Íslenski fjallahjólaklúbburinn stendur fyrir kvöldferðum á hverju þriðjudagskvöldi í sumar, 12 til 30 km. Ferðirnar eru farnar um Reykjavík og nágrenni og öllum heimil þátttaka og er enginn kostnaður því samfara. Björn Finnsson hefur undanfarin sumur skipulagt þessar kvöldferðir.
Kvöldferðir Fjallahjólaklúbbsins Aðstaðan mætti batna

Íslenski fjallahjólaklúbburinn stendur fyrir kvöldferðum á hverju þriðjudagskvöldi í sumar, 12 til 30 km. Ferðirnar eru farnar um Reykjavík og nágrenni og öllum heimil þátttaka og er enginn kostnaður því samfara. Björn Finnsson hefur undanfarin sumur skipulagt þessar kvöldferðir. Hann var spurður hvers vegna staðið væri fyrir svona ferðum?

"Ég var mikið í skátastarfi og farastjórn hjá Útivist í mörg ár, þá hjólaði ég sjálfur talsvert og fór út í að skipuleggja hjólaferðir fyrir fólk. Þessar kvöldferðir eru hugsaðar til þess að fá fólk út sem á reiðhjól en notar þau sjaldan. Í leiðinni kynnist það borginni og nágrenni."

­ Hvað lengi hafa svona ferðir verið farnar á vegum Fjallahjólaklúbbsins?

"Þetta er fimmta sumarið. Þegar þetta byrjaði hófust ferðirnar við Fákshúsin gömlu við Elliðaárnar, þær stóðu yfir fyrsta sumarið allt og raunar fram í desember það ár, enda var veðurfar með eindæmum gott þá. Nú í seinni tíð þori ég ekki að halda þessu úti nema fram í september. Fólk er ekki útbúið til vetraraksturs á reiðhjólum, en komin eru nagladekk á reiðhjól. Án þeirra finnst mér ábyrgðarhluti að hvetja fólk í vetrarferðir. Þess vegna standa ferðirnar núna aðeins út september. Sjálfur hjóla ég allt árið meira og minna."

­ Hvenær hófst starfsemi Fjallahjólaklúbbsins?

"Hann verður tíu ára nú í sumar. Fjallahjólaklúbburinn var að fá nýja aðstöðu, húsið er á horni Brekkustígs og Framnesvegar og það er verið að gera það í stand núna. Skráðir félagar í klúbbnum eru núna um 250 manns. Þátttaka hefur verið að smá aukast."

­ Hvers vegna var þessi klúbbur stofnaður?

"Magnús Bergsson á aðallega heiðurinn að stofnun klúbbsins og hann hefur verið formaður þar til á síðasta aðalfundi, nú er Alda Jónsdóttir formaður. Klúbburinn var stofnaður til þess að berjast fyrir bættri aðstöðu hjólreiðafólks í umferðinni og aukinni hjólreiðanotkun til ferðalaga og eflingu reiðhjólsins sem farartækis. Loks má nefna umhverfisástæður."

­ Í hverju felst starfsemi Fjallahjólaklúbbsins auk kvöldferðanna?

"Í fyrsta lagi er alltaf opið hús á fimmtudagskvöldum, þá eru bæði fræðslufundir, myndakvöld, viðgerðanámskeið og síðan eru sett upp ferðaprógrömm á hverju ári. Klúbburinn hefur aðstoðað t.d. Ferðafélagið við hjólreiðaferðir, aðstoðað erlenda ferðamenn við skipulagningu ferða um landið og fleira."

­ Er mikið um að útlendingar ferðist á reiðhjólum um Ísland?

"Já, það er mikið um það. Þeir koma hingað með tvennum hætti, með Norrænu til Seyðisfjarðar, eða þá með flugvélum og þá fá þeir smjörþefinn af umferðarmenningu Íslendinga á Reykjanesbrautinni. Því miður verða nokkur slys þar á hverju ári, búið er að ræða við yfirvöld um þessi mál og í undirbúningi er að bæta aðstöðu hjólreiðamanna á Reykjanesbrautinni."

­ Hvernig gengur að öðru leyti að fá bætta aðstöðu fyrir hjólreiðamenn?

"Það gengur heldur treglega. Það hefur verið nokkuð þokkalegt hérna á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í nýjum hverfum. En tenging milli bæjarfélaga á þessu svæði er nánast engin. Ef fólk ætlar að hjóla úr Garðabæ upp í Mosfellsbæ á það enga greiða leið og verður víða að leggja sig í stór hættu. Það eina sem menn geta gert er að vera í umferðinni eða vegaröxlunum, sem eru ekki til þessa gerðar."

­ Er almenningur áhugasamur um hjólreiðar?

"Áhugi hjólreiðamanna sést best á því að til Íslands eru árlega flutt inn á milli fimmtán og sautján þúsund hjól. Þetta eru meðaltalstölur fyrir síðustu ellefu ár. Miðað við þetta eru um 150 þúsund hjól í gangi í landinu, langflest hér á höfuðborgarsvæðinu ­ mörg þeirra barnahjól reyndar. Megnið af þessum hjólum eru sáralítið í notkun, bara á góðviðriskvöldum og eina og eina helgi."

­ Er eftirsóknarvert að hjóla?

"Já, það er heilsubætandi að hjóla auk þess sem það er umhverfisbætandi, það mengar ekki og er loks mjög ódýr kostur."

­ Er Ísland ekki erfitt land til hjólreiða?

"Nei, við eigum mikið af fjallahjólum með gírabúnaði sem leyfir okkur að takast á við brekkur og erfitt landsvæði. Útlendingar sem ég hef talað við finnst verulega spennandi að hjóla á Íslandi. Það er líka kominn mjög góður klæðnaður til hjólreiða. Fólki ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði að fara að hjóla."Björn Finnsson er fæddur að Holti á Kjalarnesi 1949. Hann lauk unglingaprófi frá Vogaskóla og fór síðan að vinna í versluninni Geysi. Eftir það starfaði hann um árabil hjá O. Johnsen & Kaaber, sem erindreki hjá Bandalagi íslenskra skáta og hjá Landvélum. Hann rak um tíma eigin heildverslun en starfar nú hjá Fálkanum. Björn hefur starfað við fararstjórn hjá Útivist, hann annast nú kvöldferðir fyrir almenning á vegum Fjallahjólaklúbbsins. Björn er ókvæntur og barnlaus.

Heilsubætandi að hjólaBjörn Finnsson