Ruth Garrett Millikan er bandarískur heimspekingur sem hefur vakið mikla athygli síðan hin umdeilda bók hennar Language, Thought, and other Biological Categories kom út árið 1984. Það sem er einkum frumlegt við heimspeki hennar er að hún leggur þróunarkenningu Darwins til grundvallar flestu því sem hún skrifar.
VERK:: SAFN'MENNINGARBLAD DAGS.:: 990522 \: SLÖGG:: Viðt.v.RuthMillikan STOFNANDI:: FULLTRGS \: \: LITIÐ TIL SÖGU MANNSINS

ANDRI STEINÞÓR BJÖRNSSON RÆÐIR VIÐ RUTH MILLIKAN

Ruth Garrett Millikan er bandarískur heimspekingur sem hefur vakið mikla athygli síðan hin umdeilda bók hennar Language, Thought, and other Biological Categories kom út árið 1984. Það sem er einkum frumlegt við heimspeki hennar er að hún leggur þróunarkenningu Darwins til grundvallar flestu því sem hún skrifar.HEIMSPEKINGAR fást við allt mögulegt eins og nafnið gefur til kynna. Ruth Millikan er einmitt gott dæmi um heimspeking sem á sér mörg viðfangsefni. Hún fæst við heimspeki um sálfræði, líffræði, tungumál, hugarstarfsemi auk frumspeki (sem fæst við eðli veruleikans) og þekkingarfræði (sem fæst við þekkingu). Ég spurði hana fyrst um hvernig hún nálgaðist þessi viðfangsefni. "Ég held að það sé ekkert sem ég hef gert sem hefur ekki, á endanum, einhverja skírskotun til þróunarkenningar Darwins. Ég skil í rauninni ekki af hverju en mjög fáir hafa beitt kenningunni um náttúruval, til dæmis í sálfræði [náttúruval er talin vera meginorsök þróunar og vísar til þess að breytingar á tegund verða oft vegna þess að ákveðnir einstaklingar tegundar eru betur lagaðir að umhverfinu og lifa því frekar af en aðrir og skila þessum eiginleikum til afkomenda sinna með erfðum. Gen þeirra eru því valin úr]. Ég held að hugmyndir mínar séu umdeildar meðal annars vegna þess að ég hóf að beita þróunarkenningunni á sama tíma og menn fóru að efast um hvort skýringar byggðar á henni væru tækar [slíkar skýringar eru oft nefndar aðlögunarskýringar því að í þróun með náttúruvali laga dýr sig að umhverfinu]. Hluti deilunnar snýst því um það hvort það sé yfirleitt hægt að beita þróunarkenningunni á nokkurt viðfangsefni. Ég þarf þess vegna að berjast á tveimur vígstöðvum. Í fyrsta lagi held ég því fram að aðlögunarskýringar séu mjög mikilvægar á ákveðnum sviðum. Í öðru lagi að hægt sé að nota þær á tilteknum sviðum þar sem þær hafa ekki verið notaðar áður. Í heimspeki um tungumálið og hugarstarf hafa þær til dæmis ekki verið notaðar að neinu marki." Sálfræði er undirgrein líffræði ­ Fyrirmynd sálfræðinnar var í upphafi eðlisfræði. Var eðlisfræði heppileg fyrirmynd? "Að mörgu leyti ekki. Ég held að sálfræðingar hafi gert mörg mistök þegar þeir reyndu að líkjast efnisvísindunum sem voru greinilega svo traust og vel staðfest. Ég held að ákveðin stefna heimspekinga, svokallaðra rökfræðilegra raunhyggjumanna (logical positivists), sé að einhverju leyti ábyrg fyrir þessu [rökfræðilegir raunhyggjumenn höfðu vísindagreinar á borð við eðlisfræði að fyrirmynd í hugmyndum sínum um vísindi]. En ég held að við höfum þurft að ganga í gegnum það tímabil. Við höfum lært mikið af því að reyna að vera rökfræðilegir raunhyggjumenn," segir hún og hlær. "En það hafði að mörgu leyti slæm áhrif á sálfræði." ­ Þú hefur sagt að sálfræði