David Scheffer, farandsendiherra Bandaríkjanna í málum tengdum stríðsglæpum, var staddur hér á landi í vikunni. Hann ræddi við Steingrím Sigurgeirsson og Hrund Gunnsteinsdóttur um afstöðu Bandaríkjastjórnar til Alþjóðlega glæpadómstólsins og Kosovo-deilunnar.
David Scheffer sendiherra Bandaríkjanna í málum tengdum stríðsglæpum

Hernaðaríhlutun til

verndar mannréttindum

David Scheffer, farandsendiherra Bandaríkjanna í málum tengdum stríðsglæpum, var staddur hér á landi í vikunni. Hann ræddi við Steingrím Sigurgeirsson og Hrund Gunnsteinsdóttur um afstöðu Bandaríkjastjórnar til Alþjóðlega glæpadómstólsins og Kosovo-deilunnar.

DAVID Scheffer, farandsendiherra Bandaríkjanna í málum tengdum stríðsglæpum, átti viðkomu hér á landi sl. mánudag á ferð sinni um Evrópu. Megintilgangur heimsóknar hans var að ræða við íslensk stjórnvöld um rannsóknir á stríðsglæpum, sérstaklega í Kosovo. Einnig var rætt um málefni Alþjóðlega glæpadómstólsins (ICC) en að sögn Scheffers er Ísland mikilvægur bandamaður Bandaríkjanna í Atlantshafsbandalaginu (NATO) og þar sem það fer með formennsku í Evrópuráðinu og í Norðurlandaráðinu næstu sex mánuði, hefur það sérstaklega mikilvægu hlutverki að gegna varðandi framvindu þessara mála í Evrópu á næstu mánuðum.

Nú hefur bandaríska ríkisstjórnin neitað að undirrita ICC-sáttmálann vegna 12. greinar hans á þeim forsendum að hún veiti dómstólnum "vafasama lögsögu." Flest önnur vestræn ríki hafa ekki hreyft mótmælum við þessu ákvæði sáttmálans. Hvers vegna hefur Bandaríkjastjórn neitað að undirrita hann og hverju þarf að breyta til að af undirrituninni verði?

"Ástæður Bandaríkjastjórnar fyrir því að vilja ekki undirrita sáttmálann í núverandi gerð eru einfaldar. 12. grein kveður á um að lögsaga dómstólsins nái til þegna þeirra ríkja sem ekki hafa undirritað sáttmálann.

Í okkar augum er það einfaldlega ótrúverðug stefna að lögsaga þessarar nýju alþjóðlegu stofnunar nái til herstöðva Bandaríkjanna um heim allan, þrátt fyrir að Bandaríkin séu ekki aðilar að sáttmálanum.

Þetta er nýstárlegt hugtak sem við getum ekki samþykkt í ljósi alþjóðalaga," sagði Scheffer.

Scheffer kvað Bandaríkjastjórn hafa talið rétt að sáttmálinn yrði byggður þannig upp að hann hefði einungis lögsögu yfir þegnum ríkja sem ekki væru aðilar að sáttmálanum, að því tilskildu að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna (SÞ) styddist við kafla 7 í stofnskrá SÞ í umræddu máli. Þá hefði dómstóllinn einnig rétt til að dæma þegn sem grunaður væri um stríðsglæpi ef ríkisvaldið í heimalandi hans hefði samþykkt lögsögu dómstólsins í því tilfelli.

"Að sjálfsögðu á þetta einungis við um þau ríki sem ekki eru aðilar að sáttmálanum, aðildarríki hefðu ekki val um að lúta dómstólnum," sagði Scheffer.

Öldungadeildin myndi líklega ekki samþykkja "vafasömu löggjöfina"

Scheffer sagði Bandaríkjastjórn telja með öllu ótækt að dómstóllinn ætti að hafa lögsögu yfir Bandaríkjunum, þrátt fyrir að Bandaríkjastjórn hefði ekki samþykkt sáttmálann.

"Af þessum ástæðum undirrituðu Bandaríkin ekki sáttmálann á ráðstefnunni í Róm.

