GUÐJÓN A. Kristjánsson, sem skipaði fyrsta sæti á lista Frjálslynda flokksins á Vestfjörðum, er í hópi nýkjörinna þingmanna á Alþingi og er að nýafstöðnum kosningum fjórði þingmaður Vestfjarða. Þakklæti til stuðningsmanna og samverkafólks síns er Guðjóni efst í huga að fengnum úrslitum, sem komu honum ekki á óvart að hans sögn.
Guðjón A. Kristjánsson

Úrslitin komu ekki á óvart

GUÐJÓN A. Kristjánsson, sem skipaði fyrsta sæti á lista Frjálslynda flokksins á Vestfjörðum, er í hópi nýkjörinna þingmanna á Alþingi og er að nýafstöðnum kosningum fjórði þingmaður Vestfjarða.

Þakklæti til stuðningsmanna og samverkafólks síns er Guðjóni efst í huga að fengnum úrslitum, sem komu honum ekki á óvart að hans sögn.

"Við frambjóðendurnir gerðum þetta ekki einir, það var fjöldi fólks sem vann með okkur og studdi okkur og við þökkum því alveg sérstaklega fyrir vel unnin störf og skemmtilega samvinnu. Þetta var mjög skemmtileg og málefnaleg kosningabarátta," segir Guðjón.

"Við héldum okkur við okkar málefni og gerðum fólki grein fyrir því hversu alvarlegum augum við litum á það ef menn ættu að sitja í óbreyttu ástandi á Vestfjörðum," segir hann.

Um fylgið við Frjálslynda flokkinn á Vestfjörðum segir Guðjón að það hafi verið í samræmi við væntingar og að hans sögn áttu Frjálslyndir aldrei átt von á minna en 15% fylgi, en samkvæmt lokatölum fékk Frjálslyndi flokkurinn 17,7% kjörfylgi í Vestfjarðakjördæmi.

"Það hefðu verið vonbrigði að fara niður fyrir 15% fylgi miðað við þann stuðning sem við þóttumst finna fyrir í kjördæminu, enda held ég að það hafi allt skilað sér sem bjuggumst við. Ég fann mjög fljótlega að við höfðum fólk með okkur og það kom mér ekkert á óvart að við skyldum ná þessum árangri."