GRÓÐURFARIÐ ER AÐLAGAÐ KULDA OG HAFNEPJU MYNDIR OG TEXTAR: JÓHANNES JÓHANNESSON LITAST UM VIÐ LEIFSBÚÐIR "Ek fann vínvið ok vínber!" sagði Leifur. Ekki er vínviðarlegt á þessum slóðum núna. Ríkjandi norðaustanátt drepur allan gróður nema þann harðgerðasta.

GRÓÐURFARIÐ ER AÐLAGAÐ KULDA OG HAFNEPJU

MYNDIR OG TEXTAR:

JÓHANNES JÓHANNESSON

LITAST UM VIÐ LEIFSBÚÐIR

"Ek fann vínvið ok vínber!" sagði Leifur. Ekki er vínviðarlegt á þessum slóðum núna. Ríkjandi norðaustanátt drepur allan gróður nema þann harðgerðasta. Einir, sem er eina upprunalega barrplantan á Íslandi, er ráðandi á Leifsbúðasvæðinu.

LEIFSBÚÐIR og umhverfi. Myndin er tekin af ás sem rís vestan staðarins.

Filma no 2ALEIÐARMERKI Leifsbúða. Í Morgunblaðsgrein 23/7 '91 gat eg mér þess til að þrjú vörðubrot á ásnum vestan búðanna hefðu verið leiðarmerki að Leifsbúðahöfn. Þangað lá mín leið þó ekki fyrr en haustið 1998. Úti fyrir ströndinni er grunnsævi, hólmar, sker og boðar sem brýtur á, svo og tvær stærri eyjar: Stóra- og Litla-Sacred Iceland. En ég var að leita að vörðunm.

Þegar upp á ásinn vestan búðanna kom blöstu við sjónum tvær vörður. Hafi vörðurnar átt að vera innsiglingarmerki þá ætti sú þriðja að vera einhversstar nálægt og á réttri siglingaleið ætti hún að miðast á milli hinna tveggja. En þriðju vörðuna var hvergi að sjá. Afstaða þessara tveggja vísaði ekki til innsiglingar á voginn neðan búðanna enda er þangað greið leið; aðeins að sigla vestur fyrir Stóru Sacred eyju og þá opnast vogurinn, greiður og hreinn. Dýpi er nægilegt í vestanverðum voginum en grunnsævi er að austan en fyrir botni hans voru grafin út fjögur naust, ætluð stærri skipunum. Trúa mín er sú að haffærum skipum hafi verið lagt fyrir akkeri undan vesturlandinu, í vari fyrir norðaustan áttinni sem hvað áleitnust er á þessum slóðum.

En hvert var þá þessum tveimur vörðunum stefnt? Austan við Leifsbúðavoginn (Epvans bay) er mjótt nes en all langt. Fremst á nesinu austanverðu er lítið fiskimannaþorp. Það er austantil á nesinu vegna þess að vestanantil er bátum ekki lendandi vegna útfiris. Austan þessa ness er hin ákjósanlegasta fjara og stutt sjávargata frá Leifsbúðum. Eftir mynd að dæma er ekki útilokað að sjá kunni fyrir vararveggjum í þessari fjöru. En úti fyrir þessari fjöru, austanvert við litlu Sacred eyju eru sker og grynningar sem gera landtöku erfiða nema á einum stað; þar er sund og innsigling virðist greið þótt þröng sé og þangað virðist vörðunum snúið.

Núna er í þessu sundi dufl sem auðveldar fiskimönnum landtöku. En hvaða þörf var þá fyrir siglingamerki ef stóru skipin sigldu vestur fyrir? Í ferð Þorvalds Eiríkssonar segir að þeir "sátu þar um kyrt þann vetur, ok veiddu fiska til matar sér". Þeir voru aðeins þrír tugir. En þeir Karlsefni, segja aðrar sögur að hafi verið samtals eitt hundrað og sextíu talsins. Eitthvað hafa þeir þurft til matar sér. Þótt lax hafi verið í ánni, sem nú er aðeins lækur og hann ekki stór, eggver og hvalreki hefur það hrokkið skammt fyrir þann fjölda manna. Þeir hafa þurft að róa til fiskjar. Ef fiskað var norðantil í sundinu má sjá að ólíkt lengra er að róa vestur fyrir stóru Sacred eyju frá Leifsbúðanaustunum heldur en væri ef lent væri í fjörunni austan búðanna. Því virðist eðlilegt að þangað væri siglingamerkjunum fiskimannanna snúið.