Einnig drögum við í efa að öll ríkin hafi gert sér grein fyrir því hvað þau væru að samþykkja. Því raunveruleg áhrif sáttmálans eins og hann er nú yrðu þau, að um leið og 60 ríki hafa staðfest hann, skiptir engu máli hvort önnur ríki bætast í þann hóp. Ákvæði sáttmálans eru þá í gildi og ná til allra, allstaðar í heiminum, óháð því hvort þau hafa staðfest sáttmálann," sagði Scheffer.

Ennfremur sagði Scheffer að bandaríska þingið myndi að öllum líkindum ekki samþykkja sáttmálann yrði 12. grein óbreytt.

Scheffer kvaðst hins vegar fullviss um að vandamál þetta væri vel hægt að leysa og sagði Bandaríkjastjórn alla af vilja gerða til að vinna að þeirri lausn í samvinnu við önnur ríki.

Scheffer segir að frá þeim tíma sem Bandaríkjastjórn myndi undirrita sáttmálann og þar til öldungadeildin staðfesti hann, sem getur tekið nokkur ár, vilja Bandaríkin fá tryggingu fyrir að lögsagan nái ekki til Bandaríkjanna.

Hættuna við að láta lögsögu dómstólsins ná yfir Bandaríkin frá því að hann er undirritaður þar til öldungadeildin staðfestir hann, sagði Scheffer vera þá, að öldungadeildin myndi að öllum líkindum ekki staðfesta hann yrði sú raunin.

"Við erum hins vegar að mörgu leyti bjartsýn á að aðrar ríkisstjórnir geri sér grein fyrir að kostir þess að Bandaríkjastjórn staðfesti sáttmálann vegi þyngra en kostir þess að viðhalda þessari "vafasömu lögsögu"".

Þetta er samt sem áður ekki eini sáttmálinn sem Bandaríkjastjórn hefur ekki samþykkt og mætti í því sambandi nefna jarðsprengju- og barnasáttmála SÞ. Einnig hefur Bandaríkjastjórn verið treg til að láta alþjóðlega sáttmála ná til bandarískra embættismanna. Geturðu skýrt út hvers vegna Bandaríkjastjórn virðist svo oft vera á skjön við aðrar vestrænar ríkisstjórnir hvað viðkemur undirritun alþjóðlegra samninga?

"Þrátt fyrir tengsl okkar við svo margar Evrópuþjóðir og Kanada, er staðreyndin sú að bandaríski heraflinn er sá stærsti og dreifðasti í heiminum í dag. Yfir 200.000 hermenn eru staðsettir annarsstaðar en í Bandaríkjunum og það sama á við um gífurlegt magn hergagna.

Bandaríkin eru í auknum mæli beðin um að taka að sér umdeilanleg verkefni erlendis. Ef litið er til átakanna í Kosovo í þessu sambandi, í ljósi allra þeirra ásakana sem ganga á víxl, gerir maður sér fljótt grein fyrir að er við sendum þangað her til varnar mannréttindum, ­ sem þó kann að hljóma kaldhæðnislega ­, vekjum við upp ákveðnar gagnrýnisraddir og ásakanir."

Scheffer sagði Bandaríkin verða að fara gífurlega gætilega, eigi að vera hægt að treysta á herafla þeirra hvort sem það yrði í bandalagi við aðra eða ekki. "Við verðum að gæta þess að leggja ekki á herðar herafla okkar óréttmæta lagalega ábyrgð," sagði Scheffer.

"Bandaríkin reyna allt hvað þau geta til að lúta stríðslögum, hvort sem um er að ræða ákvarðanir okkar um hvaða skotmörk eigi að hæfa í Kosovo-deilunni eða við þjálfun hermanna okkar fyrir þátttöku í átökum erlendis. Ég hef mikla trú á heiðarleika og réttmæti hernaðaraðgerða Bandaríkjamanna. En það er verulega mikilvægt að við forðumst að koma upp alþjóðlegum dómstól sem dregur mikið úr vilja ríkja til að taka áhættu, sérstaklega hvað viðkemur verndun mannréttinda erlendis.

