Kristján Rögnvaldsson Kristján Rögnvaldsson, hafnarstjóri á Siglufirði, er fallinn frá, aðeins 67 ára að aldri. Nú á dögum, á öld vísinda og tækni, telst það ekki hár aldur. Manni bregður við þegar góðvinur og skipstjóri til margra ára hverfur burtu svo óvænt. Um morguninn 19. apríl sagði kona hans Lilja, mér frá þessu símleiðis.

Kristján hafði ekki kennt sér meins á nokkurn hátt, en fyrir nokkrum árum gekkst hann undir höfuðaðgerð og hafði náð sér að fullu eftir það. Ég átti því láni að fagna, að kynnast Kristjáni á unga aldri á Siglufirði, þar sem við ólumst saman upp. Tel ég það hafi verið mikið happ fyrir mig að kynnast svo góðum dreng og dugnaðarforki sem Kristján var.

Eins og títt er í sjávarþorpum hneigðist hugur Kristjáns snemma til sjósóknar. Byrjaði hann ungur að árum í sinni starfsgrein, að sækja sjóinn. Á togurum og öðrum fiskiskipum var sóst eftir Kristjáni fyrir dugnað og útsjónarsemi. Hann hafði allt það til að bera sem klætt gat ungan manninn. Stór og myndarlegur, auk þess rammur að afli.

Fljótlega eftir að Kristján hafði lokið námi frá Sjómannaskólanum í Reykjavík var hann orðinn skipstjóri á togaranum "Elliða" ­ þá kornungur að aldri ­ en eimitt þar lágu leiðir okkar saman. Var ég stýrimaður hjá Kristjáni á Elliða þar til hann fórst 10. febr. 1962. Þá fórum við saman yfir um á togarann "Hafliða" ­ það fellur mér ekki úr minni, þegar við stóðum saman á brúarvængnum á Elliða, hann hélt á línubyssunni, en ég hafði bundið endann af skotlínunni utan um úlnliðinn á mér, til þess að tryggja að við misstum ekki endann frá okkur. En nú reið á að vel tækist til, því þetta var síðasta skotlínan, og ekki til fleiri. Skotið geigaði ekki og lenti á framstagi "Júpiters", björgunarskips okkar.

Svo þar munaði mjóu. Þar skipaði Kristján fyrir af stakri hugprýði og æðruleysi á sökkvandi skipinu.

Okkur var bjargað að undanskildum tveimur félögum okkar, sem fórust þar. Nokkrum árum seinna lenti Kristján í annarri svaðilför. Hann hafði farið til Reykjavíkur til þess að sækja mótorskipið "Fanneyju" og var á heimleið. Voru þeir komnir NA frá Horni þar sem þeir lentu í ís, og leki kom að Fanneyju. Það var kannske kaldhæðnislegt að ég skyldi heyra fyrstur þegar Kristján kallaði út að Fanney væri að sökkva. Í það skiptið fór þannig, að Fanney sökk og allir björguðust af ísnum af tveimur skipum frá Dalvík.

Þá varð Kristján fyrir því sorglega slysi að missa son sinn fyrir borð á Dagnýju. Var það þeim hjónum mikill harmur. Þessi óhöpp í lífi eins manns gætu margir ætlað að væri nóg til að bugast, en það var eins og Kristján harðnaði við hverja raun.

Að starfa með Kristjáni var dálítið sérstakt. Hann var svo þrælkunnugur á fiskimiðum, sérstaklega fyrir Norðurlandi, að ég tel einsdæmi. Hann gat verið einstaklega hnyttinn í tilsvörum. Sá sem hafði átt í útistöðum við Kristján út af fiskislóð eða þess háttar, þurfti ekki að kemba hærurnar. Kristján sló hann strax út af laginu og t.d. í netabætingum eða annarri sjóvinnu var hann forkur. Hann var altaf réttlátur og ákveðinn í fasi og kom fram við fólk af virðuleik. Ég held ég geti fullyrt, að þeir sem sigldu með Kristjáni hafi borið honum gott orð. Þá var Kristján einkar raungóður maður og reyndi ég það best sjálfur er ég átti í erfiðleikum.

Kristján var mjög músíkelskur maður, einkanlega hafði hann gaman af söng og þá helst hinna stóru meistara eins og Gigli og Caruso. Mér er það minnisstætt þegar Birgir bróðir minn og Kristján sungu svo hátt að undirtók í húsinu heima. Þá sagði faðir minn einu sinni, en hann var góður söngmaður: "Svei mér þá, ég held að strákarnir verði söngmenn einhvern tímann." Síðar var Kristján kosinn hafnarstjóri á Siglufirði og gegndi því starfi með prýði. Það er vandasamt verk og í mörg horn að líta þegar mörg skip ber að á sama tíma og allir vilja fá afgreiðslu sem fyrst.

Leiðir okkar lágu á mis, en aldrei komum við þannig til Siglufjarðar á skipum Eimskipafélagsins, að maður hefði ekki smátíma til að hittast á hafnarskrifstofunni og taka smáspjall um lífsins gagn og nauðsynjar.

Einu atviki gleymi ég ekki í bráð. En það var sólskinsfagran sunnudagsmorgun á Siglufirði og ekki var verið að vinna um borð, að Kristján kemur um borð til mín og segir: "Heyrðu, ég þarf að sýna þér svolítið, komdu með mér í bílnum." Við héldum síðan af stað, upp Hafnarhæðina, framhjá Steinarflötum, og inn fyrir Skarðdal, síðan upp að "Hansenkofa". Þar stigum við síðan út ­ og í litlum ­ en undurfögrum skógarlundi fórum við í gönguferð. Ég varð aldeilis steinhissa og sagðist hafa haldið að ekki væri til eitt einasta tré á Siglufirði. En þá svaraði Kristján: "Bæði þú og ég gróðursettum eimitt þessi tré sem ungir strákar, undir stjórn Jóhanns Þorvaldssonar skólastjóra." Og nú sást árangurinn. Við sátum síðan saman á bekk, spjölluðum saman um gamla daga allnokkra stund í siglfirskum skrúðgarði.

Því næst var haldið heim til Kristjáns, þar sem hin mikla hannyrðakona Lilja, eiginkona Kristjáns, tók á móti okkur með góðgerðum. Þar létum við líða úr okkur um stund og ógleymanlegum degi var senn lokið.

Ég lýk svo þessum skrifum um vin minn Kristján Rögvaldsson um leið og ég sendi eiginkonu hans og börnum og öðrum ættingjum innilegar samúðarkveðjur um góðan dreng. Ég ætla að láta Þórarin Hjálmarsson (Tóta Hjálmars) um síðustu orðin:

Und lífsins oki lengur enginn stynur,

sem leystur er frá sínum æviþrautum.

Svo bið ég Guð að vera hjá þér, vinur,

og vernda þig á nýjum ævibrautum. Axel Schiöth.