HÆSTIRÉTTUR hafnaði á fimmtudag kröfu fyrrverandi stjórnarmanns í Búlandstindi á Djúpavogi um að hann fengi að njóta forkaupsréttar við sölu á hlutabréfum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins í fyrirtækinu.
Sala á hlutabréfum Þróunarjóðs sjávarútvegsins Forkaupsrétti stjórnar hafnað

HÆSTIRÉTTUR hafnaði á fimmtudag kröfu fyrrverandi stjórnarmanns í Búlandstindi á Djúpavogi um að hann fengi að njóta forkaupsréttar við sölu á hlutabréfum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins í fyrirtækinu.

Krafa mannsins byggðist á því að samkvæmt 12. grein laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins skyldi "starfsfólk og aðrir eigendur" fyrirtækja, þar sem sjóðurinn átti hlutafé, eiga forkaupsrétt við sölu á þeim hlutabréfum í ágúst 1996.

Honum hafði ekki verið boðinn þessi réttur fyrr en hann leitaði eftir því en stjórn Þróunarsjóðsins hafnaði síðan ósk hans um að njóta forkaupsréttar. Hann krafðist skaðabóta, um 2,4 milljóna króna, vegna þess.

Staðfestur héraðsdómur

Í dómi Hæstaréttar var dómur héraðsdóms staðfestur með skírskotun til forsendna sinna en niðurstaða dómarans hafði verið sú að bundið sé í lögum hverjir geti neytt forkaupsréttar á hlutabréfum Þróunarsjóðsins og að stjórnarmenn í hlutaðeigandi hlutafélögum séu ekki þar á meðal enda geti þeir ekki talist starfsmenn félagsins.

Í héraðsdóminum segir að ljóst sé að stjórnarmaður í hlutafélagi er "ekki ráðinn þangað til starfa heldur er hann kosinn af hluthöfum, sem eru eigendur félagsins, til að fara með stjórnunar- og eftirlitsstörf í félaginu". Þá komi ekki fram í lögum um hlutafélög að stjórnarmenn í hlutafélagi skuli teljast til starfsmanna þess. Því hefði þurft að taka fram í 12. grein laganna um Þróunarsjóð sjávarútvegsins ef forkaupsréttur sem lagagreinin kveður á um ætti einnig að ná til stjórnarmanna.

Því fellst dómurinn ekki á að stjórnarmaðurinn hafi átt forkaupsrétt sem starfsmaður félagsins og að ekki hafi verið lagaskilyrði fyrir því að hann gæti keypt hlutabréfin samkvæmt forkaupsréttarákvæðinu. Því hafi það verið lögmæt ákvörðun stjórnar þróunarsjóðs að hafna ósk hans um að neyta forkaupsréttar og breyti engu þótt honum hafi áður verið boðinn forkaupsréttur að hlutabréfunum.