Þar af leiðandi er það svo, að vegna einstakrar stöðu þurfa Bandaríkin oft að grípa til hernaðaraðgerða, sem aðrar þjóðir, jafnvel í bandalagi þjóða, eru ekki reiðubúnar að samþykkja. Því verðum við að fara afar gætilega er við samþykkjum að láta af hendi upplýsingar um starfsfólk hers okkar.

Að þessu sögðu verð ég að leggja ríka áherslu á að frá árinu 1993 hefur ríkisstjórn Clintons verið einn af helstu þátttakendum í ICC- samningaviðræðunum og stutt stofnun dómstólsins heilshugar. Við viljum alþjóðlegan dómstól sem er virkur [...] og getur sótt til saka þá sem framið hafa ódæðisverk. En við viljum ekki að því sé þannig farið að herafli, sem einmitt starfar við að framfylgja alþjóðalögum, þurfi á óréttmætan hátt að bera ábyrgð gagnvart lögunum."

NATO er að gegna siðferðislegri skyldu sinni

Þú hefur sjálfur sagt, að hernaðaríhlutun NATO í Júgóslavíu valdi vatnaskilum á sviði alþjóðalaga. Efasemdir um lögmæti þessarar íhlutunar hafa þrátt fyrir það verið uppi, vegna þess að hér er um fullvalda ríki að ræða. Getur NATO, að þínu mati, réttlætt hernaðaríhlutunina lagalega?

"Það liggur beint við að hernaðaríhlutun sem á sér stað í því augnamiði að vernda mannréttindi þegna sem stjórnvöld þeirra hafa ráðist á, muni gefa tilefni til lagalegra deilna, það vitum við öll. Það getur hins vegar ekki stöðvað NATO í að nýta sér lagalegan rétt sinn og gegna siðferðislegri skyldu sinni."

Scheffer sagði marga þætti réttlæta hernaðaríhlutun NATO í ljósi þess hversu viðamikil og alvarleg árás serbneskra stjórnvalda á þjóð Kosovo-Albana er, auk þess sem hún á sér ekki fordæmi í sögunni. Ennfremur eigi átökin sér stað í nágrenni við aðildarríki NATO.

"Alþjóðalög hafa ekki að geyma "töfraformúlu" sem réttlætir loftárásir NATO, því í eðli sínu eru alþjóðalög umdeilanleg," sagði Scheffer.

"En við erum á frumstigi hér, milli lagalegs réttar fullvalda ríkis og mannréttinda heillar þjóðar. Ekkert svar finnst við því í skólabókum um alþjóðalög hvernig þú sameinar rétt fullvalda ríkja og mannréttindi í lögum.

Þetta er eitt helsta deiluefnið í alþjóðastjórnmálum í dag. Hver sá sem segir NATO hafa án alls efa brotið alþjóðalög með því að beita hervaldi án samþykkis Öryggisráðs SÞ, þekkir hreinlega hvorki alþjóðalög né -stjórnmál. Sá sem á hinn bóginn segir að beita megi hervaldi við öll tækifæri til að vernda mannréttindi er líka verulega á skjön við stefnur í alþjóðastjórnmálum og -lögum í dag.

Hér er um að ræða fljótandi ástand sem stjórnmál, lög og notkun hervalds eru í í dag. Við teljum að NATO hafi valið rétta leið í ákvarðanatöku varðandi loftárásirnar," sagði Scheffer.

"NATO byggði ákvörðun sína ekki aðeins á þeirri staðreynd að þjóðernishreinsanir Serba í Kosovo eiga sér ekki fordæmi í sögunni. Sú ályktun Öryggisráðsins hafði einnig áhrif sem kveður á um að Kosovo-átökin ógni heimsfriði auk ítrekaðra krafna ráðsins um að serbneska ríkisstjórnin láti af árásum á Kosovo-Albana og komist að friðarsamkomulagi, sem stjórnin hefur verið afar treg til að gera.

