Kristján Rögnvaldsson Mig langar til að minnast Kristjáns Rögnvaldssonar nokkrum orðum. Hann var maður sem oft kemur upp í huga minn, sem einn af örlagavöldum í lífi mínu. Kristjáni kynntist ég sumarið 1980, er ég réðst sem háseti á Sigurey SI 71. Ég vissi auðvitað eins og allir Siglfirðingar hver maðurinn var, en þekkti hann ekkert. Mér var strax ljóst að þar fór enginn meðalmaður. Áratuga reynsla hans sem báta- og togaraskipstjóra kom oft í ljós þann tíma sem ég var með honum á Sigurey og síðar á skipi Hafrannsóknastofnunar Hafþóri RE 40, en Hafþór var sem kunnugt er leigður Þormóði ramma á sínum tíma. Ég minnist siglinga til Bretlands með bæði ferskan fisk og heilfrystan á Sigurey, þar var greinilegt að Kristján hafði komið áður, þekkti aðstæður og allt gekk fumlaust fyrir sig. Ég minnist þess að við fengum óvenju óklárt troll að nóttu til. Við vorum búnir að eyða drjúgum tíma í að leysa úr flækjunni, þegar Kristján kemur út á dekk og leysti úr málinu á augabragði. Þar kom reynsla hans að góðum notum.

Kristján barst á dögunum í tal milli mín og Gunnars Gunnarssonar, skipstjóra á Svani RE, en Gunnar var með Kristjáni á Von KE, fyrir margt löngu. Hann sagði mér frá því er þeir komu að Siglufirði næstum fullum af ís. Krisján bað um að slökkt yrði á dýptarmælinum og sigldi inn fjörðinn upp undir fjöru. Er þetta til marks um hve kunnugur Kristján var.

Eftir að Kristján hætti skipstjórn starfaði hann sem hafnarvörður á Siglufirði. Það var alltaf gaman að hitta Kristján. Hann var vel inni í flestum málum, kíminn og gefandi. Á mig virkaði hann sérfræðingur í knattspyrnu. Ég held hann hafi kunnað skil á flestum ef ekki öllum knattspyrnumönnum hérlendis sem erlendis sem eitthvað kvað að.

Ég votta þér Lilja, og öðrum aðstandendum samúð mína.

Árni Sverrisson.