HELSTU sérfræðingar heims um öryggi á leikvöllum barna funduðu hér á landi í vikunni. Tilefnið var að ræða evrópskan staðal um öryggi leikvallatækja. Staðallinn, sem unninn var á vegum Evrópusambandsins, var samþykktur á Íslandi í lok síðasta árs en nokkur reynsla er komin á notkun hans í öðrum löndum.
Evrópskur staðall um öryggi leikvallatækja ræddur á fundi sérfræðinga Leikvellir

séu skemmtilegir og öruggir

HELSTU sérfræðingar heims um öryggi á leikvöllum barna funduðu hér á landi í vikunni. Tilefnið var að ræða evrópskan staðal um öryggi leikvallatækja. Staðallinn, sem unninn var á vegum Evrópusambandsins, var samþykktur á Íslandi í lok síðasta árs en nokkur reynsla er komin á notkun hans í öðrum löndum.

"Staðallinn gefur vísbendingu um hvernig haga á málum ef vel á að vera," sagði Herdís Storgaard, sem átti þátt í mótun staðalsins. Á fundinum var meðal annars rætt um hvernig staðið skuli að kynningu staðalsins og hvaða gildi æskilegt sé að hann hafi.

Líflegir leikvellir

Harry Harbottle er fulltrúi evrópskra neytenda og starfar á vegum Evrópusambandsins. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að mikilvægt væri að kanna aðstæður í hverju landi. Harry segir slysatíðni á leikvöllum svipaða og í flestum Evrópulöndum, en staðlinum sé ætlað að draga úr henni. "Mestu skiptir að koma í veg fyrir alvarlegustu áverkana, höfuðmeiðsl og kyrkingar, minni háttar óhöpp verða alltaf óhjákvæmileg," sagði hann.

Harry leggur áherslu á að mikilvægt sé að leikvellir bjóði upp á skemmtilegt leiksvæði, til lítils sé að leikvöllur sé öruggur ef börnin vilja heldur leika sér á götunum. Herdís Storgaard bendir á að Ísland hafi nokkra sérstöðu hvað þetta varðar, hér séu leikvellir stærri en tíðkast í öðrum löndum og náttúran oft látin halda sér, sem geri vellina óneitanlega meira spennandi.

Ástand nýrra leikvalla á Íslandi er gott að mati sérfræðinga en viðhaldi eldri leikvalla er nokkuð ábótavant. Harry Harbottle telur að hér hafi náðst góður árangur en foreldrar og stjórnmálamenn þurfi að vera meðvitaðir um mikilvægi þess að börn geti leikið sér á öruggum svæðum. Morgunblaðið/Ásdís HARRY Harbottle, fulltrúi Evrópusambandsins, segir mikilvægt að fólk sé meðvitað um öryggi barna.

Morgunblaðið/Þorkell FRÁ leikskólanum Vesturborg.