SALA á fyrstu nautgripunum af Limousine kyni á Íslandi hófst í vikunni. Gripirnir koma frá Gunnari Jónssyni á Egilsstöðum. Í fréttatilkynningu frá Nýkaupi kemur fram að Limousine nautgripir séu taldir gefa matbesta kjötið með tilliti til bragðgæða og hefur kjötið einnig verið talið mjög meyrt og er það m.a. ástæða þess að kynið var valið til ræktunar hér.
Sala hafin á nýrri tegund nautakjöts

SALA á fyrstu nautgripunum af Limousine kyni á Íslandi hófst í vikunni. Gripirnir koma frá Gunnari Jónssyni á Egilsstöðum.

Í fréttatilkynningu frá Nýkaupi kemur fram að Limousine nautgripir séu taldir gefa matbesta kjötið með tilliti til bragðgæða og hefur kjötið einnig verið talið mjög meyrt og er það m.a. ástæða þess að kynið var valið til ræktunar hér. Limousine gripir ná 280 kg þyngd á 18-22 mánuðum, sem er sami tími og tekur venjulega íslenska gripi að ná um 220 kg þyngd.

Nýkaup og Ferskar kjötvörur hafa samið um kaup á þeim gripum sem falla til á þessu ári frá Gunnari, en gera má ráð fyrir 2-10 gripum á mánuði út þetta ár, en síðan má búast við auknu framboði. Í fréttatilkynningunni frá Nýkaupi kemur fram að Gunnar hafi náð góðum árangri í þessari ræktun og sé frumkvöðull á þessu sviði hér á landi.

Nú var slátrað 8 gripum og var sá stærsti 440 kg. Þar sem takmarkað magn kom á markað verður kjötið af gripunum eingöngu selt í verslun Nýkaups í Kringlunni og verslun Nýkaups við Eiðistorg.

Nautalund af stærsta gripnum frá Egilsstöðum var um 3 kg að þyngd en lund af venjulegum íslenskum nautgrip er 1,3-1,4 kg að þyngd. Innralærisvöðvi mældist 7 kg, en algeng vigt af íslenskum nautgrip er 3,5 kg.