Bragi Eiríksson Traustur maður er fallinn frá, frumkvöðull í útflutningi sjávarafurða, sem á sínum tíma var mikilvægur þáttur í útflutningi landsmanna en er nú til dags úr sögunni að miklu leyti. Það sem hér um ræðir er skreiðarútflutningur til markaðslandanna Nígeríu og Ítalíu. Stórhuga athafnamenn, Hafnfirðingarnir Óskar Jónsson og Jón Gíslason, ásamt fleirum, höfðu forystu um stofnun útflutningssamtaka Samlags skreiðarframleiðenda til að hafa með höndum markaðssetningu skreiðar og fengu sér til aðstoðar m.a. Jóhann Þ. Jósefsson, sem síðar varð ráðherra, Braga Eiríksson og Hannes Hall. Bragi var um árabil forstjóri samtakanna, eða þar til þau voru lögð niður fyrir nokkrum árum. Fleiri kaupsýslumenn höfðu komið nálægt slíkum viðskiptum, menn eins og Þóroddur Jónsson, Einar Farestveit, Margeir Sigurjónsson, Hjalti Björnsson og einnig Samband ísl. samvinnufélaga. Samlagið var þó langstærsti aðilinn í þessum viðskiptum. Nígeríumarkaður var um árabil hinn mikilvægasti en eftir að landið fékk sjálfstæði og múslimar fengu þar völdin, en þeir höfðu ekki áhuga fyrir skreið, fór að syrta í álinn í viðskiptum okkar við þetta land. Það var undir þeim kringumstæðum, að leiðir okkar Braga fóru að liggja saman. Áður hafði ég kynnst honum í gegnum Óskar Jónsson, stofnanda Samlagsins og formanns bæjarráðs Hafnarfjarðar um árabil. Í stuttu máli sagt átti það fyrir okkur að liggja að fara saman til Nígeríu nokkrar ferðir, og raunar líka til Ítalíu, til að reyna að hafa áhrif á viðkomandi aðila til að unnt væri að halda áfram skreiðarviðskiptum. Eftirspurn hjá almenningi var fyrir hendi en stjórnvöld torvelduðu og jafnvel bönnuðu viðskipti. Á þeim tíma var Ingvar Vilhjálmsson, útgerðarmaður, orðinn stjórnarformaður. Hann leitaði til íslenskra stjórnvalda um aðstoð til þess að hafa áhrif á yfirvöld Nígeríu í þessum efnum. Við því brugðust ráðherrar eins og Emil Jónsson, Ólafur Jóhannesson og Guðmundur Í. Guðmundsson á mjög jákvæðan hátt. Og þannig varð sá, sem þessar línur ritar, meðreiðarsveinn Braga til Nígeríu nokkrum sinnum. Kaupsýslumenn eru, eins og allir aðrir, misjafnir að upplagi og gerð. Það er ekki öllum gefið að samlagast og blanda geði, svo vel sé, við þjóðflokka gerólíka okkur - svo að segja í einu og öllu. Þar var Bragi fremstur allra, ef dæma má af því sem ég kynntist og sá í viðskiptum hans við innfædda í Nígeríu. Ég á ljúfar endurminningar af samskiptum og samvinnu við hann frá þessum árum, þótt stundum hafi verið við erfiðleika og andstreymi að etja. Raunar voru kynni okkar öll alla tíð á þann veg, að mér þykir vænt um og eru mér ógleymanleg. Blessuð sé minning heiðursmannsins Braga Eiríkssonar. Stefán Gunnlaugsson.