BRESKA lögreglukonan Jackie Smithies var það sárþjáð er hún notaði skotheld vesti sem pössuðu henni illa að hún ákvað að fara í brjóstaminnkun. Samkvæmt dagblaðinu Sun lét hún taka um 1 kíló af hvoru brjósti til að vestið yrði víðara og þrengdi ekki að henni.
Stutt Brjóstin fuku fyrir starfið

BRESKA lögreglukonan Jackie Smithies var það sárþjáð er hún notaði skotheld vesti sem pössuðu henni illa að hún ákvað að fara í brjóstaminnkun. Samkvæmt dagblaðinu Sun lét hún taka um 1 kíló af hvoru brjósti til að vestið yrði víðara og þrengdi ekki að henni. "Núna líður mér ekki eins og ég sé með tvær melónur með dúndrandi hjartslætti framan á mér þegar ég fer úr vestinu," sagði Jackie eftir aðgerðina.

Talsmaður lögreglunnar í Manchester sem Jackie starfar hjá sagði að óhjákvæmilega yrðu alltaf vandræði með vestin vegna þess að fólk er ólíkt að stærð og lögun.

Að höggva mann og annan

TVEIR ræningjar vopnaðir kjöthnífum réðust á ferðamanninn Yank Shanyu í Hong Kong og hjuggu af honum höndina til að ná gullúri skrýddu demöntum sem hann bar. Þeir hentu hendinni síðan í sjóinn en kafarar frá lögreglunni fundu hana skömmu síðar.

Læknar festu höndina á aftur en segja að það ráðist eftir þrjá sólarhringa frá aðgerðinni hvort hún hafi heppnast eður ei. Nokkuð hefur verið um árásir á ferðamenn á þeim slóðum sem slysið átti sér stað og að sögn lögreglunnar stendur til að auka löggæslu á staðnum.

Enga lögfræðinga, takk!

DRAUMAHEIMILIN í Fairway Oaks-hverfinu í Kaliforníu eru öll hönnuð með fimm svefnherbergjum, nuddpotti, risastórum garði með sundlaug og þeim formerkjum að engir lögfræðingar megi búa þar.

Þessi ákvæði gerðu lögfræðinginn Timothy Liebaert brjálaðan svo að hann lögsótti fyrirtækið sem skipulagði og reisti hverfið. En dómarinn ákvað að íbúar þess hefðu allan rétt á að vera lögfræðingalausir og að Timothy yrði að leita sér annars staðar að heimili. "Þetta er mikilvægt mál fyrir almannaréttinn," sagði Timothy. "Hvort fyrirtæki geti neitað að þjónusta fólk vegna starfs þeirra." Timothy hafði gert kauptilboð í hús í hverfinu en var hafnað sökum þess að hann starfaði sem lögfræðingur. Honum þykir þetta vera brot á mannréttindum en lögfræðingar byggingaraðilans segja að þeir hafi allan rétt á þessum takmörkunum því að lögfræðingar almennt séu líklegri til að fara í mál en aðrir borgarar.

Ungur bjargvættur

ÞRIGGJA ára stúlka bjargaði lífi móður sinnar nýlega er hún hringdi í neyðarlínuna í Kaliforníu eftir að hafa fundið móðurina liggjandi meðvitundarlausa á gólfinu.

Móðirin, sem er flogaveikisjúklingur, sagðist hafa kennt dóttur sinni að hringja í 911 ef hún fengi flog. "Ég hef fengið flog mjög oft upp á síðkastið en dóttir mín er mjög skörp ung stúlka," sagði móðirin hreykin.

"Mamma vill ekki vakna, hún fékk flog, sendið sjúkrabíl," sagði litla stúlkan er hún náði sambandi við neyðarlínuna sem fær sjálfkrafa upp á skjá hvaðan er hringt og því kom sjúkrabíll fljótt á vettvang.