ÞAÐ ríkti mikil gleði á heimili Víkverja síðastliðinn sunnudag, þegar Manchester United landaði Englandsmeistaratitlinum í knattspyrnu. Einkum var það yngri sonurinn sem lét gleði sína í ljós, en hann talar jafnan um þá Manchester-menn í fyrstu persónu: "Við erum bestir,


ÞAÐ ríkti mikil gleði á heimili Víkverja síðastliðinn sunnudag, þegar Manchester United landaði Englandsmeistaratitlinum í knattspyrnu. Einkum var það yngri sonurinn sem lét gleði sína í ljós, en hann talar jafnan um þá Manchester-menn í fyrstu persónu: "Við erum bestir," sagði hann eftir leikinn og máli sínu til stuðnings setti hann á fóninn lagið "We are the Champions" með hljómsveitinni Queen. Víkverji fór þá að velta fyrir sér hversu mikil áhrif knattspyrna getur haft á tilfinningar þeirra, sem á annað borð heillast af íþróttinni.

Víða um land, í heimahúsum og á öldurhúsum, safnaðist fólk saman til að fylgjast með þessum tiltekna leik í Manchester, og reyndar einnig öðrum leik, sem fram fór á sama tíma í Lundúnum, þar sem keppinautur United um meistaratitilinn, Arsenal, háði hetjulega baráttu þótt ekki dygði það í þetta skipti. Það skiptust því á sorg og gleði meðal stuðningsmanna þessara liða hér á landi, sem annars staðar í heiminum, og Víkverja finnst það merkileg tilhugsun að fólk í fjarlægum löndum skuli láta sig svo miklu varða hvað er að gerast á tilteknum knattspyrnuvöllum á Englandi í það og það skiptið. Þetta segir sína sögu um vinsældir knattspyrnunnar og Víkverji blæs á allt nöldur um að of mikill tími fari í sjónvarpsútsendingar af knattspyrnuviðburðum.

VÍKVERJI hefur verið aðdáandi Manchester United í yfir 30 ár, allar götur frá því á sjöunda áratugnum. United var þá með yfirburðalið í enskri knattspyrnu, rétt eins og nú, og frá þeim tíma eru Víkverja minnisstæðastir leikmennirnir Bobby Charlton, Denis Law og George Best, enda voru þeir þá þegar komnir í hóp þjóðsagnapersóna. Víkverji man meira að segja eftir tilteknum tilþrifum þessara manna á leikvelli og frammistaða Best, leik eftir leik, er kapítuli út af fyrir sig, sem og traustvekjandi yfirferð Charltons á miðjunni. Í þessu sambandi fór Víkverji að velta því fyrir sér hvort hið sama yrði upp á teningnum að þrjátíu árum liðnum, hvort ungir United- aðdáendur komi til með að muna eftir rispunni sem Ryan Giggs tók upp allan völl í bikarleiknum á móti Arsenal fyrr í vor, eða mörkunum sem Beckham og Cole skoruðu í leiknum gegn Tottenham nú á sunnudaginn? Víst er að þessir leikmenn, ásamt fleiri liðsmönnum Manchester United á undanförnum árum, eru nú þegar komnir í dýrlingatölu meðal stuðningsmanna liðsins.

ÁHUGAMENN um knattspyrnu hafa haft uppi vangaveltur um hvort liðið teljist betra, gullaldarlið United frá 7. áratugnum eða gullaldarliðið nú. Slíkur samanburður verður þó aldrei annað en getgátur enda hefur knattspyrnan breyst mikið á þessum þrjátíu árum og óraunhæft að gera slíkan samanburð. Hins vegar er alveg ljóst, að takist leikmönnum Manchester United að klára "þrennuna", það er að vinna til viðbótar þá tvo titla sem í boði eru, enska bikarmeistaratitilinn og Evrópumeistaratitilinn, verður erfitt að horfa framhjá liðinu þegar knattspyrnuáhugamenn framtíðarinnar fara að ræða um bestu knattspyrnulið 20. aldarinnar.

Úrslitaleikurinn um enska bikarmeistaratitilinn fer fram í dag á þjóðarleikvangi Englendinga, Wembley, og úrslitaleikurinn í meistaradeild Evrópu verður háður í Barcelona næstkomandi miðvikudag. Báðum þessum leikjum verður sjónvarpað beint hér á landi og viðbúið að taugar verði þandar til hins ýtrasta á mörgum heimilum og öldurhúsum víða um land á meðan á leikjunum stendur.