Manninum var ætlað að vera athafnasamur, sýna jákvæða áhættuhegðun, segir Edward H. Huijbens, og alast upp í nánu sambandi við náttúruna.
Hvað ungur nemur ­ gamall temur

Skátastarf Manninum var ætlað að vera athafnasamur, sýna jákvæða áhættuhegðun, segir Edward H. Huijbens , og alast upp í nánu sambandi við náttúruna.

VAR maðurinn hannaður til þess að hreyfa sig einungis á eggsléttum gólfum íþróttahúsanna, gerviefnahlaupabrautum og malbiki? Var manninum ætlað að sigla lygnan sjó vafinn í bómullarhnoðra, án áhættu, gersneyddur ævintýraþrá? Ég segi nei. Manninum var ætlað að vera athafnasamur, sýna jákvæða áhættuhegðun (ævintýraþrá) og alast upp í nánu sambandi við náttúruna og náttúruöflin. Eitt af markmiðum skátastarfs er að kynna börnum og unglingum hvernig menn bera sig að úti í náttúrunni. Í skátastarfi er ungu fólki kennt hvernig á að gera gott úr erfiðum aðstæðum og njóta útiveru sama hvernig viðrar. Það getur hver sem er verið úti í góðu veðri en skátinn getur verið úti í vondu veðri og liðið vel.

Útilíf í skátastarfi

Yngri skátar fara helgarferðir í betur búna útileguskála yfir vetrartímann og stunda gönguferðir um nágrennið. Á sumrin er farið í tjaldútilegur sem geta verið allt að viku eins og raunin verður með Landsmót skáta nú í sumar. Í ferðum skáta er miðað við að börnin starfi náið í hópi félaga undir handleiðslu fullorðinna skátaforingja. Við fimmtán ára aldur á skátinn þess kost að taka þátt í dróttskátastarfi, en þar er starfið komið í hendur skátans sjálfs og þeir sem svo kjósa geta helgað sig útilífinu heilshugar. Þá er markmiðið orðið lengri ferðir þar sem gist er úti jafnt að vetri sem sumri. Dróttskátinn fær leiðsögn reyndari manna í því hvernig hann á að búa sig og beita sér við öll hugsanleg skilyrði og um leið er að verið að gera hann hæfari sem björgunarsveitarmann. Þannig býður skátastarfið upp á heilsteypta útilífsdagskrá eftir öllum skátaaldrinum þar sem sífellt er byggt ofan á það sem fyrir er.

Af hverju útilíf?

Það hefur margt breyst í aðstæðum barna og unglinga á örfáum áratugum. Leikir barna hafa færst inn í hús, úr frelsi í helsi. Frjálsir leikir barna heyra nánast sögunni til ­ í dag eru það fullorðnir og formúluleikföng sem stjórna. Hjá yngstu börnunum hefur ábyrgð á daglegum leikjum barna færst frá heimilum yfir á leikskóla. Þau eldri eru ekki virk í sínum leikjum ­ myndbönd og tölvur ráða ferðinni. Börn eru hætt að gera eitthvað hættulegt því þeir sem "passa" þau leyfa það ekki af hættu við aðfinnslur og jafnvel kærur.

Bómull og A-4

Áður lærðu börn af athöfnum sínum, í dag læra þau af bókum, sjónvarpi og tölvum. Áður var leikumhverfi þeirra úr náttúrulegum efnum. Í dag er það plast, stál, steinsteypa og malbik. Þegar litið er yfir leiksvæði barna er búið að fletja út ójöfnur og vindurinn leikur ekki um hár heldur hjálma. Foreldrar ná nánustu sambandi við börn sín í bílnum á leið í skóla eða einhverja skipulagða verndaða tómstundaiðju ­ þau ganga ekki eða hjóla.

Og börnin uppskera eins og samfélagið sáir. Börn sýna ekki eins mikla færni í gróf- og fínhreyfingum og áður. Börnin eru feitari, viðkvæmari fyrir veðri og vindum og þau sem ekki rækta sinn kropp sitja eftir ­ í orðsins fyllstu merkingu. Í framtíðinni gæti þetta orðið samfélaginu mjög dýrkeypt. Með fleiri fallbrotum, bakmeiðslum, fleiri tilfellum hjarta- og æðasjúkdóma, minni mótstöðu gegn sjúkdómum og minna þoli gegn áföllum og álagi.

Á misjöfnu þrífast börnin best

Ég er þannig innréttaður að ég tel afar mikilvægt að kynna fyrir börnum og unglingum útilíf og útiveru, láta þau ganga og hreyfa sig við ýmsar aðstæður og í flestum ef ekki öllum veðrum. Við erfiðar aðstæður komast menn í tæri við sjálfan sig og náttúruna og geta fengið að takast á við vandamál sem snúa að því að komast af, finna kraft sinn og skynja hvað þeir geta og geta ekki. Svona kynni styrkja og móta sjálfsmynd hvers og eins og með réttu hugarfari og leiðsögn geta kynnin nýst sem uppbyggjandi þáttur í mótun sjálfsmyndarinnar.

Skáta-hreyfing

Eitt af grundvallaratriðum skátastarfs er að skátinn fái að læra af eigin reynslu, finna sín eigin takmörk og færa þau lengra. Ég hef þá bjargföstu trú að ef fólk fær að takast á við náttúruna þroski það einstaklinginn og geri hann færari til að takast á við öll vandamál sem hann mætir. Skátahreyfingin hefur náttúruna sem sitt athafnasvæði þar sem í bland fer líkamleg og andleg áreynsla, sem við erfið skilyrði neyðir menn til málamiðlana við sjálfa sig, náttúruna og ferðafélaga. Samskipti manna við erfiðar aðstæður eru nokkuð öðruvísi en hversdagstilveran krefst og það er dýrmæt reynsla að búa að.

Skátalíf er útilíf

Skátalíf er útilíf hefur verið "mottó" skátahreyfingarinnar lengi vel, enda er útilífið sú leið sem skátahreyfingin hefur valið til að þroska og bæta einstaklinginn. Þroskaður einstaklingur með jákvæða sjálfsmynd skapar sér sjálfstæðan lífsstíl byggðan á vitund sinni, þekkingu og reynslu ­ og fær ekki útrás fyrir eðlislæga áhættuhegðun (ævintýraþrá) með tilstilli eiturefna. Skátastarfið býður þannig upp á heilsteypta leið fyrir fólk á öllum aldri til þess að skapa sér sjálfstæðan lífsstíl byggðan í kringum útiveru og náttúruskoðun.

Höfundur hefur verið skáti í 13 ár og starfað sem skátaforingi á Akureyri og í Garðabæ.

Edward H. Huijbens