SISSA ljósmyndari heitir fullu nafni Sigríður Ólafsdóttir og er með myndarlegt stúdíó neðarlega á Laugavegi í Reykjavík. Stúdíóinu hefur hún undanfarna mánuði deilt með nemendum sem sóttu hjá henni ítarlegt námskeið í ljósmyndun sem lauk sem fyrr segir með
ÁHUGAFÓLK UM LJÓSMYNDUN

Í lagi að vera algjör byrjandi

Undanfarin ár hefur mátt merkja greinilegan aukinn áhuga fólks á því að læra ljósmyndun, bæði með það fyrir augum að leggja greinina fyrir sig og eins til að vera betur í stakk búið að sinna ljósmyndun sem áhugamáli. Hanna Katrín Friðriksen leit við í ljósmyndastúdíói Sissu á Laugavegi til að skoða þar útskriftarsýningu nemenda á vegum Sissu og fræddist í leiðinni um ljósmyndanámskeiðin sem hún hefur haldið undanfarið.SISSA ljósmyndari heitir fullu nafni Sigríður Ólafsdóttir og er með myndarlegt stúdíó neðarlega á Laugavegi í Reykjavík. Stúdíóinu hefur hún undanfarna mánuði deilt með nemendum sem sóttu hjá henni ítarlegt námskeið í ljósmyndun sem lauk sem fyrr segir með sýningu nú í vor. Nýtt námskeið er þegar hafið og mun standa næsta hálfa árið.

Sissa segist hafa byrjað í ársbyrjun 1998 með sex vikna framköllunarnámskeið og í kjölfarið fylgdi þriggja mánaða grunnnámskeið í ljósmyndun. "Á þessu námskeiði var kennt þrisvar í viku til þess að komast yfir námsefnið og það var hreinlega of mikið fyrir krakkana enda um töluverða heimavinnu að ræða. Síðastliðið haust fór ég því af stað með sex mánaða námskeið og það var að klárast nú í vor. Ég sneið þann pakka eftir þeirri reynslu sem ég hafði öðlast með fyrri námskeiðum og það gekk mjög vel. Þetta er þó mikil vinna og ég hef eiginlega ekki gert neitt annað frá áramótum en að vera með hópnum," segir Sissa, sem nú er farin af stað með annað sex mánaða námskeið fyrir áhugasama um ljósmyndun.

Sissa er ekki eini leiðbeinandinn heldur hefur fengið til liðs við sig sterkan hóp atvinnuljósmyndara með víðtæka reynslu til þess að kenna ákveðna þætti á námskeiðinu.

Gott skipulag er lykilatriði

Aðspurð segir Sissa þátttakendur á námskeiðinu ekki þurfa að hafa neina grunnþekkingu, ekkert nema áhugann. "Ég er með fyrirlestur einu sinni viku. Hver tími byrjar á því að ég prófa nemendur úr námsefni síðasta tíma og síðan er farið yfir fyrirfram ákveðið námsefni. Vikulega mætir líka hver nemandi í einkatíma hjá mér þar sem við förum í það sem betur má fara og ég aðstoða við gerð verkefna sem verða sífellt viðameiri eftir því sem líður á námskeiðið. Ef einhverjum gengur illa að tileinka sér ákveðið efni, tek ég hann í einkatíma því ég vil ekki að neinn dragist aftur úr."

Að sögn Sissu gengur það upp með góðri skipulagningu að stunda námið með fullri vinnu. "Það er allt hægt og ég fer vel ofan í það hvernig fólk getur best skipulagt vinnu sína, enda er það stór þáttur í starfi ljósmyndara almennt," segir hún.

