Breytingar á þjónustu SAS FLUGFÉLAGIÐ SAS kynnir um þessar mundir nýtt útlit félagsins annars vegar og hins vegar viðamiklar breytingar á þjónustu þess. Í fréttatilkynningu frá félaginu kemur fram að markmiðið með þessum breytingum sé að mæta harðnandi samkeppni og koma til móts við auknar kröfur viðskiptavina félagsins.


Breytingar á þjónustu SAS

FLUGFÉLAGIÐ SAS kynnir um þessar mundir nýtt útlit félagsins annars vegar og hins vegar viðamiklar breytingar á þjónustu þess. Í fréttatilkynningu frá félaginu kemur fram að markmiðið með þessum breytingum sé að mæta harðnandi samkeppni og koma til móts við auknar kröfur viðskiptavina félagsins.

Félagið hefur undanfarin ár staðið fyrir ítarlegum markaðsrannsóknum til að kanna óskir og þarfir farþega sinna víða um heim. Áralöng hönnunarvinna liggur að baki breytingunum enda snerta þær alla þætti starfseminnar, s.s. merki félagsins, flugvélar, fatnað starfsfólks og allt sem viðkemur þjónustunni.

Að sögn Steinunnar Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra SAS á Íslandi, mun flugfélagið gera víðtækar breytingar á öllum sínum flugvélum, bæði útliti og innréttingum, og á því að ljúka fyrir árið 2000.

Nýtt merki SAS hefur þegar verið tekið í notkun og nýr einkennisfatnaður hinn 7. maí síðastliðinn.

"Einnig verða miklar breytingar gerðar á þjónustunni og mikil áhersla lögð á valfrelsi viðskiptavinarins. Mest verður valið á viðskiptafarrými og þjónustan þar aukin mest. Þar verður til dæmis hægt að velja sér mat og myndband auk þess sem sími verður við hvert sæti," segir Steinunn.

SAS er skandinavískt flugfélag og eru uppruni flugfélagsins, saga og menning afgerandi þættir í hinni nýju hönnun.

Hinn 1. apríl voru 30 ár liðin frá því að söluskrifstofa SAS var opnuð á Íslandi og í dag starfa þar 10 manns.

Morgunblaðið/Ásdís Starfsfólk SAS í nýjum einkennisfatnaði. Áhersla var lögð á að fatnaðurinn væri frjálslegur og starfsfólkið gæti valið sér mismunandi flíkur eftir því hvað best hentaði.