ÖLDUNGADEILD Bandaríkjaþings samþykkti í fyrrakvöld nýtt frumvarp, sem miðar að því að stemma stigu við glæpum barna og unglinga en kveður ennfremur á um strangari reglur um sölu skotvopna. Samkvæmt frumvarpinu á dómsmálaráðuneytið einnig að rannsaka markaðssetningu ofbeldiskenndra kvikmynda og tölvuleikja til að ganga úr skugga um hvort börn séu meðal helstu markhópanna.
Frumvarp gegn unglingaglæpum á Bandaríkjaþingi

Hertar skotvopnareglur samþykktar

ÖLDUNGADEILD Bandaríkjaþings samþykkti í fyrrakvöld nýtt frumvarp, sem miðar að því að stemma stigu við glæpum barna og unglinga en kveður ennfremur á um strangari reglur um sölu skotvopna. Samkvæmt frumvarpinu á dómsmálaráðuneytið einnig að rannsaka markaðssetningu ofbeldiskenndra kvikmynda og tölvuleikja til að ganga úr skugga um hvort börn séu meðal helstu markhópanna.

Frumvarpið var samþykkt með 73 atkvæðum gegn 25 og kveður á um ýmsar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að unglingar geti keypt byssur. Til að mynda er kveðið á um að kanna verði feril allra þeirra, sem kaupa skotvopn á byssusýningum og ráðstafanir til að koma í veg fyrir að fólk undir 18 ára aldri geti eignast hálfsjálfvirk skotvopn. Þá verður bannað að flytja inn ákveðnar skothylkjaklemmur í fjölskota- eða hríðskotabyssur, auk þess sem byssukaupmönnum er gert skylt að að selja gikklása með hverri skammbyssu til að koma í veg fyrir að börn geti hleypt af henni.

Ákvæðið um byssusýningarnar lokar smugu í núverandi lögum, sem skylda aðeins byssukaupmenn með verslunarleyfi til að kanna feril viðskiptavina sinna á byssusýningum. Þeir selja aðeins um 60% þeirra skotvopna, sem seld eru á sýningunum, en hin koma frá söfnurum og byssuáhugamönnum.

Fulltrúadeildin þarf einnig að samþykkja frumvarpið til að það verði að lögum.

Demókratar nýttu meðbyrinn

Að sögn The New York Times sætir það mestu tíðindum að þessar ráðstafanir skyldu yfirleitt hafa verið ræddar á þinginu og notið stuðnings þingmanna úr báðum flokkunum. Demókratar, sem höfðu m.a. rakið kosningaósigur sinn í þingkosningunum 1994 til stuðnings þeirra við herta byssulöggjöf, gerðu sér skyndilega grein fyrir því að málið hafði snúist þeim í hag eftir blóðsúthellingarnar í framhaldsskólanum í Littleton í síðasta mánuði.

Demókratar notuðu þennan meðbyr til að knýja fram tillögur sínar og margir repúblikanar féllust á þær, virtust vera hræddari við að fæla frá sér stuðningsmenn hertrar byssulöggjafar en að ergja samtök byssueigenda og íhaldssömustu kjósendurna.

Þótt ráðstafanirnar, sem voru samþykktar í fyrrakvöld, gangi ekki mjög langt bendir atkvæðagreiðslan til þess að "ný pólitísk miðja" sé að skapast í Bandaríkjunum í umræðunni um byssur og ofbeldi barna og unglinga, að sögn The New York Times . Blaðið sagði í forystugrein að þingið þyrfti að gera miklu meira til að koma í veg fyrir að unglingar gætu útvegað sér skotvopn.

Atkvæði Gores réð úrslitum

Nokkrum klukkustundum áður en frumvarpið var samþykkt var mikil spenna í öldungadeildinni þegar atkvæði voru greidd um breytingartillögu demókrata þess efnis að kanna beri feril allra þeirra sem kaupa skotvopn á byssusýningum. Al Gore greiddi oddaatkvæði um það mál þannig að tillagan var samþykkt með 51 atkvæði gegn 50. Er þetta aðeins í fjórða sinn sem atkvæði hans hefur ráðið úrslitum í öldungadeildinni frá því hann varð varaforseti.

Rúmum þremur klukkstundum áður en öldungadeildin greiddi atkvæði um breytingartillöguna hafði unglingspiltur sært sex nemendur í skotárás í menntaskóla bæjarins Conyers í Georgíu-ríki. Einn þingmannanna, Max Cleland, demókrati frá Georgíu, sagði að skotárásin hefði ráðið úrslitum um þá ákvörðun hans að styðja tillöguna. Áður höfðu fimmtán manns beðið bana í skotárás tveggja unglinga í framhaldsskólanum í Littleton og sú árás olli straumhvörfum í umræðunni um hvort herða ætti byssulöggjöfina.

Samtök bandarískra byssueigenda beittu sér gegn ákvæðinu um byssusýningarnar og sögðu eftir atkvæðagreiðsluna að öldungadeildin hefði leitt stærra vandamál hjá sér; hún hefði ekki tekið á því hvernig framfylgja ætti betur núgildandi byssulöggjöf.

Demókratar sögðu að atkvæðagreiðslan í fyrradag sýndi að áhrif samtakanna hefðu minnkað.

Aðgerðir gegn ofbeldi í kvikmyndum og tölvuleikjum

Repúblikanar voru í fararbroddi þeirra sem börðust fyrir ákvæðinu um að markaðssetning ofbeldiskenndra mynda og tölvuleikja yrði rannsökuð, m.a. til að beina athyglinni frá byssulöggjöfinni. Þingmenn úr báðum flokkunum hafa þó gagnrýnt afþreyingarfyrirtækin og krafist þess að þau viðurkenni að þau beri einnig ábyrgð á ofbeldi barna og unglinga.

Samkvæmt frumvarpinu ber dómsmálaráðuneytinu og Viðskiptaráði Bandaríkjanna að rannsaka hvernig afþreyingarfyrirtækin markaðssetji ofbeldiskenndar kvikmyndir, sjónvarpsefni og tölvuleiki með það að markmiði að ganga úr skugga um hvort börn séu á meðal helstu markhópanna.

Afþreyingarfyrirtækin fá einnig takmarkaða undanþágu frá lögum um auðhringavarnir til að gera þeim kleift að hafa samráð um nokkurs konar siðareglur til að stemma stigu við klámi og ofbeldi í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tölvuleikjum.

Ennfremur er mælst til þess að kvikmyndahús og myndbandaleigur framfylgi betur reglum kvikmyndafyrirtækjanna um lágmarksaldur áhorfendanna. Heilbrigðisyfirvöldum er einnig falið að rannsaka áhrif ofbeldismynda og ofbeldiskenndra söngtexta á hegðun barna.

Þá samþykkti öldungadeildin breytingartillögu um að bannað yrði að kvikmynda "samviskulaust og tilefnislaust ofbeldi" á landareignum bandaríska ríkisins. Ýmsum bandarískum stofnunum, m.a. varnarmálaráðuneytinu, strandgæslunni og geimvísindastofnuninni, NASA, verður einnig bannað að aðstoða við slíka kvikmyndun samkvæmt frumvarpinu.