ÞEIR, sem raða upp efni í sjónvarpsdagskrár, eiga við þann vanda að stríða, að gera sem flestum til hæfis. Eðlilegt er að það gangi nokkuð bögsulega, enda má sjá mýmörg dæmi þess í dagskránum. Bæði er að dagskrárstjórar hafa ekki hlotið sérstaka þjálfun í starfi, heldur koma úr hinum og þessum störfum, oft varla komnir af fótboltaaldri,
Þegar ríkið borgar ÞEIR, sem raða upp efni í sjónvarpsdagskrár, eiga við þann vanda að stríða, að gera sem flestum til hæfis. Eðlilegt er að það gangi nokkuð bögsulega, enda má sjá mýmörg dæmi þess í dagskránum. Bæði er að dagskrárstjórar hafa ekki hlotið sérstaka þjálfun í starfi, heldur koma úr hinum og þessum störfum, oft varla komnir af fótboltaaldri, og reynsluleysis þeirra gætir náttúrlega við hinar daglegu pælingar við að koma saman dagskrá. Að hinu leytinu þurfa þeir að fást við þá sem hafa peningavöldin, sem telja að nóg sé að kaupa kvikmynd og minna máli skipti hvernig hún er úr garði gerð. Mikill innflytjandi kvikmynda hefur hreiðrað um sig á annarri helstu sjónvarpsstöðinni án þess að hann viti nokkuð um kvikmyndir og kaupi þær inn í næstum kílóatali eins og smjörlíki, en sjónvarpsstöð hans er skyldug til að kaupa hroðann. Með hroðanum eru svo skemmtidagskrár búnar til handa almenningi, sem auðvitað sér ekki nokkra glætu í dagskránni. En almenningur heldur hins vegar að dagskrár svona fíns tækis hljóti að vera vandaðar. Hann hefur engin tök á að vita að gróðapungar hafa engan áhuga á vönduðum hlutum. Vandaðir hlutir eru leiðinlegir að þeirra mati. Þegar um ríkisrekna dagskrá er að ræða er afsökunin fyrir lélegri dagskrá hreint engin. Nýverið fór kaupfélag norður í landi á hausinn af því inn í það hafði verið hlaðið starfsmönnum, sem höfðu haft fyrir vana á aðalfundum að láta líta svo út sem þeir einir vissu hvernig reka átti fyrirtæki. Af pólitískum ótta voru þessir menn ráðnir ótt og títt til starfa. Síðan rann upp sá dagur að fyrirtækið fór á hausinn. Eini munurinn á þessu kaupfélagi og ríkisútvarpinu er, að ríkið rekur útvarp og sjónvarp og tapar stórfé áratugum saman, en skattgreiðandinn borgar. Nýlega eyðilagðist hús í Hafnarfirði af því maurar höfðu étið innviðina. Menn sjá kannski samlíkinguna. Þurfi að ráða starfskraft að Ríkisútvarpinu hefur það verið lenskan að saka borgaraflokkana um að vilja mismuna eftir pólitík. Þessir flokkar hafa verið með hjartað í buxunum áratugum saman út af því að vera kallaðir vondir menn og þora því ekki að ráða annað en einlitt fólk andstæðinga. Niðurstaðan er stöðugt tap í rekstri og auknar álögur á skattgreiðendur auk skylduáskriftar. Þessir andstæðingar borgaraflokkanna geta ekki hugsað sér að mjólkurkýrin verði seld. Farið er að gaula lög í sönglagakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og hafa þau lítið batnað í áranna rás. Íslendingar, helteknir af engilsaxneskum músíkhnykkjum, hafa hvergi komist í þessari keppni og eiga ekki von á miklu, þótt væntingar séu nógar. Vel hefur gefist að sofa hjá svörtum, enda eru allir að verða "afró" í músíkinni og myndu popp-hljómsveitir íslenskar gera vel í því að leggja þeldökka í ból með sér ­ fyrst frægðin kemur þaðan. Allt viljum við gera fyrir frægðina, meira en að sitja á Gauki á Stöng, bjórsalernum eða hlandportum til að láta DV taka myndir af okkur. Bandarísk kvikmynd, Feigðarförin, var sýnd í þremur hlutum um síðustu helgi. Þetta var í raun hálfgerður vestri og gerðist í Texas á tímum átaka á milli Mexíkóbúa og Texasmanna. Þessi mynd var nokkuð langdregin á köflum en bjargaðist á fyndnum texta og að því er virtist sannferðugum lýsingum. Sagan gerist um miðja síðustu öld, eftir bardagann við Alamó við bæinn San Antonio í Texas. Fylkið er stórt og það kostaði mikla baráttu að ná því af Mexíkönum. Hópur manna er á leið vestur til Santa Fe en missir hesta sína og farangur og má ganga mest af leiðinni og þola miklar hörmungar. Það var í rauninni ótrúlegt hvað fólk gat lagt á sig við landnám vestra og ekki nema von að af því spynnust ævintýrasögur. Texas er ríkt af slíkum sögum í vitund Bandaríkjamanna allt frá tímum Conquistadoranna. Fyrr í vikunni var sýnd mynd um Casanova, þann átjándu aldar kvennadólg og undanreiðarmann Evrópubandalagsins. Myndin var ekkert sérstök enda bólfarir orðnar næsta algengar í kvikmyndum. Indriði G. Þorsteinsson