AUK 1.500 mannslífa sem týndust með Titanic 14. apríl 1912, hvarf Omar mikli með skipinu í djúpið. Nýlega fundust gögn um tilurð Omars mikla, snið af tækjum og myndir, sem sýna ljóslega þessa skrautlegustu bók sem gerð hefur verið. Þessi gögn eru undirstaðan í sýningu í Barbicanbókasafninu í London og þar barði FREYSTEINN JÓHANNSSON þetta bókbandslistaverk augum.
MIKIL BÓK Á MIKLU DÝPI

AUK 1.500 mannslífa sem týndust með Titanic 14. apríl 1912, hvarf Omar mikli með skipinu í djúpið. Nýlega fundust gögn um tilurð Omars mikla, snið af tækjum og myndir, sem sýna ljóslega þessa skrautlegustu bók sem gerð hefur verið. Þessi gögn eru undirstaðan í sýningu í Barbicanbókasafninu í London og þar barði FREYSTEINN JÓHANNSSON þetta bókbandslistaverk augum. OMAR mikli hefði skipað sinn sess í kvikmyndinni Titanic, ef menn þar á bæ hefðu bara haft gleggri hugmyndir um bókina. En það var ekki fyrr en á síðasta ári, að menn duttu niður á myndir af gerð hennar og sáu svart á hvítu, hver dýrgripur þessi Omar var; sérinnbundin útgáfa af Rúbajat eftir Omar Khayyam, gullslegin og skreytt 1.050 eðalsteinum. Bókin var í sérsmíðaðari eikaröskju, hafði verið keypt á uppboði í London 29. marz 1912 og var á leið vestur um haf í hendur nýs eiganda. Það voru tveir ungir Lundúnabúar, Francis Sangorski og George Sutcliffe, sem bjuggu Omar mikla til. Þeir hittust námsmenn við listiðnaðarskólann í London og leiðir þeirra lágu saman til starfa við bókagerð að námi loknu. Þegar þeim var svo sagt upp störfum, ákváðu þeir að stofna sitt eigið fyrirtæki, Sangorski & Sutcliffe, sem fljótlega gat sér gott orð fyrir vandaða bókbandsvinnu og blómstraði í 90 ár. Gullslegið geitarskinn Þeir félagar bundu inn fyrstu skartgripaskreyttu bókina 1903. Sú var skreytt nokkrum perlum og má segja, að mjór hafi reynzt mikils vísir, því frá henni fikruðu þeir félagar sig áfram allar götur til Omars mikla. Í leiðinni framleiddu þeir nokkur páfuglsskreytt eintök af minni útgáfunni á þýðingum Edward Fitzgerald á Rúbajat, en svo ákváðu þeir að gera bók, sem myndi bera af öllum bókum öðrum. Til þess völdu þeir stærri útgáfuna af Rúbajat frá 1884 með þýðingum Fitzgerald og teikningum eftir Elihu Vedder. Það tók tvö ár að vinna bókina eftir að Sangorski hafði á átta mánuðum teiknað skreytingarnar á bókarkápuna og saurblöðin. Framan á bókinni eru páfuglar, sem eiga að benda til persnesks uppruna vísnanna og á jöðrunum eru skreytingar, sem vísa til persnesks arkitektúrs. Á bakhliðinni er mynd af mandólíni á skreyttum grunni. Á saurblöðunum eru annars vegar draumsóleyjar, sem spretta út úr auga höfuðkúpu, og hins vegar hringar sig snákur í eplatré. Bókin var bundin í mjúkt, litað geitarskinn og skreytt ameþystum, granatsteinum, ólivinum, rúbínum, tópösum, turkísum og skærgrænum gimsteini. Í páfuglafjaðrirnar framan á bókinni fóru 97 tópasar, rúbínar í augun og 250 ameþyststeinar í skreytingarnar í kring. Gimsteinninn fór í auga snáksins á fremra saurblaðinu. Stórfenglegasta bók í heimi Það er haft eftir Rob Shepherd, framkvæmdastjóra Shepherdsbókbindarafyrirtækisins, í The Sunday Times, að annað eins bókband hafi aldrei verið unnið og vafamál, hvort önnur bók slík lítur nokkurn tímann dagsins ljós. Þessi bók er einfaldlega sögulegt stórvirki á sviði bókbandsins. Einhverjir, sem bókina sáu á sínum tíma, höfðu orð á því, að eðalsteinarnir væru svo margir, að bókin væri einum of skrautleg. Shepherd segir, að vel megi vera, að einhverjum hafi fundizt bókin ljóma um of. "En hún er stórkostlegt handverk og hæfir skáldlegu efni ljóðsins." Til þess er tekið, að þeir Sangorski og Sutcliffe skyldu ráðast í framleiðslu bókarinnar án þess að hafa öruggan kaupanda að verki loknu. Þegar bókin kom fyrst á markað í London 1911 voru sett á hana 1000 pund, en þótt hún vekti mikla athygli beggja vegna Atlanzhafsins fékkst ekki það verð á uppboði hjá Sotheby's 29. marz 1912. Menn eru að leika sér að því að gizka á það nú, að fyndist bókin óskemmd í flaki Titanic mætti fá fyrir hana að minnsta kosti milljón pund. En þúsund pund þóttu of mikið 1911 og á endanum keypti Gabriel Weis, miðlari í New York, Omar mikla fyrir 405 pund, hálfum mánuði áður en Titanic fórst. Í tímariti var sagt 1912, að það væru ef til vill makleg örlög, að þessi dýrasta bók allra bóka skyldi farast með mikilfenglegasta skipi allra tíma. Og bókarmissirinn varð efni sérstakra frétta í kjölfar skipsskaðans; 21. apríl stóð í The Observer: "...