SAMRÁÐSFUNDUR um skýrslu Evrópusambandsins, sem nefnd hefur verið grænbók (Green Paper) og fjallar um opinberar upplýsingar, var haldinn á Grand hóteli á fimmtudag, en á fundinum var rætt um skýrsluna og afstöðu Íslendinga til hennar.
Samráðsfundur um skýrslu ESB um aðgang að opinberum upplýsingum Leitað eftir

áliti Íslendinga

Evrópusambandið hefur sent sérfræðinga sína víða um Evrópu til þess að kynna hina svokölluðu grænbók, sem er skýrsla sambandsins um opinberar upplýsingar í upplýsingasamfélaginu. Trausti Hafliðason sat fund sem haldinn var af þessu tilefni á Grand hóteli á fimmtudaginn.

SAMRÁÐSFUNDUR um skýrslu Evrópusambandsins, sem nefnd hefur verið grænbók (Green Paper) og fjallar um opinberar upplýsingar, var haldinn á Grand hóteli á fimmtudag, en á fundinum var rætt um skýrsluna og afstöðu Íslendinga til hennar. Ola-Kristian Hoff, sérfræðingur hjá ESB, kynnti skýrsluna, en framkvæmdastjórn sambandsins leitar eftir sem víðtækustu áliti á henni. Hann sagðist búast við því að setti ESB lög um upplýsingar og aðgengi að þeim myndu þau um margt líkjast íslensku upplýsingalögunum, sem sett voru árið 1996.

Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélag og upplýsingaskrifstofan MIDAS-NET, sem rekin er í tengslum við margmiðlunaráætlun ESB og EFTA, stóðu fyrir fundinum, sem var vel sóttur, en um 80 manns sátu hann.

Grænbókin var gefin út 20. janúar, en útgáfan er liður í undirbúningi stefnumótunar ESB á þessu sviði. Í skýrslunni er tekið á ótal atriðum varðandi upplýsingar frá hinu opinbera, t.d. eru opinberar upplýsingar skilgreindar, fjallað er um aðgengi að þeim, höfundarrétt, verndun gagna og ábyrgð, verðlagningu gagna og áhrif einkaréttar á samkeppnisstöðu.

Ástandið í góðu lagi hér

Hoff sagði að ESB hygðist notfæra sér þær upplýsingar sem kæmu fram á samráðsfundum, eins og þeim sem haldinn var á Grand hóteli á fimmtudaginn, til að móta stefnu í upplýsingamálum, en hann sagði að enn væri ekki vitað hvenær eða hvort ESB smíðaði sérstaka upplýsingalöggjöf. Þó að upplýsingarnar verði ekki notaðar til að hanna löggjöf um upplýsingamál þá verða niðurstöðurnar af þessum samráðsfundum gefnar út af ESB þegar búið verður að skoða þær og meta.

Ísland er fjórða landið sem Hoff heimsækir í þessum tilgangi en áður hafði hann sótt fundi til Noregs, Portúgals og Spánar. Hann sagði að þó nokkur munur væri á því hvernig umræðurnar þróuðust í hverju landi fyrir sig og af umræðunum hér að dæma sagðist hann líta þannig á að ástandið væri í nokkuð góðu lagi. Sú staðreynd að á fundinum var mest rætt um kostnað við upplýsingaþjónustu og það hvort hið opinbera eða einkaaðilar ættu að annast þjónustuna gefur til kynna að gæðin séu mikil og að fólk sé almennt ánægt með það sem nú þegar er á boðstólum. Til samanburðar var á fundinum í Portúgal mest fjallað um gæði þjónustunnar og lítið framboð af gögnum og sagði Hoff þær athugasemdir vera mun alvarlegri en þær sem hér komu fram. Hann sagði að töluverður munur væri á Norður- og Suður-Evrópu í þessum málum.

Má koma öllum upplýsingum fyrir á einum stað?