sé í raun undirgrein líffræði. Hvað meinarðu með því? "Það sem ég meina með því er í grundvallaratriðum að það verði að horfa á sálræna eiginleika lífverunnar með tilliti til þeirra hlutverka (functions) sem þeir gegndu til þess að lífveran lifði af og hvers vegna eiginleikarnir voru valdir úr. Þetta er að mínu áliti það sjónarhorn sem sálfræðingar eiga að hafa, frekar en að líta á lífveruna eins og hún sé enn eitt frumefnið og horfa einungis á hana í núverandi kringumstæðum og greina hana á þann hátt. Í stað þess verðum við að skilja af hverju við gerum það sem við gerum út frá þeim hlutverkum sem hegðunin hefur þróunarfræðilega." Eiginverk ­ Hugmynd þín um eiginverk (proper function) er lykilhugtak í verkum þínum. Geturðu sagt mér meira um það hvernig þú hugsar þér þetta hugtak? "Það er athyglisvert að í Language, Thought, and other Biological Categories , fyrstu bók minni, þá skrifaði ég síðast af öllu fyrstu kaflana og þeir snerust um líffræðileg hlutverk. Upprunalegu hugmyndirnar að bókinni urðu til innan hinnar hefðbundnu þekkingarfræðilegu hefðar en smám saman gerði ég mér grein fyrir því að ég þyrfti að fjalla um hlutverk en ekki aðeins hneigðir (dispositions). Ég vildi ekki láta mér nægja að spyrja hvað dýr gerðu við ákveðnar aðstæður heldur spyrja líka hvaða líffræðilega hlutverki, eða eiginverki, athafnirnar gegndu. Til þess setti ég inn þessa síðustu kafla sem urðu fyrstu kaflarnir. Rökin fyrir því að kynna til sögunnar líffræðileg hlutverk eru að þessi hugmynd skýrir hvernig hægt er að falla ekki undir eitthvert tiltekið norm. Í efnafræði er ekki til neitt sem heitir röng viðbrögð. En meðal lifandi vera eru til rangar skoðanir og fávíslegar langanir. Það er einnig til staðar hegðun sem þjónar ekki tilgangi sínum. Það verður að vera hægt að tala um tilgang og hlutverk, það verður að vera til staðar normatíf vídd. Það er ástæðan fyrir því að ég setti fram hugmynd mína um hlutverk." ­ En síðan hefur þú verið misskilin. Hvað var það sem fólk misskildi? "Fólk heldur stundum að ég sé að reyna að smætta allt í líffræði, í erfðafræðilegum skilningi. En þetta er ekki rétt. Ég hef ekki sagt þér mikið um verk mín í heimspeki tungumálsins en þau byggjast að miklu leyti á hugmyndinni um hlutverk sem ég skilgreindi í bókinni. Og í heimspeki tungumálsins er um að ræða hlutverk sem koma ekki til vegna úrvals gena. Um er að ræða aðra gerð af úrvali. Það eru alls kyns hlutir í tungumáli sem veljast úr vegna þess að þeir hjálpa þeim sem tala og hlusta á tungumál að skilja hver annan. Því leitar maður að þeim hlutverkum sem gera það að verkum að hægt sé að tala tungumál. En það hefur ekkert með gen að gera. Og margt fólk hélt að öll mín hlutverk byggðust á úrvali gena. En það eru til aðrar gerðir af vali en náttúruval, það eru til aðrir hlutir en gen sem veljast úr." Skynsemishyggja um merkingu ­ Í inngangi bókar þinnar White Queen Psychology and other Essays for Alice [sem gefin var út 1993], sagðist þú vilja uppræta eitthvað sem þú kallar skynsemishyggju um merkingu (meaning rationalism). Hvaða hugmynd er þetta og af hverju viltu uppræta hana? "Ég vil uppræta hugmyndina af því að hún er röng. Hún hefur líka valdið miklum ruglingi á mörgum sviðum. Skynsemishyggja