Sex mánaða ljósmyndanám hjá Sissu kostar 250 þúsund krónur. "Sumum finnst það mjög dýrt en í raun er þetta ekki sambærilegt við eina önn í bandarískum skóla þar sem nemendur eru kannski í hópi fimmtíu annarra. Hér eru nemendur mjög fáir með aðgang að fimm góðum kennurum og heilu stúdíói," segir Sissa en nemendur á námskeiðinu hjá henni eru í mesta lagi tíu. Þeir fá fullan aðgang að stúdíóinu þegar þeir hafa lært inn á það og eru að sögn Sissu ansi mikið þar undir lokin. "Við kennararnir skiptum nemendum á milli okkar og reynum að hafa þar til hliðsjónar að sérsvið kennarans fari saman við áhugasvið viðkomandi nemanda."

Reyndar er það með fyrstu verkum nemendanna að finna húsnæði undir myrkraherbergi fyrir hópinn. "Þau þurfa að finna svona 30-40 fm pláss. Ég útvega síðan allt efni sem þarf og aðstoða þau við að setja upp myrkraherbergið. Með þessu fyrirkomulagi læra þau hvað þarf að vera í svona herbergi og hvaða hlutverki hver hlutur þar gegnir. Auk þessarar aðstöðu mega þau svo nota stúdíóið hjá mér að vild, svo lengi sem þau ganga vel um. Það er algjör frumregla að ég komi að því á morgnana eins og ég skildi við það kvöldið áður."

Úr þroskaþjálfun í ljósmyndun

Sissa lærði þroskaþjálfun áður en hún fór til Bandaríkjanna í ljósmyndanám. "Ég hafði alltaf haft áhuga á ljósmyndun og eftir að hafa unnið tvö ár sem þroskaþjálfi og á Unglingaheimili ríkisins í Kópavogi skellti ég mér vestur um haf í ljósmyndanám í Brooks Institute í New York. Ég fór með sex mánaða dóttur mína, Erlu Hlín, með mér og var fyrsta einstæða móðirin í nemendahópi skólans. Þegar ég útskrifaðist þremur árum síðar var ég komin með aðra dóttur, Tinnu, hún var fimm daga gömul við útskriftina."

Eftir námið lá leið Sissu heim til Íslands með dæturnar tvær. Síðan eru liðin níu ár. "Ég byrjaði á því að koma mér upp stúdíói á Hverfisgötunni þar sem ég bjó líka. Á þessum tíma var hins vegar kreppan í algleymingi og ég fór á hausinn. Næstu árin á eftir vann ég sem yfirþroskaþjálfi á næturvöktum á Kópavogshæli og lagði ljósmyndunina meira og minna á hilluna á meðan. Eftir nokkur ár var staða mín á Kópavogshæli lögð niður vegna skipulagsbreytinga og ég fékk sex mánaða laun sem ég tók sem merki þess að ég ætti að reyna aftur við ljósmyndunina."

Sissa byrjaði í litlu stúdíói á Lindargötunni sem hún deildi með tveimur öðrum stelpum. Sex mánuðum síðar sá hún síðan auglýsingu í Morgunblaðinu um að eigendur umboðsskrifstofunnar Eskimo models væru að leita sér að samleigjanda og ákvað að slá til ásamt vinkonu sinni Filippíu Elísdóttur fatahönnuði. "Í kjölfarið fluttum við hingað á Laugaveginn. Sambúðin gekk vel en það var ansi þröngt um okkur og fyrir rúmu ári fluttu Eskimo models í Ingólfsstrætið. Ég tók þá við þeirra plássi og hef síðan verið að gera það upp og breyta því í draumastúdíóið mitt."

Nokkrar flugur í einu höggi

Um aðdraganda þess að Sissa fór af stað með ljósmyndanámskeiðin segir hún að auk þess sem kennsla hafi alltaf verið sér áhugamál hafi hún sérstakan áhuga á að fara í framtíðinni út í svokallaðar "fine art" myndatökur. "Mér þykir leiðinlegt að gera þessar hefðbundnu tuttugu mynda möppur," segir hún. "Ég vil frekar gera stór portrett af fólki sem þá fær bara í hendur eina mynd í ramma eða vandaðar myndaseríur. Þannig myndum nær maður ekki með stuttri heimsókn fólks í stúdíóið, heldur þarf að eyða með því góðum tíma og velta allri umgjörð vel fyrir sér. Ég hef reynt að gera þetta áður, en það gekk ekki upp. Nú sýnist mér fólk hins vegar vera orðið móttækilegra en til þess að geta farið að undirbúa þetta og markaðssetja í alvöru verð ég að hafa tekjur af einhverju öðru á meðan.

