SJÖ þýzkir þingmenn, sem sæti eiga í ferðamálanefnd þýzka Sambandsþingsins, sóttu Ísland heim í vikunni. Að sögn Antje-Marie Steen, þingmanns þýzka jafnaðarmannaflokksins SPD, sem fór fyrir sendinefndinni, var tilgangur heimsóknarinnar sá að fræðast um stöðu ferðamála á Íslandi, einkum með tilliti til þess hvað verið sé að gera til að lokka Þjóðverja hingað sem ferðamenn,
Þýzkur þingmannahópur í Íslandsheimsókn

Fræddust um íslenzka ferðaþjónustu

SJÖ þýzkir þingmenn, sem sæti eiga í ferðamálanefnd þýzka Sambandsþingsins, sóttu Ísland heim í vikunni. Að sögn Antje-Marie Steen, þingmanns þýzka jafnaðarmannaflokksins SPD, sem fór fyrir sendinefndinni, var tilgangur heimsóknarinnar sá að fræðast um stöðu ferðamála á Íslandi, einkum með tilliti til þess hvað verið sé að gera til að lokka Þjóðverja hingað sem ferðamenn, en Þjóðverjar eru sem kunnugt er mjög fjölmennir í hópi erlendra gesta á Íslandi.

Nefndarmenn hittu meðal annars fulltrúa íslenzkra ferðaskrifstofa og sátu fund með samgöngunefnd Alþingis, sem kölluð var sérstaklega saman af þessu tilefni.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Antje-Marie Steen að sendinefndin hefði orðið þess vísari, að mikil þróun hefði átt sér stað í íslenzkri ferðaþjónustu á síðustu árum, og taldi hún líklegt að þá miklu aukningu sem verið hefur í komu ferðamanna hingað megi rekja til þessarar þróunar. Þá hefði nefndarmönnum leikið forvitni á að heyra um þau framtíðaráform sem hér væru uppi varðandi þjónustu við erlenda ferðamenn.

Þetta var ekki fyrsta Íslandsheimsókn nokkurra í hópnum, en þeir nefndarmeðlimir sem Morgunblaðið hitti sögðust allir harma hve viðdvölin hefði verið stutt að þessu sinni, aðeins tveir dagar. "Þetta er örugglega ekki í síðasta sinn sem ég kem hingað, og ég held það eigi við okkur öll," sagði Klaus Brämig, þingmaður kristilegra demókrata frá Saxlandi.

Morgunblaðið/Ásdís LJÓSMYNDARI Morgunblaðsins náði mynd af þýzka þingmannahópnum þar sem verið var að sýna honum húsakynni Alþingis. Frá vinstri: Klaus Brämig, Dr. Eberhard Brecht, Antje-Marie Steen, Birgit Roth, Sylvia Voss, Rosel Neuhäuser, Stephan Dehe nefndarritari, Dr. Harald Kahl og lengst til hægri er Barbara Nagano, sendifulltrúi í þýzka sendiráðinu.