram alla tíð með trausti og hrósi sem leiddi til þess að ég vandaði mig sérstaklega við þau verkefni sem hún fól mér. Sigga var saumakona og vann við það svo lengi sem kraftar entust. Fyrst í Skagafirði og síðar á Akureyri. Hún sat oft við saumavélina frá því snemma á morgnana og langt fram á kvöld. Hún sagði að vinnugleðin væri besta gleðin og ef hún var illa fyrir kölluð og treysti sér ekki til að sauma sat hún og heklaði.

Við saumavélina áttum við margar ánægjustundir. Hún sat og saumaði og sagði mér sögur úr hversdagslífinu í sveitinni á árum áður. Ég fékk einnig að heyra frásagnir hennar af Alþingishátíðinni 1930 og lífi sveitastúlkunnar í Reykjavík á þeim árum. Þær voru margar vísurnar og bragirnir sem hún kenndi mér við saumavélina og þóttu sumar á of mergjuðu máli fyrir börn.

Á unglingsárum mínum hlustuðum við einnig á útvarpssögurnar saman, þar sem hvert skáldið af öðru las úr verkum sínum. Við ræddum atburðarás sagnanna fram og til baka og í dag sé ég hvernig hún nýtti sögurnar af mikilli snilld til að hafa áhrif á mig og fá mig til að ígrunda orð og æði.

Það voru ekki bara andans efni sem ég hlaut frá henni heldur naut ég saumalistarinnar í ríkum mæli. Hún var til staðar á stórum stundum í lífi mínu og saumaði kjóla og fleira sem til þurfti. Það er til marks um færni hennar sem saumakonu að oft breytti hún ófulkomnum teikningum mínum í fínustu flíkur. Þótt henni væri stundum um og ó er ég kom með hugmyndir mínar var hún talsmaður þeirra ef einhver annar efaðist um þær. Það var ekki bara að ég hefði frumkvæðið að fatagerð mér til handa heldur vakti hún máls á því að fyrra bragði að mig vantaði föt með nýjasta sniði hverju sinni. Í huga Siggu var ég ætíð þæg og góð hvað sem öðrum fannst, þannig sá hún mig og alltaf sneri að mér hennar besta hlið.

Kynni okkar Siggu gáfu mér innsýn í það hvar ræturnar liggja og hvernig skal á þeim byggja. Einnig hvernig umhyggja og traust fullorðins hvetja börn til dáða. Þannig gegndi hún Sigga frænka mín þýðingarmiklu hlutverki í lífi mínu og uppeldi. Alltaf hefur mér og mínum verið ætlað rúm í hennar ranni þegar eingöngu nánasta fjölskylda hefur komið saman. Fyrir það og að eiga í börnum hennar sem bestu systkini vil ég þakka.

Það var þessari starfsömu frænku minni erfitt að geta ekki lengur unnið við saumaskap, en síðustu árin naut hún umhyggju á heimili Elsu dóttur sinnar og Kalla eiginmanns hennar.

Sigga mín, nú skiljast leiðir um stund. Ég kveð þig nú með þeim orðum sem við höfum notað hver við aðra síðustu árin.

Þakka þér fyrir allt og allt ævinlega.

Elsku Marta, Helgi, Steini, Elsa og fjölskyldur, hugheilar samúðarkveðjur sendum við fjölskyldan ykkur.

Helga Pálmadóttir.