LEIÐARVARÐA við Leifsbúðir

ÞEGAR upp á ásinn vestan búðanna kom var ljósmyndarinn boðinn velkominn, hvellri röddu, af verði varðanna. Íkorninn sat hinn tignarlegasti og beið myndatökunnar, að höfðingja sið, en dró sig síðan hæversklega í hlé og eftirlét gestinum útsýnið.BÆJARDYR Leifsbúða

HÉR má sjá að húsin eru endurgerð úr reiðingstorfi en ekki hlaðin úr hnaus.

AÐALHÚS Leifsbúða hafa verið endurreistHELLUBROT rís á rönd og sýnir gerð berghellu landslagsins. Leifsbúðir standa á flatlendi. Þar má sjá míkró-form af landrekskenningunni, sem síðar var uppnefnd plötukenningin. Í árdaga hefur þarna verið sjávarbotn myndaður úr setbergi, sléttri berghellu. Þegar jöklar hopuðu og ísaldarfrerann leysti reis landið. Þá hefur berghellan brotnað, rétt vestan við þann stað sem búðirnar voru síðar reistar. Í einum "Stóra skjálftanum" sem reið yfir í örófi alda hefur vestari plötukanturinn færst til austurs, og skriðið austuryfir röndina á eystri plötunni, þeirri sem Leifsbúðir standa á. Þar hefur setbergshellan hlaðist upp í ca 10­15 metra háan og 50 m breiðan ás sem er vestan búðanna. Þá hefur vesturkantur berghellunnar undir búðunum sigið. Í vogunum má sjá að sjávarbotninn er gerður úr berghellu sem hallar til vesturs og í fjöruborðinu má sjá brotstaði í efsta lagi hennar, lagið er ca 20 cm þykkt.

Engin ástæða er til að álykta að sköpunarsaga landanna norðan Labradors (Hellulands/ Baffínslands) hafi verið með öðrum hætti. Hellurnar sem Helluland er kennt við eru engin undur, þær eru aðeins uppbrotinn gamall sjávarbotn sem lyftist þegar jökulfargi ísaldar létti. Hellulands nafnið gæti verið hvort sem er eftir hellum stórum, sem Þorfinnssaga hermir eða flatlendinu, flatt eins og hella, sem Ingstad getur sér til.EINIR á Leifsbúðasvæðinu. Í baksýn er nyrsti oddi Nýfundnalands, nes það "er norður gekk af landinu". (C. Bauld-höfði).

Gróðurfar á Leifsbúðasvæðinu er aðlagað kulda og hafnepju. Norðaustanáttin er ráðandi og hún kyrkir allan trjágróður nema þann harðgerðasta. Því er einirinn ráðandi trjágróður og þar sem lautir eru í landslagi eru þær sléttfullar af eini. Hann nær þó varla upp fyrir lautabarmana; allt kelur nema jarðlæga einiþekjuna, hún ein blívur.BLACK Duck Brook áin lítur ekki út fyrir að vera skipgeng og getur tæplega heitið á, en lax kann þar að læðast milli bakka.

"Þeir gerðu sér skála firr sjónum á vazströndu, og bjuggu vel um". Tóftirnar sem eru vestast, næst Black Duck Brook ánni, gætu hafi verið af skála Austfirðinganna Helga og Finnboga sem Freydís rak út úr Leifsbúðum og lét síðar drepa.

Þessi skálatóft er einmitt "firr sjónum" og hefur sennilega verið "á vazströndu" Ekki hefur þurft stórt úrrennsli úr hlíðinni fyrir ofan, eftir eyðingu skógar og sennilega brunninn svörð, til að fylla upp lítið stöðuvatn við húsin. Þegar upp var grafið fannst þessi tóft af tilviljun en hún var algjörlega hulin úrrennslisefni, aur og sandi. Ingstad telur hana einnig sérstæða; eldri en hin húsin. Væri hún hlaðin af Austfirðingum en Leifsbúðir af Vestlendingum gæti 120 ára byggingarhefð á milli landshluta skipt sköpum.

Hafi nú þetta stöðuvatn verið til staðar, þá liggur nokkuð ljóst fyrir að þar er komin önnur vísun um staðsetningu Leifsbúða, en heimsfræg er sögnin um sólina sem þar hafði dagmálastað og eyktarstað um skammdegi.

(Í Leifsbúðum á Nýfundnalandi, á 51 36'N, er sól á lofti röskar átta stundir um skammdegið.)

Höfundurinn er fyrrverandi stýrimaður.