merkingar er í raun og veru mjög hversdagsleg hugmynd og flest fólk aðhyllist skynsemishyggju í þessum skilningi. Þetta fólk heldur að það hvort hugmyndir þess séu réttar eða ekki og hvort hugmyndir þess merki eitthvað eða ekki sé eitthvað sem það geti vitað aðeins með því að hugsa um það, með því að sitja í hægindastól og hugsa málið. Sumir heimspekingar segja að það sé einfaldlega fyrir fram þekking (a priori) [fyrir fram þekking er þekking sem er fyrir fram rétt og krefst þess ekki að sannleiksgildi hennar sé athugað nánar]. Descartes er megin fyrirmynd slíks hugsunarháttar. Ég held því hins vegar fram að það hvort hugmyndir okkar um heiminn séu réttar eða ekki og jafnvel hvort hugmyndir okkar vísi til einhvers í heiminum eða ekki, sé eitthvað sem við uppgötvum smám saman með reynslu. Þetta er ástæðan fyrir því að það eru til vísindahugmyndir sem vísa ekki til neins, eterinn er einmitt dæmi um eitthvað sem vísar ekki til neins eins og fólk hélt áður fyrr [eterinn (stundum kallaður ljósvaki eða eisa) var himneskt efni í heimsmynd Aristótelesar. Síðar var nafnið notað um efni sem "hlyti" að vera til ef ljós ætti að geta borist um geiminn]." Þú hefur sagt að maður viti ekkert um hugann eingöngu vegna þess að maður hafi huga og það að hafa vitund feli ekki í sér að maður viti endilega neitt um vitundina. Það verði alltaf að vera einhver tilvísun í kenningu . Hvað meinarðu með kenningu í þessu samhengi? "Ég held að sjálft hugtakið sem við höfum um vitund gæti verið rangt á sama hátt og hugtakið um flógiston var rangt [flógiston eða brunaefni er efni sem menn hugsuðu sér áður fyrr að yrði til við bruna]. Ég er ekki að segja að vitundin sé ekki til. Ég er hins vegar að halda því fram að þegar við tölum um vitundina þá gæti verið að við séum að hugsa um hana á vitlausan hátt. Að sjálfsögðu er um eitthvað að ræða" segir hún og hlær. "En við munum ekki komast að því hvað vitund er bara með því að hafa vitund og einblína á hana. Það er ekki aðferðin til að komast að hinu sanna. Hugtökin sem við notum eru að öllum líkindum ekki nógu góð. Ég get ekki vitað hvort það hugtak sem ég hef um vitundina sé gott hugtak bara með því að hafa vitund frammi fyrir hugskotssjónum og með því að bera saman hugtökin sem ég bý yfir. Það er engin bein leið til að vita hvort hugtök mín, sérstaklega sálræn hugtök, séu rétt. Börn þurfa að vera tveggja og hálfs árs til þriggja ára áður en þau geta haft hugtök um til dæmis skoðanir. Að búa yfir skoðunum er ekki nóg til að vita að þú hafir skoðanir. Og að búa yfir vitund er ekki nóg til að vita það eða hvað vitund er. Sumt er þó næstum áskapað. Ég á við að það er ýmislegt sem bendir til þess að við séum svo gerð [með náttúruvali] til að við getum skilið ákveðna hluti í heiminum. Börn geta náð góðum tökum á sumum hugtökum vegna þess að þau eru til þess gerð. En almennt má segja að hugtökin komi ekki bara til með því að hafa reynslu af heiminum og kalla reynsluna einhverjum nöfnum, eins og vitund. Það er erfitt verk að smíða nógu góð hugtök." Goðsögn hins gefna ­ Það má því segja að þessi hugmynd um kenningu beinist að hugtökum og hugtakasmíð, er ekki svo? "Jú. Grundvallarhugmyndin var sett fram í klassískri grein eftir Wilfred Sellars [frá 1956]. Undirtitill þeirrar greinar var "Goðsögn hins gefna" (The Myth of the Given). Hann var að andmæla þeirri kenningu að einstaklingurinn öðlist hugmyndir með því einu að upplifa eitthvað og allt í einu hafi hann hugmynd um það sem hann upplifði. Á einn eða annan hátt hafi skilningurinn eða þekkingin á einhverju verið gefin í reynslunni. Ég held að það sé rétt hjá honum að þessi staðhæfing standist ekki. Það er ekki hægt að opna einfaldlega augun og öðlast hugtök." ­ Hafa hugmyndir heimspekinga um þetta efni breyst? "Nei, aðeins að litlu leyti. Ef Sellars hafði rétt fyrir sér þá hafa þeir ekki meðtekið það sem hann hafði fram að færa um þetta, bæði í amerískri heimspeki og þó sérstaklega í heimspeki á meginlandi Evrópu. Ég nefni sem dæmi að nú eru mjög í tísku svokallaðar vitundarrannsóknir. Það er mjög vinsælt núna að tala um vitundina og margir rökræða út frá þeirri forsendu að hver maður viti að það sé eitthvað til, sem þeir kalla eigindir (qualia) bara út af því að maður upplifir það. Þekkingarfræðilega hefur þetta fólk ekkert til málanna að leggja. Hvernig fer ég þá að því að búa yfir vitund og að vita eitthvað um hana? Þetta fólk hefur ekkert að segja um gjána þar á milli. Að hafa það í huga er gefið og því næst geturðu farið að hugsa um það. Þessu er ég að mótmæla. Ef maður skoðar málið rækilega kemur í ljós að margir ganga að því vísu að þú vitir um vitundina einfaldlega vegna þess að þú ert með vitund: "Ég veit hvað ég er að tala um, ég er meðvitaður"! Nú, ég er líka með lifur og hjarta en ég veit ekkert um það nema einhver segi mér frá því," segir hún og hlær innilega. Hvað er atferli? ­ Mér virðist að verk þín beinist að miklu leyti að því að fá fólk til að hugsa um viðfangsefnið á nýjan hátt vegna þess að það hafi hugsað um það á rangan hátt áður. Þar eru hugmyndir þínar um atferli gott dæmi. Mig langar til að biðja þig um að útskýra hvað atferli er að þínu áliti og hversu mikilvægt það er að hafa rétta hugmynd um atferli. "Ég held að margir atferlisvísindamenn hafi, án þess að hugsa út í það, verið þeirrar skoðunar að atferli væri einfaldlega hreyfingar og að til þess að rannsaka atferli þyrfti að útskýra hvaða hreyfingar kæmu til af hvaða skyninntaki eða eitthvað í þá veru. Með orðinu "atferlisvísindamenn" á ég bæði við þá sem rannsaka atferli manna og einnig þá sem rannsaka atferli dýra. Ég vil vekja athygli á því að ef við ætlum að rannsaka atferli og útskýra það þá verður að lýsa því. Það er ekki hægt að útskýra neitt nema með tilliti til ákveðinnar lýsingar á því. Og það eru óendanlega margar leiðir til að lýsa hvaða hreyfingu sem er. Dæmi sem ég tek oft er "Ég depla augunum" ­ ég held að það sé nákvæm lýsing út frá sjónarhorni atferlisvísindamanns ­ en það er líka hægt að lýsa því þannig að ég sé að benda á tærnar á mér með augnhárunum eða að fjarlægja augnhárin frá augabrúnunum eða á þúsund aðra ólíka vegu. Það er ekki til neitt sem heitir "hrein" lýsing á atferli eða öllu heldur eru til óendanlega margar lýsingar á hreinu atferli. Út frá hvaða lýsingu á atferlisvísindamaðurinn að útskýra atferli? Ég hef haldið því fram að hann eigi að útskýra atferli út frá þeirri lýsingu sem sýnir hvaða hlutverki það gegnir. Við getum