SIGRÚN Pálmadóttir sópransöngkona og Iwona Jagla píanóleikari halda einsöngstónleika í Tónleikasal Söngskólans, Smára, Veghúsastíg 7, þriðjudagskvöldið 25. maí kl. 20. Tónleikarnir eru lokaáfangi burtfararprófs Sigrúnar frá Söngskólanum Í Reykjavík.

Einsöngstónleikar

Sigrúnar Pálmadóttur

SIGRÚN Pálmadóttir sópransöngkona og Iwona Jagla píanóleikari halda einsöngstónleika í Tónleikasal Söngskólans, Smára, Veghúsastíg 7, þriðjudagskvöldið 25. maí kl. 20. Tónleikarnir eru lokaáfangi burtfararprófs Sigrúnar frá Söngskólanum Í Reykjavík.

Á efnisskránni eru íslenskir ljóðasöngvar eftir Sigvalda Kaldalóns og erlend næturljóð eftir Richard Strauss, Benjamin Britten og Alban Berg og norræn ljóð eftir Grieg og Sibelius. Einnig verða flutt atriði úr óperum, m.a. aría og dúett úr Kátu konunum frá Windsor eftir O. Nicolai, þar sem Nanna María Cortes mezzó-sópran kemur til liðs við Sigrúnu og Iwonu, aría Mögdu úr La Rondine eftir Puccini og vals Júlíu úr Rómeó og Júlíu eftir Gunod.

Kennari Sigrúnar í Söngskólanum í Reykjavík hefur frá upphafi veirð Ólöf Kolbrún Harðardóttir söngkennari auk þess að njóta handleiðslu Iwonu Jagla píanóleikara.

Sigrún hefur starfað með Nemendaóperu Söngskólans undanfarin tvö ár og m.a. tekið þátt í uppfærslum á Töfraflautunni þar sem hún söng bæði hlutverk Fyrstu dömu og Papagenu og í Leðurblökunni, þar sem hún fór með hlutverk Adele. Hún er félagi í kór Íslensku óperunnar og tók þar þátt í uppfærslum á Turandot og Leðurblökunni. Hún hefur komið fram sem einsöngari við ýmis tækifæri.

Sigrún Pálmadóttir sópransöngkona.