Til 4. júní. Opið daglega frá kl. 10­23:30, en sunnudaga frá kl. 14­23:30. Í BYRJUN næsta mánaðar verður óperuleikurinn Maður lifandi eftir Karólínu Eiríksdóttur og Árna Íbsen frumsýndur á Litla sviði Borgarleikhússins.
Hver er litur dauðans? MYNDLIST Mokka, Skólavörðustíg KLIPPIMYNDIR MESSÍANA TÓMASDÓTTIR Til 4. júní. Opið daglega frá kl. 10­23:30, en sunnudaga frá kl. 14­23:30. Í BYRJUN næsta mánaðar verður óperuleikurinn Maður lifandi eftir Karólínu Eiríksdóttur og Árna Íbsen frumsýndur á Litla sviði Borgarleikhússins. Um leikmynd verksins sér Messíana Tómasdóttir, og hefur hún tekið eilítið forskot á sæluna með sýningu 18 klippimynda á Mokka, sem lýsa óperuleiknum með óhlutbundnum hætti. Raunar væri erfitt að sjá nokkur prógrammatísk tengsl milli mynda Messíönu og óperu Karólínu ef þess væri ekki rækilega getið í sýningarskrá. Verk Messíönu eru nefnilega geometrísk og láta ekkert uppi um innihald annað en þá myndbyggingarlegu lykla sem stýra gerð myndanna. Í óperunni segir af Dauðanum sem gerir sér ferð til mannheima til að heimta til sín Lifandi manninn , en hann reynir að verjast feigðinni með hjálp eiginleika sinna. Þekkingin verður loksins förunautur hans yfir móðuna miklu, en með hennar aðstoð tekst honum að sætta sig við Dauðann. Ólíkt öllum táknrænum getspám er það rauði liturinn í myndum Messíönu sem stendur fyrir dauða mannsins, en í flestum symbólskum fræðum er blár litur dauðans, ef ekki svartur, en báðir litir koma fyrir í klippimyndum Messíönu. Áhorfandinn hlýtur að spyrja sig hvort aðrir litir en rauður hafi sambærilega þýðingu. Það er nefnilega erfitt að ráða beint í þessa litrænu symbólík. Hitt er öllu augljósara að Messíana hefur mikið lært af þeim Stijl- mönnum í notkun ferhyrndra flata þótt ef til vill megi finna aðra áhrifavalda. Manni verður einkum hugsað til Mondrian og Bart van der Leck og leik þeirra með ferninga á hvítum fleti. En hver svo sem áhrifin kunna að vera þá eru þessar litlu klippimyndir Messíönu einkar fallegar og stílhreinar. Þær gætu staðið fyllilega sjálfstæðar, óháð þeim tengslum sem réðu tilurð þeirra. Halldór Björn Runólfsson FRÁ sýningu Messíönu Tómasdóttur á Mokka.