KRISTÍN R. Sigurðardóttir sópransöngkona, Jóhann Stefánsson trompetleikari og Brynhildur Ásgeirsdóttir píanóleikari halda tónleika í Reykholtskirkju í dag, laugardag, kl. 16. Flutt verða verk eftir Allessandro Scarlatti, Johann Sebastian Bach, Georg Friedrich H¨andel, Henry Purcell og Aldrovandini.
Harmljóð og heróðir í Reykholtskirkju

KRISTÍN R. Sigurðardóttir sópransöngkona, Jóhann Stefánsson trompetleikari og Brynhildur Ásgeirsdóttir píanóleikari halda tónleika í Reykholtskirkju í dag, laugardag, kl. 16.

Flutt verða verk eftir Allessandro Scarlatti, Johann Sebastian Bach, Georg Friedrich H¨andel, Henry Purcell og Aldrovandini.

Efnisskráin hefst á tveimur aríum (úr flokki sjö aría) fyrir rödd, trompet og fylgirödd (continuo) eftir Scarlatti. Fyrri arían, Rompe sprezza, fjallar um unga konu sem hryggbrýtur menn. Þar líkir trompetinn eftir eða bergmálar söngröddina. Seinni arían, Mio tesoro, per Le moro, er harmljóð í formi fransks menúetts, og fjallar um harmakvein konu til fjarlægrar ástar. Þar spilar trompetinn á undan og eftir röddinni og gerir þannig sönginn að þrungnum orðlausum grát. Kantatan Su le sponde del Tebro er næst á eftir, einnig eftir Scarlatti, hún er einnig harmaljóð, gerð fyrir rödd, einn trompet, strengi og fylgirödd (continuo).

Trúarlegt harmljóð

Næst er fluttur kafli úr kantötunni Ich halle viel Bekümmernis sem er trúarlegt harmljóð. Síðust á dagskrá fyrir hlé er aría eftir Aldrovandini, De Torrnente.

Á seinni hluta tónleikanna verður flutt verkið Eternal source eftir Händel við texta skáldsins Ambrose Philips. Þar skiptast rödd og trompet á um að elta og bergmála hvort annað. Þá verður fluttur heróðurinn The trumpets loud clangour, einnig eftir Händel. Næstu tvö lög eru eftir Purcell; The fifth songs with trumpet og A song with trumpet. Það fyrra er úr Ode for the birthday of queen Mary, síðasta verkið sem Purcell tileinkaði drottningunni. Síðasta verkið sem flutt verður á tónleikunum er Let the bright Seraphim úr óratoríunni Samson eftir Händel við texta eftir Milton, en byggt á sögu úr biblíunni.

Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir lauk námi frá Söngskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám á Ítalíu.

Jóhann I. Stefánsson útskrifaðist frá blásaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1992.

Brynhildur Ásgeirsdóttir lauk námi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í Hollandi.

JÓHANN Stefánsson, Brynhildur Ásgeirsdóttir og Kristín R. Sigurðardóttir á æfingu.