skilið það að loka augunum með augnlokunum út frá því hlutverki sem atferlið þjónar. Það sem atferlið gerir er að halda sandi og öðru frá augunum á mér, þetta er viðbragð sem við erum að lýsa. Ef við lýsum því þannig að við séum að benda með augnhárunum á tærnar á mér þá munum við aldrei skilja af hverju við búum yfir þessu viðbragði eða hvað það er að gera. Rétta lýsingin á atferli mun því lýsa hvað það er við atferlið sem hefur hlutverk. Það viðbragð að loka augunum er eitthvað sem jók líkurnar á því að forfeður mínir lifðu af. Þetta viðbragð valdist úr með náttúruvali." ­ Er þá alltaf um kenningu að ræða þegar atferli er lýst? "Já. Og að þessu leyti er ég sammála öðrum samtímaheimspekingum. Mjög fáir nú á dögum myndu halda því fram að vísindastarf gæti byggst á hreinum lýsingum. Ég held að næstum því allir vísindaheimspekingar geri sér grein fyrir því að það verði að þróa kenningu þegar lýsa á viðfangsefninu. Það er athyglisvert að yfirleitt þegar fólk notar heilbrigða skynsemi þá lýsir það atferli út frá hlutverki þess. Atferlisvísindamenn gera sér hins vegar ekki alltaf grein fyrir því að þeir séu að gera þetta. Ég vil benda á hversu mikilvægt það er að lýsa atferli út frá hlutverki þess og hvernig mistök hafa verið gerð vegna þess að fólk gerði sér ekki grein fyrir því að það væri nauðsynlegt." Eðlilegar aðstæður ­ Hvað um eðlilegar (normal) aðstæður? Þú tekur dæmi í White Queen Psychology um atferlisvísindamenn sem hafa rannsakað atferli í umhverfi þar sem dýrin geta ekki hegðað sér eðlilega ­ í þinni merkingu orðsins. "Því hefur stundum ekki verið veitt athygli að þegar lífvera er rannsökuð sem efnislegur hlutur þá er ekki verið að rannsaka lífveru sem lifandi veru. Þá er rannsóknin einfaldlega orðin að rannsókn á efnislegum hlut. Eitt dæmi er rannsókn þar sem rottur voru sveltar í níu daga bara til að sjá hvaða áhrif það hefði á rotturnar, til dæmis hvort þær hefðu ennþá áhuga á kynlífi. Ég held að sálfræðingar ættu að minnsta kosti að velta því fyrir sér hvort þeir hefðu í raun misþyrmt dýrinu í stað þess að rannsaka það. Hvort þeir hefðu í raun skaðað dýrið í stað þess að rannsaka atferli þess. Mér virðist það atferli sem við eigum að rannsaka vera það sem hjálpar dýrinu að lifa af og hefur því hlutverk en ekki hvað dýrið gerir þegar það er skaddað. Það er aftur á móti hægt að rannsaka dýr á fleiri vegu. Það er til dæmis hægt að athuga hvernig á að steikja kjúklinga rétt. En það er ekki rannsókn á kjúklingum sem lifandi verum, heldur rannsókn á kjúklingum sem efnislegum hlutum. Ég held að þetta eigi líka við um sálfræði. Ég held til dæmis að það þurfi að athuga mun betur þær aðstæður sem verða að vera til staðar til að mannshugurinn geti starfað rétt, en sálfræðingar hafa gert hingað til. Sálfræðingar hafa haft tilhneigingu til að halda að mannshugurinn muni starfa rétt svo lengi sem manneskjan er ekki að deyja úr hungri, svo lengi sem enginn er að berja á henni með múrsteini," segir hún og hlær. "Og ég hef bent á að það þurfi að athuga hvað sé eðlilegt umhverfi fyrir hugarstarfsemi."

Höfundurinn sótti námskeið hjá Ruth Millikan í Stokkhólmsháskóla á síðasta ári og samtalið átti sér stað þá.

RUTH Millikan með nemendum sínum í Stokkhólmsháskóla.