VIÐ erum alltaf að fjárfesta í einhverju, t.d. fasteign, bifreið, verðbréfum, lífeyrissparnaði o.fl. o.fl., síðan tryggjum við fasteignina og bílinn til að bregðast við óvæntum áföllum svo við getum verið róleg.
Af hverju ekki að fjárfesta í heilsu þinni?

Heilsurækt Fæðubótarefnin, segir Gestur Traustason , eru komin til að vera.

VIÐ erum alltaf að fjárfesta í einhverju, t.d. fasteign, bifreið, verðbréfum, lífeyrissparnaði o.fl. o.fl., síðan tryggjum við fasteignina og bílinn til að bregðast við óvæntum áföllum svo við getum verið róleg. Til að halda verðgildi eigna okkar verður að viðhalda þeim, annars skemmast þær og verða verðlausar, fæstir vilja það! Hvað með heilsuna? Er þörf á að fjárfesta í henni? Sjaldnast pælum við í því. Fjárfesta í heilsu, hvers konar bull er nú það! Allt í lagi, tökum dæmi. Hvers virði er það að eiga flotta eign, marga bíla, fullt af verðbréfum, góðan lífeyri (t.d. Sunlife), loksins orðin(n) fjárhagslega sjálfstæð(ur), hætt(ur) að vinna og ­ heilsan hrunin?! 85% þeirra sem eru komnir yfir 65 ára aldurinn eru komin með króníska hrörnunarsjúkdóma, sem þýðir jafnvel komin á stofnun sem reynir á rándýran hátt að bjarga einhverju sem er algjörlega vonlaust. Ég hef komið inn á nokkur dvalarheimili fyrir aldraða og mér var nokkuð brugðið að sjá hvernig komið var fyrir sumu fólki á besta aldri, á þetta að vera svona? Þetta er ekki falleg mynd sem er dregin upp hér, en engu að síður alltof algeng. Vegna stórkostlegra útgjalda í þessum geira er ávallt reynt að spara og spara, sem þýðir minni og minni þjónusta við það fólk sem ætti í raun að fá þá bestu umönnun sem völ er á, þetta er fólkið sem ól okkur upp. Við getum afstýrt þessu að miklu leyti, það er staðreynd að 70% allra sjúkdóma sem hrjá okkur mannfólkið má rekja til ónógrar næringar. ­ Ha, hvað meinar þú?! Ég borða sko þjóðlegan og hollan mat! Þetta er algengt svar sem ég heyri, en það er nú samt þannig að alveg sama hvað þú ert dugleg(ur) að setja saman holla máltíð, hún kemur aldrei til með að innihalda 100% öll þau næringar- og bætiefni sem þú þarft, það vantar að meðaltali u.þ.b. 5 vítamín og 8 steinefni á dag. ­ En ég tek sko fjölvítamín og lýsi alla daga! kemur þá oft í kjölfarið, sem er mjög gott ef bara líkaminn gæti nýtt sér þau. Það er nú þannig að meltingarvegurinn í okkur Vesturlandabúum er meira og minna stíflaður, sem þýðir að upptakan er léleg. Hver kannast ekki við að finna sáralítinn mun á sér þrátt fyrir góð vítamín og annað sem prófað er, sem síðan lendir alltof oft uppi í skáp hjá öllum hinum "töfralausnunum". Það verður að byrja á því að hreinsa þarmana vel og halda þeim síðan hreinum, alltaf, þannig að hámarksupptaka náist. Það sem gerist þegar líkaminn fær ekki sína 100% næringu daglega er ekki flókið, hann fer að hrörna smátt og smátt, mótstöðuaflið minnkar, síþreyta og slen verður daglegt brauð, alls konar kvillar fara að gera vart við sig, s.s. morgunþyngsli, höfuðverkur, offita, kvíði, ofnæmi, hækkandi blóðfita, ristilvandamál, mataróþol, ótímabær öldrun o.fl. o.fl. sem þýðir að ef þú byrjar að fjárfesta í heilsu þinni áður en í óefni er komið getur þú notið góðs og heilsuríks lífs. Oftast hugsum við ekkert út í svona lagað fyrr en í óefni er komið, hver kannast t.d. ekki við hjartasjúkling sem búinn er að fá áfall, gangast undir erfiða aðgerð og síðan langa endurhæfingu, hvað viðkomandi verður meðvitaður um hollt mataræði og næga hreyfingu eftir á! Það er nefnilega hægt að byrgja brunninn, við þurfum bara að byrja á því fyrr, ef ekki, þá bara dettum við ofan í hann, og þá er oftast orðið of seint að byrja á því hversu mikið sem okkur langar til þess. Hver kannast ekki við "Ef ég hefði nú bara"...?

En við erum nú einu sinni þannig að við flækjum oft ótrúlega einfalda hluti fyrir okkur, og hvernig er hægt að ætlast til að okkur líði vel miðað við allt "ruslið" sem við látum daglega ofan í okkur? Þetta eru stór orð en eiga við um, því miður, allt of marga. Offita og aðrir heilsufarslegir sjúkdómar sem rekja má til rangrar næringar eru orðin að einum stærsta heilbrigðisvandanum í dag. Streita, lyfjanotkun, reykingar, áfengi, lélegar matarvenjur og síðast en ekki síst matvælaframleiðsla nútímans gera það að verkum að við fáum ekki þá næringu sem við þurfum. Ef við eigum gæludýr þá er þetta einfalt; við kaupum bara tilbúið fóður, en þetta tilbúna fóður er háþróaður matur sem sérfræðingar hafa sett saman sérstaklega fyrir viðkomandi dýr svo það dafni vel, þetta reynist okkur ekki erfitt að skilja. En þegar kemur að okkur sjálfum þá förum við að flækja málið verulega. Sem betur fer er til fólk sem reynir að passa samsetningu matarins eftir bestu getu, en það dugar ekki þannig að 100% rétt samsetning náist daglega, en stærri er sá hópur sem hugsar ekkert út í næringargildi og hollustu matarins sem borðaður er, sennilega vegna tímaleysis. Mannslíkaminn er algjört meistaraverk sem þúsundir vísindamanna út um allan heim rannsaka daglega. Þessu tækniundri, sem samsett er af fleiri þúsund milljörðum frumna, má líkja við háþróaða vél sem gengur sleitulaust 24 tíma á sólarhring.

Að meðaltali endurnýjast 1 milljarður frumna á klukkutíma fresti, þ.e. líkaminn er að "smíða" þennan fjölda á hverjum klukkutíma. Og til að fruman sem smíðuð er sé heilbrigð þarf sérhæft og ákveðið smíðaefni sem kallað er "frumunæring". Ef aftur á móti líkamann vantar smíðaefnið þá verður fruman ófullkomin, sem getur þýtt allt frá munnangri til flókins sjúkdóms, því hver sjúkdómur eða kvilli sem hrjáir okkur byrjar alltaf á einni frumu. Þetta kann allt að hljóma flókið, en er sáraeinfalt, fæðubótarefnin eru komin til að vera.

Góð heilsa er gulli betri. Og höfum hugfast að þetta þarf ekki að vera neitt flókið, þetta verður fyrst flókið þegar við förum að streitast á móti og gerum eins og við höldum að eigi að gera þetta. Notfærum okkur þekkingu Kínverja, sem hafa notað rætur og lauf í þúsundir ára til að viðhalda góðri heilsu. Málið er að gera þetta einfalt. Þetta er lífsstíll.

Höfundur er mjólkurfræðingur.

Gestur Traustason