eftir Anna Salter. Pocket Star Books 1999. 349 síður. ANNA Salter heitir nýr spennusagnahöfundur bandarískur. Hún hefur aðeins skrifað tvær bækur, "Shiny Water", sem kom út fyrir nokkrum árum, og síðan þessa sem hér um ræðir, "Fault Lines", er Pocket Star Books gaf út í vasabroti fyrr á árinu.
Geðlæknirinn góði Michael Stone ERLENDAR

BÆKUR Spennusaga "FAULT LINES" eftir Anna Salter. Pocket Star Books 1999. 349 síður. ANNA Salter heitir nýr spennusagnahöfundur bandarískur. Hún hefur aðeins skrifað tvær bækur, "Shiny Water", sem kom út fyrir nokkrum árum, og síðan þessa sem hér um ræðir, "Fault Lines", er Pocket Star Books gaf út í vasabroti fyrr á árinu. Anna Salter er réttargeðlæknir eins og aðalpersónan í bókunum hennar tveimur, Michael Stone. Stone þessi er kvenmaður þrátt fyrir nafnið og þarf að glíma við margskonar vandamál á stofunni sinni auk þess sem erkióvinur hennar gengur laus, Alex B. Willy, barnaníðingur og sadisti. Honum hefur verið sleppt úr fangelsi á einhverjum tæknilegum forsendum og það líður ekki á löngu áður en hann hefur samband við uppáhalds geðlækninn sinn og við tekur leikur kattarins að músinni. Sá leikur verður nokkuð langdreginn en bókin er aldrei leiðinleg, þökk sé áhugaverðum aukapersónum. Kynferðisafbrotamenn Kunnátta og þekking Önnu Salter í geðlæknisfræðum skín alls staðar í gegn en hún er enn einn bandaríski sakamálahöfundurinn sem á langt háskólanám að baki og nýtir sérþekkingu sína til þess að búa til spennusögur. Hún er sérfræðingur í kynferðisafbrotamönnum og hefur skrifað bækur um kynferðislega misnotkun á börnum og haldið um efnið fyrirlestra bæði í Bandaríkjunum og víðar. Sérfræðiþekkingin kemur að mjög góðum notum í "Fault Lines", sem fjallar öðrum þræði um fórnarlamb kynferðisafbrotamanns en bókin kemur reyndar inn á margt fleira í daglegum störfum geðlækna séð með augum Mikaelu Stone, sem er sögumaður bókarinnar. Stone þessi býr ein og hefur lítinn tíma fyrir sjálfa sig í öllu því stressi og vinnuálagi sem geðlæknir í hennar sporum býr við. Hún hefur dulítinn áhuga á lögreglumanni sem heitir Adam og bjargaði henni frá morðingja í fyrri sögunni en annars lifir hún fyrir starf sitt og er næsta óviss um stöðu sína í lífinu. "Endrum og sinnum tók ég mér í hendur þessar bækur sem sögðu eitthvað eins og: Menn eru frá Mars, konur eru frá Venus. Þær fengu mig einatt til þess að halda að ég væri frá Plútó. Það var eins og ég passaði hvergi inn í myndina." Partur af skýringunni getur verið sá að Stone missti barnið sitt fyrir nokkrum árum og hefur enn ekki náð jafnvægi í líf sitt. Áhugaverð persóna Stone er ákaflega mikið í mun að fara eftir siðareglum í samskiptum við sjúklingana sína og má segja að Önnu Salter takist að gera sögurnar af þeim á köflum áhugaverðari en sjálfa spennufléttuna. Einn heitir Ginger, sem hefur þá áráttu að líma sig fasta við geðlæknana sína svo þeir fá aldrei frið. Annar er Kamilla, sem varð fyrir árás kynferðisglæpamanns og á langt í land með að ná sér eftir það. Þriðja er Lorraine, sem á bágt með að þola krakkana sína þrjá. Og inn á milli þeirra lúrir Alex B. Willy og bíður færis að hremma Stone. Willy þessi dettur úr sögunni á svo löngum kafla að lesandinn næstum gleymir honum, sem hlýtur að vera bagalegt fyrir óþokka eins og hann, og lokauppgjörið þar sem þau tvö mætast, Stone og hann, hefði mátt vera spennuþrungnara. Hins vegar er margt gott í sögunni, Stone er áhugaverð persóna og starf hennar hið forvitnilegasta og víst er að hún á eftir að fá fleiri sögur um sig í framtíðinni. Arnaldur Indriðason