Á fundinum fjölluðu íslenskir sérfræðingar um málið frá mismunandi hliðum og eins og kom fram í máli Hoff, snerist umræðan að miklu leyti um kostnað við aðgengi að upplýsingum og það hvort hið opinbera eða einkaaðilar ættu að sjá um að koma upplýsingunum til almennings. Einnig var fjallað um það hversu dreifðar upplýsingarnar frá hinu opinbera væru á Netinu, þ.e. að ráðuneyti og stofnanir væru hvert með sína heimasíðu með sínum upplýsingum og að þar gætti oft lítils samræmis, þar sem sumir uppfærðu upplýsingar fyrr en aðrir o.s.frv. Þá var þeirri hugmynd kastað fram hvort ekki væri hægt að koma öllum upplýsingunum fyrir á einum stað, þ.e. á einni heimasíðu þannig að notendur þyrftu ekki að hamast við að leita að þeim hér og þar á Netinu.

Kristján Andri Stefánsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, flutti erindi á fundinum um aðgang að upplýsingum hjá hinu opinbera. Í máli hans kom fram að árið 1996 hefði ríkisstjórnin markað ákveðna stefnu um málefni upplýsingasamfélagsins undir því metnaðarfulla formerki að "Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar". Að sögn Kristjáns falla meginmarkmið stefnunnar að mestu leyti saman við markmið Evrópusambandsins, eins og þau eru kynnt í grænbókinni.

Reglurnar verði skýrar og einfaldar

Hvað varðar samræmingu á upplýsingalögum innan Evrópu, sagði Kristján: "Ég vil aðeins leggja áherslu á að henni verði a.m.k. ekki beitt nema í þeim tilvikum sem það er greinilega til þess fallið að ná fram hinum alkunnu markmiðum Evrópusamvinnunnar og öruggt að þarfir viðskiptalífsins krefjist þess."

"Í grænbók Evrópusambandsins er velt upp þeirri spurningu hvort samræming takmörkunar- og undanþáguákvæða eigi rétt á sér. Þegar til þess er litið að hve miklu leyti slíkar takmarkanir eru þannig komnar undir mati stjórnvalda á hverjum stað hljóta hinsvegar að vakna með manni efasemdir um að samræming þeirra geti nokkurn tíma þjónað nema takmörkuðum tilgangi. Verði af einhvers konar samræmingu er a.m.k. vert að hnykkja á nauðsyn þess að reglurnar verði skýrar og einfaldar annars vegar og hins vegar að tryggðar verði virkar leiðir til að fá leyst úr ágreiningsmálum með einföldum, skjótum og ódýrum hætti."

Aðgangur hefur verið rýmkaður

Kristján fjallaði einnig þó nokkuð um réttarástandið á Íslandi fyrir og eftir gildistöku upplýsingalaganna árið 1996. Það sem helst hefur breyst er að aðgangur almennings að upplýsingum frá hinu opinbera hefur verið rýmkaður mjög, en meginreglan er sú að allir geta krafist aðgangs án þess að þurfa að nefna einhverja ástæðu fyrir beiðninni. Kristján sagði að upplýsingalögin hefðu breytt starfsskilyrðum stjórnvalda og krafist ákveðinnar hugarfarsbreytingar hjá starfsliði stjórnsýslunnar og e.t.v. almenningi líka.

Kristján sagði hins vegar að almennt væri viðurkennt að ákveðna hagsmuni bæri að verja fyrir óheftum aðgangi almennings og því ríkti þagnarskylda um ýmsar upplýsingar og að varðandi annað væri stjórnvöldum heimilt en ekki skylt að veita upplýsingar. Þær takmarkanir og undanþágur sem eru í gildi hér á landi eru færri en víða annars staðar, en víðtækari.

Takmarkanir og undanþágur voru útfærðar með nokkuð almennari og fyrirferðarminni hætti hér en þekkist t.d. á Norðurlöndunum vegna fámennisins hér, en það gerir stjórnvöldum kleift að starfrækja eitt og sama kærustigið fyrir synjanir um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga, þ.e. úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi og hafa því fordæmisgildi og stuðla að því að samræmi skapist um framkvæmd laganna með hraðari og öruggari hætti en annars hefði orðið.

