ALÞJÓÐASTOFNANIR, sem fjalla um efnahagsmál, eins og Efnahags- og framfarastofnunin, OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, eru nú að birta niðurstöður sínar af athugunum á íslenzku efnahagslífi, ástandi og horfum.
HORFUR Í EFNAHAGSMÁLUM ALÞJÓÐASTOFNANIR, sem fjalla um efnahagsmál, eins og Efnahags- og framfarastofnunin, OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, eru nú að birta niðurstöður sínar af athugunum á íslenzku efnahagslífi, ástandi og horfum. Báðar stofnanirnar vara við "ofhitnun" í þjóðfélaginu, sem gæti leitt til vaxandi verðbólgu, en fara annars lofsamlegum orðum um efnahagsstjórn síðustu ára og sjá margt jákvætt við hana.

En hvað er þá til ráða og hvað geta stjórnvöld gert til þess að hamla gegn verðbólgu? Þar eru ýmis ráð til, en mikilvægast er að áliti þessara stofnana að auka sparnað í þjóðfélaginu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir í skýrslu sinni, að þegar litið sé fram á veginn, eigi stefnan í ríkisfjármálum að gegna því lykilhlutverki að koma á jafnvægi milli sparnaðar og fjárfestingar. Hinn mikli árangur undanfarinna ára við að styrkja ríkisfjármálin hafi orðið almenningi sýnilegur, þegar greidd eru upp lán hins opinbera, þar á meðal erlend lán. "Stjórnvöld ættu að færa sér í nyt aukna almenna vitund um ávinning af efnahagslegum stöðugleika með skýrri stefnumörkun fyrir komandi ár sem miðar að því að skila verulegum afgangi í rekstri hins opinbera. Þetta myndi stuðla að auknum sparnaði í þjóðarbúskapnum og stuðla með því að bættu ytra jafnvægi á komandi tímum. Það myndi líka skapa nauðsynlegt svigrúm fyrir aðgerðir, til lengri tíma litið, til að mæta hugsanlegum ytri áföllum. Áherzlan í ríkisbúskapnum ætti áfram að vera á aðhald í útgjöldum. Við teljum, að svigrúm sé til að draga enn frekar úr stuðningi ríkisins við einkageirann. Framleiðslustyrkir og tilfærslur taka enn til sín verulegan hluta af fjárlögum. Aðhald að útgjöldum skapar svigrúm til að lækka skattbyrði sem haldizt hefur óbreytt í meginatriðum á undanförnum árum."

Ríkisstjórn, sem hefur markvisst lækkað skatta undanfarin ár, á erfitt með að hækka skatta í góðæri, en skattahækkun er vissulega aðferð til að slá á eftirspurn í þjóðfélaginu. Hið sama má segja um vaxtahækkun, en í því frjálsræði, sem nú ríkir og er vissulega hluti af þeirri uppsveiflu, sem verið hefur á efnahagssviðinu, er það ekki einfalt mál. Fyrirtæki taka nú í auknum mæli erlend lán, m.a. vegna þess að vaxtamunur hérlendis og erlendis er þegar kominn á það bil, að þar munar 4 til 5 prósentustigum. Hækkun skatta og vaxta er því mjög erfið leið fyrir stjórnvöld við þessar aðstæður, enda bendir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á, að með aðhaldi ríkisútgjalda sé enn svigrúm til lækkunar skatta.

Á hinn bóginn hefur aukinn kaupmáttur og hækkun launa í þjóðfélaginu, m.a. launaskrið, valdið því að kaupæði hefur að vissu leyti gripið um sig. Bílainnflutningur er gífurlegur og á þátt í óhagstæðum viðskiptajöfnuði, sem menn hafa m.a. bent á sem þenslumerki.

Sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telja, að stjórnvöld hafi enn frekar dregið úr vægi opinberra afskipta í þjóðarbúskapnum með því t.d. að einkavæða að hluta til fjármálastofnanir í eigu hins opinbera. Fyrstu aðgerðir í þessa átt hafi gefið góða raun og ættu stjórnvöld nú að ráðast í það að einkavæða bankakerfið að fullu með því að selja þann hlut, sem enn er í eigu hins opinbera. Útvíkkun einkavæðingarstefnunnar til annarra sviða efnahagslífsins, svo sem fjarskipta, myndi einnig skila verulegum ávinningi.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, segir m.a. að mesta áhættan í framvindu efnahagsmálanna sé að verðbólga aukist mun meir en spáð hefur verið, sem leitt gæti til víxlhækkana kaupgjalds og verðlags. Til að fyrirbyggja slíkt þurfi að treysta peningastefnuna. Gerist það ekki gæti orðið erfitt að ráða við slík umskipti í efnahagsmálum.

Framleiðslugeta þjóðarbúsins var að mati Þjóðhagsstofnunar því sem næst fullnýtt árið 1997 og frá þeim tíma hefur landsframleiðslan aukizt hraðar en framleiðslugeta hagkerfisins og mældist munurinn um 3% á árinu 1998. Sú framleiðsluspenna bendir til hættu á aukinni verðbólgu.

Með sameiginlegu átaki þarf þjóðin að breyta afstöðu sinni. Í stað þess að það þyki eftirsóknarverðast að kaupa nýjan bíl eða ferðast oft til útlanda á það að verða eftirsóknarvert að spara.

En það er ástæða til að undirstrika, að þau vandamál og viðfangsefni, sem framundan eru í efnahagsmálum, eru vandamál, sem leiða af góðæri, einhverju því mesta, sem þjóðin hefur kynnzt á þessari öld.