þarna fór með Titanic sú bók, sem án alls vafa má kalla stórfenglegustu bók í heimi." Tvær sögur af síðustu ferð Það fer minnst tvennum sögum af síðustu ferð þessarar bókar. Í grein Martin Thompson í The Sunday Times segir, að Weis hafi keypt hana á vegum nafnlauss Bandaríkjamanns, sem vel má hafa verið Harry Widener, auðmaður frá Fíladelfíu, en í hans fórum var bókin, þegar Titanic rakst á ísjakann. Segir sagan, að Widener hafi sést með eikaröskjuna í fanginu og hann á að hafa sagt við samferðamenn sína: "Ef ég ferst ,fer þessi með mér." Widener þessi var þrátt fyrir ungan aldur, 27 ár, þekktur bókasafnari og átti þann draum að setja á laggirnar bókasafn í líkingu við það, sem milljarðamæringurinn J. Pierpont Morgan stofnaði. Harry Widener fórst með Titanic og eftir slysið lét móðir hans drauminn rætast með stofnun bókasafns við Harvardháskóla. Hin sagan segir, að Widener hafi aðeins haldið á bókinni fyrir Pierpont Morgan, sem hafi þá verið nafnlausi kaupandinn. Morgan átti bókað far með Titanic fyrir sig og marga dýrgripi, sem hann safnaði á meginlandi Evrópu, einkum Frakklandi, en svo fór, að hvorki hann né þau djásn náðu skipinu. Omar annar í loft upp Francis Sangorski drukknaði í júlí 1912, þegar hann freistaði þess að bjarga baðgesti við ströndina í Sussex. George Sutcliffe rak fyrirtækið áfram við góðan orðstír. Á þriðja áratugnum stóð frændi hans, Stanley Bray, að því að bundin var inn önnur sjaldgæf útgáfa af Rúbajat og tók það verk sjö ár. Þegar seinni heimsstyrjöldin brauzt út, var bókinni komið fyrir í stálkassa í sérstakri geymslu í vöruskemmu, sem fyrirtækið átti í London. Svo fór að vöruskemman var sprengd í loft upp og bókin með og urðu skartgripirnir einir eftir. Bray framleiddi svo Omar þriðja, reyndar mun íburðarminna eintak, og er sú bók geymd í British Library. Sýningin á teikningunum og tækjunum, sem notuð voru við gerð Omar mikla er þannig tilkomin, að þegar Shepherdsfyrirtækið keypti Sangorski & Sutcliffe á síðasta ári af skartgripafyrirtækinu Asprey, fylgdi með í kaupunum skjalasafn, sem náði allt aftur til ársins 1901. Þar í fundu menn snið af þeim verkfærum, sem notuð voru við gerð bókarinnar, myndir af teikningum og svarthvítar myndir af bókinni, eins og hún leit út fullgerð. Sýningin í Barbicanbókasafninu stendur út maí, en Shepherdsfyrirtækið er með verzlun við Rochester Row í London. Ferhendur Tjaldarans Omar Khayyam var persneskur stjörnufræðingur og skáld, fæddur í Naishapur í Khorassan á seinni hluta 11. aldar. Ferskeytlur hans, Rúbajat, urðu vinsælar mjög í okkar heimshluta í enskri þýðingu Edward Fitzgerald 1859, en hún er til í tveimur gerðum; 75 vísur í annarri og 110 vísur í hinni. Rúbajat eða Ferhendur Tjaldarans hafa verið þýddar á íslenzku; Einar Benediktsson, Magnús Ásgeirsson og Skuggi (Jochum Eggertsson) þýddu minni gerðina og nefndi Einar þýðingu sína Ferhendur Tjaldarans, en Khayyam þýðir tjaldgerðarmaður. Helgi Hálfdanarson þýddi "síðari vísur Rubajats". Fleiri en þeir, sem hér eru nefndir, hafa glímt við að íslenzka ferskeytlur Omars Khayyam. Ó, njótum sumars fyrir feigðarhaust,

er frostköld, háðsleg gellur dauðans raust:

Hverf duft til dufts! Í dufti hófið mitt

helzt drykklaust, sönglaust, gestlaust ­ endalaust!úr Rúbajat eftir Omar Khayyam. Magnús Ásgeirsson þýddi.

SHEPHERDSFYRIRTÆKIÐ hefur látið vinna í tölvu litmynd af Omari mikla. TITANIC tók Omar mikla með sér í djúpið.