Að áliti Kristjáns er engin knýjandi þörf fyrir almenna lagasetningu á sviði upplýsingamála, þótt e.t.v. þurfi að kanna einstök álitaefni nánar.

Kostnaðarsamt að hafa lokað stjórnkerfi

Að sögn Þórs Jónssonar, varaformanns Blaðamannafélags Íslands, en hann flutti erindi á fundinum, er félagið um margt ánægt með íslensku upplýsingalöggjöfina, þó það hafi ýmsar athugasemdir fram að færa. Að hans sögn snúa athugasemdirnar fyrst og fremst að því hversu rúman frest stjórnvöld hafa til þess að afgreiða fyrirspurnir, þá mætti gildissvið laganna vera víðara og að lokum eru skjalasöfn hvorki nógu vel uppfærð né í nægilega góðu lagi til þess að hægt sé að nýta sér lögin til fullnustu.

Þór sagðist á heildina litið vera nokkuð ánægður með grænbókina.

"Í grænbókinni kveður við nýjan tón hjá Evrópusambandinu, sem fyrir fjórum árum, þegar Svíar gengu í það, var furðu lostið yfir því að í Svíþjóð væri í krafti upplýsingalaga hægt að fá ýmis gögn og skjöl frá ESB, sem ekki væri hægt að fá í Brussel vegna þess að þar voru þau stimpluð sem trúnaðarmál," sagði Þór. "Embættismenn sambandsins töldu að þarna væri kominn leki að sambandinu sem þyrfti að setja undir, en í grænbókinni er aftur á móti bent á að það þurfi að vera auðvelt að afla sér upplýsinga frá stjórnkerfinu í hinum mismunandi löndum bandalagsins, atvinnulífsins vegna og vegna reglna um frjálsan flutning þjónustu og markaðsvöru á milli landa."

Þór sagði að margt í grænbókinni væri athyglisvert en þó hefði honum fundist einkar athyglisvert að sjá hversu miklum fjármunum væri sóað, einungis vegna þess hversu stjórnkerfið væri lokað og sagði hann að evrópska einkaleyfastofan mæti það svo að meira en 18 milljarðar evra (um 1.370 milljörðum íslenskra króna) á ári væru lagðir í rannsóknir sem þegar hefðu farið fram á vegum annarra.

Upphafið að enn frekari umræðu

Guðbjörg Sigurðardóttir, formaður verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið, fagnaði því hversu fundurinn var vel sóttur og taldi það bera vott um mikinn áhuga fólks á þessu málefni, en hún sagði að samanborið við önnur lönd stæði Ísland sig nokkuð vel á þessum vettvangi. Hún sagði að samt væri hægt að gera betur og að opna yrði meira umræðuna um persónuvernd og höfundarréttindi.

Varðandi grænbókina sagði Guðbjörg að hún hefði í raun ekki að geyma neinar spurningar sem kæmu sérstaklega á óvart en að tilkoma hennar hefði hinsvegar sett ákveðinn þrýsting á að koma þessum málum í opinbera umræðu.

"Þó við teljum okkur vera mjög vel stödd í þessum málum þá þurfum við stöðugt að vera á verði og það má telja að þessi fundur hér í dag (fimmtudag) sé í raun upphafið að enn frekari umræðu um upplýsingamál í okkar samfélagi," sagði Guðbjörg.

Morgunblaðið/Ásdís HALDINN var samráðsfundur um skýrslu Evrópusambandsins um opinberar upplýsingar og afstöðu Íslendinga til hennar, en um 80 manns sóttu fundinn, sem var haldinn á Grand hóteli á fimmtudaginn.

ÞÓR Jónsson, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, sagði að félagði væri um margt ánægt með íslensku upplýsingalögin þótt það hefði ýmsar athugasemdir fram að færa.