Ég hef á tilfinningunni að hafa verið frystur úti þar sem ég lauk ekki námi heima hjá mömmu, segir Ragnar Jónsson, og útskýrir hér hvers vegna.
Kjör námsmanna

Námslán Ég hef á tilfinningunni að hafa verið frystur úti þar sem ég lauk ekki námi heima hjá mömmu, segir Ragnar Jónsson , og útskýrir hér hvers vegna.

NÝLEGA var loks hlustað á kröfur námsmanna og kjör þeirra lítillega bætt. Gott svo langt sem það nær en tekjuþak undir raunverulegum framfærslukostnaði er enn til staðar. Finn kosningalykt af þessu. Fór í skóla 36 ára gamall eftir langt hlé. Hef sem fjölmargir aðrir sterklega á tilfinningunni að hafa verið frystur úti þar sem ég lauk ekki námi heima hjá mömmu. Hér útskýri ég hvers vegna. Einstaklingur í eigin eða leiguhúsnæði fékk lán uppá 57.600 á mánuði níu mánuði ársins en það var hækkað í 60.500. Sú upphæð lækkar svo um 2­3 þús. vegna bankakostnaðar. Um það bil 58 þús. til ráðstöfunar. Eftir að 185 þús. árstekjum var náð skertist lánið. Var hækkað í 250 þús. Bankakostnaðurinn kemur til vegna þess að ekki er um að ræða beingreiðslur frá LÍN heldur lánar bankinn þar til greiðslan frá LÍN kemur í lok annar. Ef eitthvað kemur upp á, t.d. fall í fögum eða veikindi, ertu kominn í skammtímaskuld við bankann. LÍN er stikkfrí. Hefur dottið í hug að fyrir stjórnsýslulegan klíkuskap hafi verið ákveðið að velta þessu öllu gegnum bankana til tekjuauka fyrir þá. Væri þá ekki bara betra að einkavæða námslánin alveg og láta bankana um þetta? Pör hafa oft þann háttinn á að fara í nám til skiptis og sá sem ekki er í námi vinnur sem mest hann getur. Þetta vita yfirvöld og skerða lán þess sem er í námi. Tekjuþakið skal gilda! Mörgum tekst að draga fram lífið af umræddri upphæð svo kannski þjáist ég bara af heimtufrekju. En hér er ekki um að ræða gjöf heldur lán þótt reyndar séu vextir niðurgreiddir. Ef til vill eru hér líka skilaboð um að hver bjargi sér sem best hann getur með svartri vinnu í þessu villimannaþjóðfélagi. Þeim sem vinna er refsað.

