Til 27. maí. Opið alla virka daga á verslunartíma. KRISTJÁN Davíðsson gerir það ekki endasleppt. Í Galleríi Sævars Karls sýnir hann sjö ný málverk sem öll verðskulda nánari athugun. Undanfarin ár hefur tvennt verið að gerast í list Kristjáns, sem segja má að hafi gjörbreytt henni.
Tákn einskis og alls MYNDLIST Gallerí Sævars Karls MÁLVERK KRISTJÁN DAVÍÐSSON Til 27. maí. Opið alla virka daga á verslunartíma. KRISTJÁN Davíðsson gerir það ekki endasleppt. Í Galleríi Sævars Karls sýnir hann sjö ný málverk sem öll verðskulda nánari athugun. Undanfarin ár hefur tvennt verið að gerast í list Kristjáns, sem segja má að hafi gjörbreytt henni. Litirnir hafa verið að þoka fyrir dökku línuspili á sama tíma og miðja flatarins hefur verið að tæmast. Það er eins og öll atburðarásin hafi verið færð út til jaðranna. Þeir fáeinu litir sem eftir standa í málverkum Kristjáns eru bláir litir og fölbrúnir. Reyndar hangir eldra og litfjörugra málverk eftir Kristján hinum megin við þilið á Galleríi Sævars Karls. Það er stórmerkilegt að skoða þróunina í ljósi þess. Án efa eru margir sem sakna litagleðinnar og finnst þeir sviknir af þessum nýja, fölleita stíl. En þegar betur er að gáð hefur ekkert tapast sem skiptir sköpum um ágæti listar Kristjáns. Hins vegar virðist margt koma í ljós sem var dulið í fyrri verkum málarans. Til að mynda hefur skapast ákveðin hrynjandi í nýju myndunum sem ekki var eins áberandi í þeim eldri. Þar dró liturinn til sín alla athygli og kyrrsetti augun svo þau numu við ákveðið samspil lita án þess að flökta um flötinn. Í nýju verkunum hvarflar augað frá einni línu til annarrar án þess að nema staðar. Um leið verður til sérkennileg sjónræn vídd líkt og mörg lög af hvítum blæbrigðum hvíldu á fletinum en rifur kæmu í þessi lög svo sjá mætti sem snöggvast ofan í hyldýpi hér og hvar. Raunar minna slíkar sjónhverfingar æði oft á yfirborð íslenskrar náttúru, en víða er eins og landslagið sé sett saman úr mörgum kyrrlátum lögum sem öðru hvoru rifna eða rofna svo skín í ólguna undir þeim. Þannig vísa þessi verk Kristjáns fremur til eðlis íslenskrar náttúru en ákveðinna staðhátta. Fremur en horfa út eftir yfirborði hennar er eins og málarinn beini sjónum sínum beint ofan á fyrirbærin. Þannig skoðum við til dæmis hverasvæði. Það ýtir undir breyttan skilning á fletinum í hinum nýju verkum að ekki er eftir snefill af þeim sjóndeildarhring sem stundum lét á sér kræla í fyrri myndum málarans. Þá eykur það á sérkennilegt dýptarspilið á fletinum hve línuteikningin er loðin og margræð. Það er óhætt að segja að sá vírtúós sem lengi hefur búið í Kristjáni blómstri nú klárar en nokkru sinni fyrr. Nýi stíllinn sem myndirnar hjá Sævari Karli tilheyra er hápunkturinn á ferli þessa gifturíka málara. Halldór Björn Runólfsson AF sýningu Kristjáns Davíðssonar í Galleríi Sævars Karls í Bankastræti.