Ég tel mig hafa fært sæmileg rök fyrir því, að Íslendingar séu ekki af Norðmönnum komnir, segir Ólafur Sigurgeirsson, og því beri Norðmönnum engin aðild að landafundunum í Vesturheimi.
Uppruni Íslendinga Söguskoðun Ég tel mig hafa fært sæmileg rök fyrir því, að Íslendingar séu ekki af Norðmönnum komnir, segir Ólafur Sigurgeirsson , og því beri Norðmönnum engin aðild að landafundunum í Vesturheimi.

Í VETUR hef ég ritað nokkrar greinar um landafundi í Vesturheimi og uppruna Íslendinga. Ég tel mig hafa fært sæmileg rök fyrir því, að Íslendingar séu ekki af Norðmönnum komnir og því beri Norðmönnum engin aðild að landafundunum í Vesturheimi. Benjamínítar úr Galíleu Adam Rutherford ritaði árið 1939 bók, sem nefnist "Hin mikla arfleifð Íslands". Þar getur hann ættkvísla þeirra, sem byggðu Ísrael. Ættkvísl Benjamíns byggði á dögum Krists nyrsta hluta Palestínu, sem kallaðist Galílea og var aðgreind frá júðum í Júdeu af landsvæði Samverja. Fólk þetta flutti í talsverðum mæli til Litlu-Asíu öldum saman, en á tímum hinna rómversku styrjalda á fyrstu öld flúði þjóðin landið og settist að á sömu svæðum og landar þeirra áður. Af þessari þjóð var m.a. Páll postuli og voru kristnir Asíumenn aðallega af þessari þjóð fyrstu tvær aldirnar í okkar tímatali. Allt til 267 lifði fólk þetta í sæmilegu öryggi, en þá gerðu Gotar innrás í Litlu-Asíu og fluttu þaðan hertekna kristna menn til Dakíu í Dónárlöndum, en þar bjuggu þessir Gotar. Þetta kristna fólk giftist talsvert inn í gotnesku þjóðina og að fáum kynslóðum liðnum voru þeir einnig taldir Dakíar. Með tímanum gengu þeir af trúnni, en í þessu sambandi er vert að gefa þeirri staðreynd gaum, að árið 350 skrifaði Ulfila, maður að hálfu Goti, en að hálfu af kristnu foreldri, biblíu á tungu Gota, sem Íslendingar nútímans geta lesið. Herúlar - Gotar Herúlar og Gotar börðust saman við Svartahaf, en Herúlar voru þó taldir meiri sjóvíkingar en Gotar. Þar sem þessar þjóðir voru oft með sameiginlegan her var stundum einungis talað um Gota. Það er t.d. gert er lýst er stórri herför Gota til Grikklands frá Dónárlöndum á 500 skipa flota. Skipunum var lagt í höfn grísku borgarinnar Píreus í 5 mílna fjarlægð frá Aþenu. Herinn gekk á land og vann sæta sigra, en er snúið var til skipanna var búið að ræna öllum flotanum og varð Gotaherinn því að leggja land undir fót norður Grikkland. Á þeirri leið klufu Herúlar sig úr hernum og gerðust málaliðar Rómarkeisara og þjónuðu lengi af trúmennsku og stóð af þeim mikill frægðarljómi. Fyrst á þessum stað í lýsingu herferðarinnar er Herúlanna sérstaklega getið. Þetta segir okkur, að þótt Gotar sé nefndir hjá fræðimönnum og sagnfræðingum, getur eins verið um Herúla að ræða. Normannar? Íslendingar Herúlinn Odovakar gerðist konungur á Ítalíu árið 476, en var fljótlega steypt af Austgotum, sem fluttu til Ítalíu með 300 þúsund manna þjóð og ríktu til 553, er málaliðaher Byzanskeisara, meðal annars skipaður Herúlum, sigraði þá eftir áratuga stríð. Svo hart var gengið að Gotunum, að um þúsund hermenn lifðu síðustu orustuna og slík virðing var borin fyrir hreysti þeirra, að þeim var leyft að fara í friði og hurfu þeir með þjóð sína norður yfir Alpa. Um þetta leyti urðu hinir