LAUN Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra á Akureyri, munu ekki hækka þrátt fyrir úrskurð kjaradóms fyrr í mánuðinum um 30% launahækkun alþingismanna og ráðherra. "Það hefur ekki komið til greina af minni hálfu að taka þessari hækkun og hoppa upp í launum um 30%.
Bæjarstjórinn á Akureyri tekur ekki launahækkun í kjölfar úrskurðar kjaradóms Hækkunin úr takt við

launaþróunina hjá bænum

LAUN Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra á Akureyri, munu ekki hækka þrátt fyrir úrskurð kjaradóms fyrr í mánuðinum um 30% launahækkun alþingismanna og ráðherra. "Það hefur ekki komið til greina af minni hálfu að taka þessari hækkun og hoppa upp í launum um 30%. Ég gerði ráð fyrir því í mínum starfssamningi fyrir rúmu ári að launabreytingar hjá kjaradómi yrðu með svipuðum hætti og undanfarin ár. Nú þegar verið er að hækka launin um 30% er það úr takt við launaþróunina hjá Akureyrarbæ."

Laun bæjarstjóra, bæjarfulltrúa og nefndarmanna hjá Akureyrarbæ taka mið af þingfararkaupi og sagði Kristján Þór það bæði sjálfsagðan og eðlilegan hlut að taka þær greiðslur hjá bænum sem tengdar eru þingfararkaupi til endurskoðunar.

Finna þarf aðra tengingu

"Reynslan sýnir að þessi tenging gagnast okkur ekki nægilega vel og við höfum rætt það að taka til endurskoðunar og breyta samsetningu nefndarlauna. Mér finnst að kjaradómur ýti enn frekar á að það verði gert og stefnt er að því að ræða þetta mál á bæjarráðsfundi fyrir næsta fund í bæjarstjórn."

Kristján Þór sagði að sín laun hefðu tekið algjörum stökkbreytingum miðað við fyrirliggjandi forsendur. "Ég hlýt hins vegar að telja eðlilegt að starfskjör bæjarstjórans á Akureyri, eins og annarra starfsmanna, taki einhverjum breytingum í samræmi við launaþróun í landinu. En þetta er of mikið og við þurfum að finna aðra tengingu en þessa."