Leikstjórn og handrit: Hal Hartley. Aðalhlutverk: Thomas Jay Ryan, James Urbaniak og Parker Posey. Sony Pictures Classics 1997. HENRY Fool er mjög dæmigerð mynd fyrir Hal Hartley. Það var viss léttir að sjá hana eftir seinustu mynd hans Flirt, sem mér fannst mjög tilgerðarleg og leiðinleg. En Hal er aftur kominn inn á rétta braut; sína braut.

Sannleikurinn er

erfiður

KVIKMYNDIR

Háskólabíó

HENRY FOOLLeikstjórn og handrit: Hal Hartley. Aðalhlutverk: Thomas Jay Ryan, James Urbaniak og Parker Posey. Sony Pictures Classics 1997.

HENRY Fool er mjög dæmigerð mynd fyrir Hal Hartley. Það var viss léttir að sjá hana eftir seinustu mynd hans Flirt , sem mér fannst mjög tilgerðarleg og leiðinleg. En Hal er aftur kominn inn á rétta braut; sína braut.

Allt frá byrjun hefur Hal haldið sig við sama ljóðræna stílinn. Myndirnar hans eru hægar, fallega teknar, það sem manni þykir undarlegast og skemmtilegast er leikstíllinn. Hann er mjög leikhúslegur; yfirdrifinn, dramatískur en mjög hreinskilinn. Og einhvern veginn fellur þetta "menningarlega" yfirbragð eins og flís við rass við viðfangsefnið, sem oft og iðulega er sótt til undirmálsmanna.

Hal Hartley fjallar um fólk í vandræðum, fólk sem er að leita; að sjálfu sér eða einhverjum öðrum. Og þótt sagan og aðstæður fólksins séu oftast dapurlegar, er undirliggjandi húmor gegnumgangandi. Hann er maður andstæðnanna; ekkert er eins og það á að vera. Það líkar mér.

Henry Fool er ekki undantekning á þessu, nema að ég hefði viljað sjá meiri ljóðrænu í stílnum. Það hefði ekki verið óviðeigandi þar sem myndin fjallar um hvernig skáldið Henry Fool uppgötvar snilligáfu öskukarlsins Símonar Grims, sem fljótt verður þekktur fyrir klámfengna og andþjóðfélagslega prósa sína.

Innihalds- og þýðingarlaus orðaflaumur streymir í gegnum myndina. Fólk er síblaðrandi án þess að segja neitt af viti. En þegar Símon Grim festir nokkur orð á blað, sem koma frá hjarta hans og hann hefur melt með sér í tvo áratugi, syngur fólk, grætur og líkamsstarfsemi þess raskast. Eftir að hafa velkst um í bullinu allt sitt líf er erfitt að heyra sannleikann.

Hildur Loftsdóttir