Það er einfaldlega ótrúverðugt að ætla að færa rök fyrir því að stærsta herveldi Evrópu eigi að sitja aðgerðalaust á meðan ríkisstjórn fremur þvílík ódæðisverk á eigin þegnum, eins og dæmin sýna í Kosovo. Ég held að það gleymist oft að þessi átök eru ekki einungis innanlandsátök, því eins og fyrr segir eru þau alvarleg ógn við öryggi og frið í löndunum í kring. Serbnesk yfirvöld hafa hrakið yfir milljón manns á flótta til annarra landa Evrópu og því eru það draumórar einir að halda að þessi átök komi Serbíu einni við."

En hvernig sérðu þetta í framtíðinni?

Við höfum orðið vitni að gífurlegum breytingum á alþjóðalögum frá því seinni heimsstyrjöldinni lauk. Enn í dag eiga miklar breytingar sér stað og því er erfitt að segja til um framtíðina. Hins vegar bendir margt til að geta til að framfylgja alþjóðalögum verði meiri í framtíðinni."

"Sönnunargögn safnast upp með hverju líki"

Hversu miklar líkur eru á að stríðsglæpamenn í Kosovo verði færðir fyrir stríðsglæpadómstólinn?

"Við trúum á gildi og sjálfstæði Stríðsglæpadómstólsins í málum tengdum fyrrverandi Júgóslavíu [ICTY] og á hæfni dómstólsins til að rannsaka stríðsglæpi vel og leggja þau sönnunargögn sem þeir finna til grundvallar þeirri ákvörðun hverjir verði dæmdir og hverjir ekki.

Sönnunargögn safnast upp með hverju líki í Kosovo í dag. Ég tel víst að Kosovo-átökin hafi stuðlað að lengri líftíma ICTY en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi. Jafnvel eftir að stríðsglæpadómstóllinn hefur gegnt hlutverki sínu vonum við að í frjálsri og lýðræðislegri Serbíu með sterkt óháð dómsvald verði eins margir stríðsglæpamenn og mögulegt er, færðir fyrir dómstóla.

Hafa ber í huga að ICTY einblínir á afbrot leiðtoga, en ekki óbreyttra hermanna. En það eru þúsundir afbrotamanna sem verða að horfast í augu við að þeir verði einnig gerðir ábyrgir gjörða sinna. Lögsóknin er þannig ekki aðeins alþjóðleg heldur eru bundnar vonir við að þessir afbrotamenn verði einnig sóttir til saka í Serbíu.

Stríðsglæpadómstólar eru sagðir hafa þau áhrif á hermenn og ráðamenn að minni líkur verði á að þeir fremji stríðsglæpi ef þeir vita að þeir muni þurfa að taka út sína refsingu. Væri ekki hægt að færa rök fyrir því að dómstóllinn hafi þveröfug áhrif og að fólk eins og Slobodan Milosevic verði tregara til að fara frá völdum, ef það eina sem bíður þess er sakfelling?

"Enginn nýtur friðhelgi af hálfu þessa dómstóls og Bandaríkjastjórn hefur enga löngun til að sá hátturinn verði hafður á. Það er mín skoðun að ráðamenn jafnt sem aðrir í Serbíu verði hreinlega að gera sér grein fyrir því að dómstóllinn mun vinna sína vinnu. Hvernig sú vinna svo skarast við stjórnmál þá stundina er áhugavert umræðuefni, en hefur lítið að gera með að framfylgja alþjóðalögum."

Morgunblaðið/Árni

DAVID Scheffer, farandsendiherra Bandaríkjanna í málum tengdum stríðsglæpum, segir ákvörðun NATO um að beita hernaðaríhlutun í Júgóslavíu ekki síst hafa verið tekna út frá sjónarhorni mannréttinda. Reuters

SÉRFRÆÐINGAR grafa upp líkamsleifar í fjöldagröf sem grafin hafði verið á tímum Bosníu-stríðsins. David Scheffer, farandsendiherra Bandaríkjanna í málum tengdum stríðsglæpum, segir sannanir fyrir stríðsglæpum sem framdir hafa verið í Kosovo hrannast upp á degi hverjum.

Getum ekki samþykkt "vafasömu löggjöfina""

Trúum á gildi og sjalfstæði dómstólsins