norrænu Langbarðar öflugir í Dónárlöndum og fór nú að þrengjast um Herúla og aðrar smáþjóðir í Dakíu. Á þessu skeiði eru sagnfræðilegar heimildir til um flutning Herúla til Norðurlanda, en einnig er talað um Dakíumenn og Gota. Á tíundu öld ritar Dudo fyrstu sögu Normanna og segir afdráttarlaust að þeir hafi verið Dakíumenn, einnig Duchesne, sem safnaði Normanna annálum á 17. öld. Ýmsir sagnaritarar segja frá því, að þegar Vilhjálmur bastarður réðst með lið Normanna inn í England árið 1066 hafi verið úlfur í merki því sem fyrir honum var borið. Úlfsmerkið hefur verið rakið til Galíleumanna og Herúla. Göngu-Hrólfur fór úr Vestur- Noregi til Suðureyja með mikinn víkingaflota og þaðan til Normandí árið 911. Þá fór bróðir hans Hrollaugur jarl samtímis með annan flokk víkinga til Íslands, sem ásamt öðrum víkingum stofnuðu þjóðveldi og urðu að íslenskri þjóð. Normannar og landnámsmennirnir íslensku komu nálega allir úr héruðunum á vesturströnd Noregs, þótt margir þeir, sem hingað komu hafi millilent í víkingabyggðum vestan hafs. Þessir víkingar voru aðkomufólk og voru margir í yfirstétt, eins og tíðkaðist, þegar germanar þjóðflutningatímans settust að í byggðum löndum. Tunga þessa fólks líktist íslensku, eins og tunga Gota fyrir 1.650 árum og var önnur en tunga fólks annars staðar í Noregi (Norse Language Encycl. Brit. 14. útg.). Jafnrétti? Lagaþekking? Ferðaþrá Jöfnuður einkenndi íslenska þjóðveldið og löggjöf og lagaþekking stóð á háu stigi. Utanfarir Íslendinga og landafundir í Vesturheimi segja okkur talsvert um útþrá þjóðarinnar á þjóðveldisöld. Í þessu er margt líkt með Normönnum. Þegar þeir sigldu upp Signu átti sendiboði Franka fund með þeim og kallaði eftir foringja þeirra og fékk svarið: "Við höfum engan yfirmann. Við erum allir jafnir." Einnig er greint frá því í skrifum Dudo, að í Normandí hafi lög og réttur verið á hærra plani og lög betur virt, en í öðrum hlutum Frankaríkis. Lögin höfðu víkingarnir með sér yfir hafið, eins og gerðist á Íslandi. Normannar fóru til Jórsala og í heimferð þaðan tókst 40 manna liði Normanna að leggja undir sig ríki Araba í Suður-Ítalíu og eftir það ríktu Normannar þar og á Sikiley í rúm 200 ár og voru rómaðir fyrir löggjöf sína og réttarframkvæmd. Normannaríkið á Englandi varð að heimsveldi er tímar liðu og þaðan voru lönd numin í Ameríku, Afríku, Ástralíu og víðar. Útþráin alltaf söm og jöfn. Úlfar Íslands Konungur Vestgota í Suður- Frakklandi árið 412 hét Ataulf. Bróðir Herúlans Odavokars hét Onulf. Meðal Herúla voru úlfsnöfn algeng. Það er því dæmigert að nafnið Úlfr (á forníslensku Ulfr, Ulfarr eða í samsetningunni Olfr, gnæfa yfir öll önnur nöfn í skránum um landnám víkinganna á Íslandi. Má nefna fyrsta landnámsmanninn Ingólf (Ingolfr) og svo eru nöfn eins og Herjolfr og Brynjolfr og Þórolfr. Afi skáldsins Egils á Borg hét Úlfur og var víkingur mikill og síðar nefndur Kveldúlfur. Í þeirri ætt voru menn ýmist ljósir eða dökkir á hár og nafnið Þórólfur algengt. Í Laxdælu er þetta sagt um Hrút Herjúlfsson: þar er fangs von af frekum úlfi. Úlfsnöfn urðu hér algeng í landslagi, þótt engir hafi hér úlfar verið aðrir en Herúlfar. Höfundur er hæstaréttarlögmaður. Ólafur Sigurgeirsson