Kántrýbær teygir út anga sína Blönduósi. Morgunblaðið. KÁNTRÝBÆR ehf., fyrirtæki Hallbjörns Hjartarsonar á Skagaströnd og fjölskyldu hans, hefur tekið við rekstri Blönduskálans á Blönduósi og hafið starfsemi undir nafninu Grillbær. Jafnframt er Hallbjörn að undirbúa útsendingar Útvarps Kántrýbæjar í Skagafirði.
Kántrýbær

teygir út anga sína

Blönduósi. Morgunblaðið.

KÁNTRÝBÆR ehf., fyrirtæki Hallbjörns Hjartarsonar á Skagaströnd og fjölskyldu hans, hefur tekið við rekstri Blönduskálans á Blönduósi og hafið starfsemi undir nafninu Grillbær. Jafnframt er Hallbjörn að undirbúa útsendingar Útvarps Kántrýbæjar í Skagafirði.

Í Grillbæ verður hægt að fá grillrétti hverskonar og pítsur og þar á meðal kántrýpítsuna skagstrensku. Eins og vafalítið flestir vita er Kántrýbær ehf. sama fyrirtækið og rekur samnefndan bæ á Skagaströnd og má segja með þessu að Hallbjörn Hjartarson, kúreki norðursins, hafi hafið innreið sína í Blönduósbæ.

Kántrýbær ehf. er fjölskyldufyrirtæki og ásamt Hallbirni eru þar fremst í flokki dóttir hans og tengdasonur, Svenny og Gunnar Halldórsson. Í samtali við Morgunblaðið sagði Gunnar að veitingastaðurinn væri meðal annars hugsaður sem framlenging á Kántrýbæ eða jafnvel vegvísir þangað. "Staðurinn verður með svolitlum "kántrýblæ"; hjá okkur mun "kántrýtónlistin" frá Útvarpi Kántrýbæ hljóma."

Hallbjörn kántrýkóngur hyggur á fleiri landvinninga, nú til austurs. Sagði hann í samtali við Morgunblaðið að Útvarp Kántrýbær mundi hljóma um Skagafjörðinn um miðjan júní ef allt færi sem nú horfði.

Morgunblaðið/Jón Sigurðsson ÞAU tóku við veitingarekstri Blönduskálans sem nú heitir Grillbær, f.v. Svenny Hallbjörnsdóttir, Kristín Inga Hólmsteinsdóttir, Gunnar Halldórsson og Hallbjörn Hjartarson.