Sjálfsbjargarviðleitnin er barin ofan í skítinn. Þetta eru tvöföld skilaboð í þessu vinnusjúka þjóðfélagi þar sem dýrðarljómi hvílir yfir mikilli vinnu. Námsmenn skulu lifa undir fátæktarmörkum. Þetta á einnig við um aðra hópa svo sem öryrkja og aldraða. Trúi því ekki að námsmannasamtök muni sætta sig við þetta. Hámenntaðir fræðingar hafa samt örugglega reiknað út að hægt sé að lifa sómasamlegu lífi af þessari upphæð. Hér er ekki gerð krafa um að geta lifað munaðarlífi í skóla heldur aðeins að vera laus við basl og fjárhagsáhyggjur sem geta truflað námið. Best er að svelta fólk til hlýðni sem yngst. Set þetta í beint samhengi við yfirlýsta láglaunastefnu undanfarinna ríkisstjórna. Ríkisstjórnin sendi bækling til erlendra stóriðjurekenda og auglýsti að laun hér væru lægri en annars staðar í Vestur-Evrópu og ekki væri útlit fyrir breytingar. Skömm er þeim föðurlandssvikurum og auðvaldsundirlægjum sem að þessu stóðu. Líklega er meiningin að gera Ísland að einhvers konar bananalýðveldi sem réttara væri að kalla slor-mafíuveldi. Er sú gamla hugsun að skólagengnir séu ólíklegri til að vilja starfa við hefðbundin landbúnaðar- og fiskvinnslustörf enn á lífi? Það held ég! Dagskráin í fullum skóla getur verið allt að 48 kennslustundir á viku, rúmlega 40 klst. viðvera fyrir utan heimalærdóm. Má reikna með 50­55 tímum. Þegar allt að 40 tíma kvöld- og helgarvinnu auk þess að sjá um heimili er bætt ofan á þessa dagskrá er hætt við að það komi niður á mætingu og frammistöðu í skólanum. Auðvitað er alltaf hægt að benda á óþreytandi vinnuþjarka sem finna varla fyrir þessu og saka hina um leti og aumingjaskap. Neyddist á tímabili til að keyra mig áfram á geysilegu koffeinmagni og öðru sterkara. Svona hraður einstefnuakstur getur líka verið hættulegur heilsunni og gefur varla tíma til að hugsa, aðeins læra eins og páfagaukur. Svo er það oft verra í öðrum löndum, stríðshrjáðum eða frumstæðum. 35 þús. kostnaður á mánuði af eigin eða leiguhúsnæði kallast vel sloppið. Þá eru eftir rúmlega 20 þús. fyrir fæði og öllu öðru. Ekkert upp á að hlaupa til að greiða óvæntan kostnað, t.d. tannlækna. Ef eitthvað óvænt kemur upp á er ekki um annað að ræða en hætta í skólanum eða bæta á sig vinnu og sprengja tekjuskalann, fá ekki áframhaldandi lán. Þessi kjör eru boðin hjá einni ríkustu þjóð heims. Þóttist tilbúinn að færa nauðsynlegar fórnir til að geta lifað af þessari upphæð, 55 þús. M.a. henda bílnum, en ég átti gamlan og í raun löngu ónýtan bíl sem ég hafði haldið við sjálfur með lágmarkstilkostnaði, og láta innsigla sjónvarpið. Hefði varla haft efni á strætókorti. Í sambandi við matarkostnað hefði verið hægt að nota kínversku aðferðina og kaupa 50 kg sekki af hrísgrjónum í Bónus og hafa í öll mál. Var hins vegar ekki tilbúinn til að flytja úr íbúðinni en búið var að gefa mér þau fáránlegu ráð að gera það, leigja hana svart, pakka niður eða losa mig við innbú og flytjast í eitt herbergi. Hætti við þessa niðurskurðarleið vegna þess að endurskoðandanum var ekki vel við að láta frá sér skýrslu sem þó sýndi hærri tekjur en þær sem LÍN segir vera hægt að lifa af. Sá líka að þessar tekjur nægðu alls ekki. Aftur tvöföld skilaboð! Skattstjóri og LÍN virðast ekki hafa samráð. Veit að margir ofþreytast og brenna út við þessar aðstæður og er sjálfur á mörkunum. Ekki þarf mikla stærðfræðikunnáttu til að reikna út að oft borgar nám sig ekki þegar tekið er tillit til vinnutaps, launa, skatta og afborgunar námslána. Fórnarkostnaðurinn er of hár. Ef námi er lokið löngu eftir þrítugt má yfirleitt alveg afskrifa beinan hagnað. Ekki beint hvetjandi. Margir lenda í þeim vítahring að safna skuldum yfir veturinn og þurfa að vinna myrkranna á milli á sumrin til að ná endum saman. Hafa þar með of miklar tekjur svo lánið skerðist, mæta síðan útkeyrðir í skólann aftur að hausti og svo frv. Komst líka að því að ef þú ferð úr fullri vinnu í skóla, vinnur hlutastarf með, missir starfið eða veikist hefur þú verið sviptur áunnum réttindum. Ert í betri málum liggjandi heima en í skóla. Hér leggjast verkalýðsfélögin á sveif með hinu opinbera og brjóta mannréttindi. Hreinlegra væri að vara fólk sem hyggur á nám við þessu og láta það skrifa undir samþykki sitt fyrir þessari skerðingu mannréttinda. Þá kæmi ekki á óvart að hafa minni rétt en afbrotamaður. Helsta stefnumál ríkisstjórnarinnar virðist vera að viðhalda fátækt og hugsa um hag kolkrabbans, kvótabraskaranna og stóriðjunnar. Hef aldrei trúað þeim lygaáróðursþvættingi að hér búi hamingjusamasta þjóð í heimi og að hér séu ekki brotin mannréttindi. Segi mig hér með opinberlega úr lögum við þetta falska velferðar- og lýðræðisþjóðfélag. Þó svo að reglum verði breytt er ég harðákveðinn í að þiggja ekki krónu og berjast áfram á eigin kostnað.

Höfundur er nemi í rafeindavirkjun.

Ragnar Jónsson