Með námskeiðunum sameina ég því áhugamál og leið til þess að hafa öruggar tekjur sem ég get nýtt til þess að byggja upp tækjakost auk þess sem ég er greinilega miðað við viðtökurnar að mæta mikilli þörf sem var á svona námi hér á landi," segir Sissa og bætir við að kennslan veiti henni líka tækifæri til þess að kynna hugmyndir sínar fyrir öðru fólki. Ljósmyndun verði aldrei metin sem list á Íslandi nema fólkið fræðist um hana.

Sissa heldur líka framhaldsnámskeið í ljósmyndun. "Það eru svo margir sem hafa grúskað lengi í ljósmyndun og jafnvel lært eitthvað, en vantar frekari leiðsögn til dæmis í lýsingu eða í myrkrinu. Þessi framhaldsnámskeið eru þriggja mánaða og þar eru sömu kennarar og á grunnnámskeiðunum. Það er hins vegar farið mun hraðar yfir námsefnið, enda gengið út frá ákveðinni grunnþekkingu nemenda."

Lokað með sýningu

Sissa leggur áherslu á að þrátt fyrir að nemendur hafi farið að kalla námskeiðið ljósmyndaskóla vegna mikils umfangs námsins, útskrifi hún engan. "Þetta er bara eins og hvert annað námskeið sem fólk sækir. Það fá allir að vita strax í byrjun að þetta veitir engin réttindi, en nemendur fá bréf upp á hvað þeir hafa lært og ég gef þeim umsagnir í lokin. Það er líka ljóst að fólk lærir ekki ljósmyndun á sex mánuðum. Þetta nám er hins vegar mjög góður grunnur fyrir þá sem hyggja á frekara nám erlendis. Fólk veit þá að hverju það gengur auk þess sem ég vinn með þeim að möppu sem þau þurfa að senda með umsókninni og skrifa fyrir þau bréf með henni."

Að sögn Sissu liggur áhugi nemendanna víða. Margir hafi áhuga á tískuljósmyndun, aðrir á portrett myndatökum og listljósmyndun. Líka má nefna þá sem hafa áhuga á kvikmyndun þar sem undirstaðan er ljósmyndun og aðra sem langar að skrifa og taka ljósmyndir með. Enn aðrir vilji hafa þessa undirstöðu með námi í grafískri hönnun og svona megi lengi telja. "Ekki nærri því allir ætla sér að verða ljósmyndarar, það er kannski helmingur af fólkinu sem ætlar beint í ljósmyndanám. Aðrir ætla að nýta námið í eitthvað annað."

Námskeiðinu lýkur með sýningu á verkum nemenda og segir Sissa hana vel sótta og að nemendur hafi selt einhverjar myndir. "Það er nú líka hreinlega mjög gott að fjárfesta í verkum efir íslenska ljósmyndara í dag, af því að það er enn mjög lágt verðið hér á landi miðað við það sem gerist og gengur erlendis. Þetta á eftir að breytast á næstu árum," spáir hún að lokum.

Morgunblaðið/Ásdís SISSA

PALLI ­ sjálfsmynd

EIN af myndum Palla á útskriftarsýningunni.

GUNNAR ­ sjálfsmynd.

EIN af myndum Gunnars á útskriftarsýningunni.

SIF ­ sjálfsmynd.

EIN af myndum Sifjar á útskriftarsýningunni.

BRYNHILDUR ­ sjálfsmynd.

EIN af myndum Brynhildar á útskriftarsýningunni.

SIGGA DÓRA ­ sjálfsmynd.

EIN af myndum Siggu Dóru á útskriftarsýningunni.