HÆSTIRÉTTUR dæmdi á fimmtudag 33 ára gamlan sjómann til að greiða 400 þúsund króna sekt fyrir að hafa smyglað 60 lengjum af sígarettum og 73,5 lítrum af áfengi inn til landsins með Goðafossi í ágúst á síðasta ári. Alls var reynt að smygla inn til landsins með skipinu 473,5 lítrum af áfengi og 363 lengjum af tóbaki.
Sektaður fyrir smygl

HÆSTIRÉTTUR dæmdi á fimmtudag 33 ára gamlan sjómann til að greiða 400 þúsund króna sekt fyrir að hafa smyglað 60 lengjum af sígarettum og 73,5 lítrum af áfengi inn til landsins með Goðafossi í ágúst á síðasta ári.

Alls var reynt að smygla inn til landsins með skipinu 473,5 lítrum af áfengi og 363 lengjum af tóbaki. Í máli, sem höfðað var gegn fimm mönnum vegna málsins, samþykktu fjórir sektargreiðslu en þessi fimmti taldi 400 þúsund króna sekt of háa. Hann lét því málið ganga áfram til dómsmeðferðar í gegnum héraðsdóm og Hæstarétt.

Í dómi Hæstaréttar frá því á fimmtudag segir að héraðsdómari hafi talið sekt hæfilega ákveðna 400 þúsund krónur, og sé þá m.a. miðað við verðmæti varningsins sem maðurinn viðurkenndi að hafa flutt inn. Ekki sé lögum samkvæmt tilefni til að breyta þeirri ákvörðun og var því niðurstaða héraðsdómarans staðfest með dómi hæstaréttardómaranna Garðars Gíslasonar, Arnljóts Björnssonar og Markúsar Sigurbjörnssonar.